Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ný menntastefna sem birt er í aðalnámskrá grunnskóla 2011 byggir á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina.

Þessir grunnþættir eru:

  • Læsi
  • Sjálfbærni
  • Heilbrigði og velferð
  • Lýðræði og mannréttindi
  • Jafnrétti
  • Sköpun

Grunnþættirnir byggjast á því viðhorfi að unnið sé bæði að samfélagslegum markmiðum og markmiðum er varðar menntun sérhvers einstaklings. Þeir eru samfélagsmiðaðir þar sem þeim er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti og vinna þannig að því að samfélagið fái vel menntað og heilbrigt fólk, bæði til þátttöku í að breyta samfélaginu til betri vegar og til þeirra starfa sem unnin eru í samtímanum. Þeir skulu vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða, bæði hvað varðar þá þekkingu og leikni sem börn og ungmenni skulu afla sér. Samkvæmt 24.gr. laga um grunnskóla ber að leggja áherslu á ýmsa þætti í námi og kennslu. Þessir þættir eru m.a. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félags- og borgaravitund, félagsfærni og gagnrýnin hugsun. Þessir áhersluþættir eru ekki bundnir við einstakar námsgreinar heldur eiga þeir að vera leiðarljós í menntun og starfsháttum skólans. Í hnotskurn mætti segja að verið sé að byggja upp umhverfisvæna borgaravitund hjá hverjum og einum nemanda.

Læsi

Læsi er undirstaða alls náms í skólastarfi. Læsi er lykill að samskiptum, gagnkvæmum skilningi og forsenda samskipta nemenda við umhverfi sitt. Stefnumótun varðandi læsi þarf að vera skýr og setja þarf metnaðarfullar kröfur. Lestrarstefna Sjálandsskóla er skýr og metnaðarfull, sjá: Lestrarstefna Sjálandsskóla. Allt starfsfólk skólans þarf að vera upplýst og meðvitað um birtingu læsis. Læsi í víðum skilningi á við um t.d. stærðfræðilæsi, tæknilæsi, stafrænt læsi, miðlalæsi o.s.frv. Nemendur þurfa jafnframt að vera læsir á náttúru og nærumhverfi sitt. Þeir þurfa að þekkja og virða reglur, skrifaðar og óskrifaðar. Nemendur fá góða þjálfun í tjáningu og gert er ráð fyrir að allir nemendur skólans fái tækifæri
til að koma fram.

Sjálfbærni

Sjálfbærnimenntun á að stuðla að: Virðingu fyrir umhverfi og náttúru, félagslegu jafnrétti, næmni fyrir menningarlegum blæbrigðum og réttlátri skiptingu lífsgæða í nútíð og framtíð. Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu. Í Sjálandsskóla er unnið með sjálfbærni með fjölbreyttum hætti þó svo að virðing fyrir umhverfi og náttúru og skiptingu lífsgæða sé þar í öndvegi. Í þemavinnu og útikennslu eru mörg verkefni sem stuðla að aukinni umhverfissvitund. Tengsl skólans við fyrirtæki, stofnanir bæjarins og samfélagsins eru efld í þema og útikennslu. Í skólanum er flokkað allt efni, blöð, umbúðir og lífrænn úrgangur. Á hverju ári er viðburður að vori, allir árgangar hreinsa nærumhverfi skólans. Þá er markvisst unnið að því að í list- og verkgreinum að endurnýta fjölbreytt efni sem fellur til í skólanum og á heimilum nemenda. Nemendur fá þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og stuðlað er að áhuga þeirra til að taka þátt í samfélaginu.

Heilbrigði og velferð 

Í starfi Sjálandsskóla er mikil áhersla á hreyfingu, heilbrigði og velferð. Nemendur eru hvattir til að koma fyrir eigin vélarafli í skólann og borða hollan mat. Í íþróttakennslunni er lögð áhersla á að kynna nemendum fjölbreyttar íþróttagreinar og hreyfingarmöguleika bæði utan og innanhús. Útikennsla umsjónarkennara er einnig tengd hreyfingu, heilbrigði og velferð. Skólinn tekur þátt í ýmsum hreyfiáskorunum, fer í skíðaferðir, fjallgöngur, hjólaferðir, kajakferðir og ýmsar styttri ferðir um nánasta umhverfi skólans. Skólahjúkrunarfræðingur kemur að fræðslu um heilbrigði og lífsstíl. Einnig kemur inn í skólann önnur fræðsla eins og tóbaks og vímuefnafræðsla og kynfræðsla. Mikil áhersla er lögð á andlega vellíðan nemenda í skólastarfinu en það er gert með bekkjarfundum, heimaþingum, lífsleikni og góðu foreldrasamstarfi.

