Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sælir foreldrar Sælukotsbúa

Þá er skólastarfið komið á fullt og Sælukotið hefur fyllst af lífi aftur eftir sumarfríið. Byrjunin var pínu strembin fyrir bæði krakkana og okkur starfsfólkið, Sælukot er nú komið í nýtt húsnæði og það tekur alltaf tíma að venjast nýjum aðstæðum. Sælukot flutti á efri hæðina í nýju byggingunni í Sjálandsskóla. Aðalbækistöðvarnar eru á efri pallinum inni í glerbúrinu! Auk þess höfum við aðstöðu útum allt í nýju byggingunni, stóra íþróttasalinn, danssalinn,þreksalinn(vantar öll tæki þannig að hann er auður), einnig höfum við aðgang að tölvupallinum og fleiri skúmaskotum í skólanum.

Krakkarnir eru smám saman að læra reglurnar í Sælukoti og starfsfólkið að læra á krakkana, getur tekið tíma að læra 66 ný nöfn !

Núna erum við loksins búin að fullmanna Sælukot af hæfu og skemmtilegu starfsfólki. Davíð er áfram umsjónarmaður og sér um allar umsóknir og er yfir starfsemi Sælukots. Hafdís, lífefnafræðingurog Dagný nýstúdent og nemi í hagfræði  eru alla daga í Sælukoti, Hafdís til 4 en Dagný til loka. Sigrún er skátaforingi og nemi í ferðamálafræði og að lokum kom Fjóla til okkar aftur en hún vann hjá okkur í fyrra ásamt því að vera að stúdera stjórnmálafræði í Háskólanum. Eins og á þessari upptalningu sést er starfshópurinn skemmtilega samansettur og þegar það bætast við 66 krakkar úr Sjálandsskóla er þetta flott blanda.

Vonandi hafa allir fengið bæklinginn um Sælukot heim í síðustu viku, allavega var þeim dreift á krakkana og ætti hann því að leynast í töskunni ef hann er ekki kominn á ísskápinn heima nú þegar! Hægt er að nálgast hann hjá okkur í Sælukoti ef hann skilaði sér ekki.

Þó svo að við höfum flutt okkur innan skólans eru markmiðin okkar þau sömu - að öllum líði vel í Sælukoti og finni eitthvað við sitt hæfi á hverjum degi. Mismunandi svæði eru í boði á hverjum degi en ekki er alltaf hægt að búast við að öll svæðin séu opin á hverjum degi. Það er líka gott fyrir krakkana að prófa sem flest svæði og ekki festast alltaf í sömu svæðunum.

Svo í október verða væntanlega smávægilegar breytingar á starfseminni en vonandi til góðs. Þá munum við bjóða uppá fasta tíma á vissum svæðum, námskeið í Lego og ætlum einnig að bjóða uppá skák 1-2 svar í viku og vonandi eitthvað fleira skemmtilegt. Það er verið að vinna í þvi að fá dansnámskeið í Sælukot og það verður vonandi klárt í október. Endilega fylgist með pósti frá Sælukoti og kynnið hvað er í boði fyrir krakkana.

Að lokum ætla ég að minnast á húsnæðið enn og aftur, við erum í alveg glænýju húsnæði, það vantar enn ýmislegt í húsið okkar t.d. fatahengi og stað til að geyma skólatöskurnar og fleira í þeim dúr, þetta tekur allt sinn tíma og kostar peninga sem við eigum kannski ekki alveg núna en þó hefur Sælukot fjármagn til að kaupa eitthvað dót og leiktæki og er það ætlunin á næstu dögum. Hins vegar ætla ég að biðja ykkur að hjálpa okkur að búa til svona kósýkrók í Sælukot og til þess vantar okkur púða, stóra og litla, alveg frá koddum uppí grjónapúða. Endilega komið með púða í Sælukot og við ætlum að reyna að búa til svæði þarsem hægt er að slaka aðeins á og hvíla sig seinnipartinn í Sælukoti.

Að lokum vil ég minna á að þegar foreldrar koma og sækja börnin að nota nýja innganginn, sunnan megin við skólann. Óskilamunir safnast uppi hjá okkur og um að gera í kíkja í pokann við tækifæri ef þið saknið einhvers. Einnig vil ég minna á að ef þið hafið einhverja spurningar eða bara viljið vita hvernig gengur í Sælukoti þá endilega sendið okkur línu eða að koma og kíkja inn í spjall við starfsfólkið.

Með von um gott samstarf í vetur
Bestu kveðjur
Starfsfólk Sælukots

English
Hafðu samband