Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forvarnarvika

02.10.2017
Forvarnarvika

Dagana 2.-6. október verður haldin forvarnavika í leik- og grunnskólum Garðabæjar. Þema vikunnar er snjalltækjanotkun barna og unglinga, líðan og svefn undir slagorðinu "Er síminn barnið þitt?". Í vikunni verður boðið upp á fræðslu þessu tengt fyrir foreldra í Garðabæ, starfsfólk skólanna og nemendur.

Fyrr í haust var haldin teiknimyndasamkeppni þar sem nemendur úr öllum leik- og grunnskólum bæjarins gátu skilað inn mynd tengdu þema vikunnar sem fara á plaköt til að vekja athygli á málefninu í bænum. Sigurvegari teiknimyndasamkeppnarinnar er nemandi úr 7. bekk hér í skólanum, Hafdís Rut Halldórsdóttir. Sigurvegarinn frá því í fyrra, Magdalena Arinbjörnsdóttir í 8. bekk, átti einnig mynd í verðlaunasæti og fá þær afhend verðlaun í vikunni fyrir myndirnar sínar.

Markmiðið með forvarnavikunni er að vekja athygli nemenda okkar á snjallsímanotkun og hvaða áhrif hún hefur á okkur, bæði góð og slæm. Markmiðið er einnig að kynna nemendur okkar fyrir hugmyndum að skemmtilegum gæðastundum með fjölskyldu og vinum, gæðastundum þar sem hvorki sími né tölva eru við hönd. Munu nemendur vinna verkefni í vikunni því tengdu.

Fræðsla í Sjálandsskóla í tengslum við forvarnarviku

Þriðjudaginn 3. október munu nemendur í 5.-7. bekk fá fræðslu frá SAFT um netið og samfélagsmiðla, alvarleika rafræns eineltis og óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu, slæm áhrif ofnotkunar á tölvum og neti auk þess sem hvatt er til jákvæðrar og ábyrgrar netnotkunar.
Föstudaginn 6. október mun Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur koma og heimsækja nemendur í 9. og 10. bekk og fjalla um ofnotkun tölva og snjalltækja.

Opinn fræðslufundur fyrir foreldra – fimmtudaginn 5. október kl. 20 í Sjálandsskóla
Fimmtudaginn 5. október kl. 20:00 verður haldinn opinn fræðslufundur fyrir foreldra í húsnæði skólans. Á fundinum verður fjallað um umgengni við snjalltæki og hvað beri að varast. Á fundinum flytja Björn Hjálmarsson, barna- og unglingageðlæknir, og Arna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur, erindi. Yfirskrift erindis Björns Hjálmarssonar er ,,Snjalltækjanotkun barna og unglinga – er eitthvað að óttast?“, þar sem hann fjallar um þær miklulífstílsbreytingar sem orðið hafa hjá börnum og unglingum með tilkomu nýrrar tækni og hvort einhverjar ógnir lúri í farvatninu. Arna Skúladóttir, barnahjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í svefni og svefnvanda barna, ræðir um hvað hefur áhrif á svefn barna og unglinga, t.d. skipulag á daglegu lífi, venjur foreldra og persónugerð barnsins. Léttar veitingar verða í boði á fundinum og allir eru velkomnir.

Til baka
English
Hafðu samband