Lýðræði og mannréttindi

Nemendur eiga að fá tækifæri til að auka færni sína í lýðræðislegri þátttöku. Slík færni er þjálfuð m.a. með því að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi, þjálfa þá í umræðum, gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á framvindu náms og námsmats.

Í Sjálandsskóla eru reglulega haldnir bekkjarfundir og heimaþing fyrir alla nemendur skólans þar sem þeir fá tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós. Lífsleiknitímar eru nýttir til að þjálfa nemendur í rökræðum og skiptast á skoðunum. Á yngsta stigi og miðstigi er umsjónartími við upphaf og lok skóladags þar sem nemendur hafa tækifæri til að tjá sig. Á unglingastigi eru nemendur með nemendaráð en í það eru kosnir fulltrúar úr öllum árgöngum og eins eiga nemendur fulltrúa í skólaráði.

Jafnrétti

Unnið er með jafnrétti í skólastarfi Sjálandsskóla. Lögð er áhersla á að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi. Í skólastarfinu skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnrétti birtist í skólastarfinu á marga vegu, t.d á bekkjarfundum þar sem raddir allra fá að heyrast. Jafnrétti birtist einnig í sveigjanleika á heimasvæðum, tjáningarfrelsi nemenda tryggt og stuðlað er að gagnkvæmri virðingu. Kennarar hafa jafnrétti að leiðarljósi við kennsluna og grípa tækifæri sem gefast til umræðu (sjá jafnréttisáætlun).

Sköpun

Samkvæmt aðalnámskrá felur sköpun í sér að nemandinn fáist við að gera eitthvað nýtt og öðruvísi, læra á annan hátt og kanni ólíka miðla. Þetta samræmist stefnu Sjálandsskóla að öllu leiti þar sem þetta er mikilvægur þáttur skólastarfsins. Sköpun gengur þvert á öll námssvið skólans þó sérstaklega þemakennslu. Þemanámið býður upp á sköpunarferli þar sem ólíkar greinar tengjast saman til þess að dýpka þekkingu á viðfangsefninu og býður upp á fjölbreytta framsetningu. Nemendur á miðstigi gera á hverju skólaári eitt einstaklingsverkefni þar sem þeir fá tækifæri til að rannsaka og þannig dýpka þekkingu sína á afmörkuðu verkefni sem þeir velja sjálfir.

Vorverkefni í unglingadeild

Um miðjan mars er uppbrotsdagur í unglingadeildinni. Áður en að honum kemur fá nemendur kynningu á vorverkefninu og þeir beðnir um í samráði við foreldra að ákveða viðfangsefni. Á uppbrotsdeginum sjálfum eru fengnir fyrirlesarar og boðið er upp á veitingar í hádeginu. Einnig er gefinn tími til að byrja að vinna hugmyndavinnu í tengslum við vorverkefnið. Viðfangsefni vorverkefnisins á að vera fyrirfram ákveðið og nemendur fylla út skráningarblað og skila inn. Á vordögum byrjar svo vinnan og fá nemendur úthlutað kennara sem þeir leita til og fá ráðgjöf hjá. Nemendur geta sótt sér aðstoð utan skóla og innan og hafa aðgang að listgreinastofum. Allir tímar nema val, íþróttir og sund fara undir vorverkefnið. Nemendur skila dagbók á hverjum degi til kennara og í lokin þurfa þeir einnig að skila greinargerð um verkefnið. Á lokadeginum er afurðin til sýnis og foreldrum og öðrum gestum boðið að koma og skoða. Í 8. og 9. bekk eru nemendur með kynningarbása sem hægt er að rölta um og skoða en í 10. bekk eru kynningarnar tímasettar og hægt að skrá sig á fyrirlestra. Nemendur fá námsmat út frá hæfniviðmiðum sem þeir fengu í byrjun vinnunnar.

Lykilhæfni

Lykilhæfni er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans. Mat á lykilhæfni fer fram fyrir foreldraviðtöl í febrúar. Skólum er ætlað að leggja mat á hæfni nemenda sem byggist á grunnþáttum í menntun og áhersluþáttum grunnskólalaga. Slík hæfni er nefnd lykilhæfni og felst í eftirfarandi 6 þáttum í Sjálandsskóla:

  • Sjálfstæði og samvinna. Hæfni til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn
  • Nýting upplýsinga og miðla. Hæfni nemenda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrga, skapandi og gagnrýninn hátt
  • Skapandi og gagrýnin hugsun. Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdarfærslu
  • Samskipti og samstarf. Hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn. Er jákvæður, kurteis og hjálpsamur. Hlustar á aðra nemendur og virðir skoðanir þeirra. Er virkur í samstarfi og metur vinnu annarra af sanngirni. Tekur réttmætri gagnrýni
  • Ábyrgð og mat á eigin námi. Hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu. Setur sér markmið með aðstoð. Býr til og fylgir áætlunum. Forgangsraðar og ætlar sér tíma til að ljúka verkefnum. Lærir af reynslunni og aðlagar skipulag og vinnubrögð til að ná betri árangri. Notar með markvissum hætti margvíslega miðla í þekkingarleit og úrvinnslu
  • Tjáning og miðlun. Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni. Nemendur taka þátt í samræðum og rökræðum. Nemendur tjá skoðanir sínar, hugsanir og tilfinningar skilmerkilega í ræðu, riti og/eða á annan hátt

Í Sjálandsskóla er lagt mat á lykilhæfni allra nemenda í öllum árgöngum tvisvar á ári (sjá nánar Birting námsmats). Viðmið um hæfni breytast eftir aldri nemenda í samræmi við aukinn þroska þeirra.

Lykilhæfni í 1.-4. bekk

  • Ábyrgð og mat á eigin námi. Fylgir fyrirmælum og nýtir tímann vel
  • Nýting miðla og upplýsinga. Nýtir margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun
  • Frumkvæði, sköpun og áræðni. Sýnir áræðni og skapandi hugsun
  • Samskipti og samstarf. Er jákvæður og kurteis nemandi og hlustar á aðra. Getur unnið með öðrum
  • Tjáning og miðlun. Tjáir sig skýrt og áheyrilega

Lykilhæfni í 5.-7. bekk

  • Ábyrgð og mat á eigin námi. Axlar ábyrgð á námi sínu. Fylgir fyrirmælum, nýtir tímann og námsgögn vel og gerir sitt besta
  • Nýting miðla og upplýsinga. Nýtir margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýtir upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt
  • Skapandi og gagnrýnin hugsun. Sýnir áræðni, þorir að spyrja spurninga og fara eigin leiðir. Leitar að nýjum hugmyndum og tækifærum til náms.
  • Sjálfstæði og samvinna. Er jákvæður, kurteis og hjálpsamur. Hlustar á aðra nemendur og virðir skoðanir þeirra. Er virkur í samstarfi. Tekur réttmætri gagnrýni
  • Námsvitund. Metur á gagnrýninn hátt eigin vinnubrögð og árangur. Lærir af reynslunni og aðlagar skipulag og vinnubrögð til að ná betri árangri
  • Tjáning og miðlun. Tekur þátt í samræðum og rökræðum. Flytur mál sitt skýrt og áheyrilega. Miðlar þekkingu sinni og leikni

Lykilhæfni í 8.-10. bekk

  • Ábyrgð og mat á eigin námi. Axlarábyrgð á námi sínu, nýtir tímann og námsgögn vel og gerir sitt besta. Metur eigin vinnubrögð og frammistöðu á raunsæjan hátt
  • Nýting miðla og upplýsinga. Sýnir sjálfstæði og þrautseigju og gefst ekki upp þegar verkefni eru erfið og krefjandi
  • Skapandi og gagnrýnin hugsun. Sýnir áræðni, þorir að spyrja spurninga og fara eigin leiðir. Sýnir skapandi hugsun og leitar að nýjum hugmyndum og tækifærum til náms
  • Sjálfstæði og samvinna. Er jákvæður, kurteis og hjálpsamur. Hlustar á aðra nemendur og virðir skoðanir þeirra. Er virkur í samstarfi og metur vinnu annarra af sanngirni. Tekur réttmætri gagnrýni
  • Námsvitund. Setur sér markmið. Býr til og fylgir áætlunum. Forgangsraðar og ætlar sér tíma til að ljúka verkefnum. Lærir af reynslunni og aðlagar skipulag og vinnubrögð til að ná betri árangri. Notar með markvissum hætti margvíslega miðla í þekkingarleit og úrvinnslu
  • Tjáning og miðlun. Tekur þátt í samræðum og rökræðum. Tjáir skoðanir sínar, hugsanir og tilfinningar skilmerkilega í ræðu, riti og/eða á annan hátt

 

 

English
Hafðu samband