Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólanámskrá Sjálandsskóla er handbók sem tekur til allra þátta skólastarfsins og myndar umgjörð um faglegt starf skólans. Hún er nánari útfærsla á Aðalnámskrá grunnskóla þar sem dregin er fram sérstaða skólans og staðbundnar aðstæður, verklagsreglur, aðaláherslur og markmið. Ný grunnskólalög voru samþykkt í júní 2008 og aðalnámskrá grunnskóla gefin út 2011/2013 og tekur skólanámskráin mið af þeim. Hún byggir einnig á skólastefnu, fjölskyldustefnu, starfsmannastefnu og jafnréttisstefnu Garðabæjar (Skólastefna Garðabæjar).

Sjálandsskóli er einsetinn heildstæður grunnskóli sem hefur einkunnarorðin: Að vilja og virða. Orðin vísa til þess að nemendur eru hvattir til þess að gera sitt besta í námi, starfi og leik. Skólahúsnæði Sjálandsskóla er opið þ.e. nemendur vinna á stórum opnum heimasvæðum. Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á náin tengsl samfélags, náttúru og skólastarfs. Því leggur skólinn rækt við útikennslu og heildstæð verkefni nemenda (þemakennsla). Þá er skólinn heilsueflandi- og grænfánaskóli.

Unnið er út frá hugmyndum um opna skóla sem byggir á hugmyndum um opnu skólastofuna, hugsmíðahyggju og hugmyndum um einstaklingsmiðað nám. Stuðst er við fjölbreyttar kennsluaðferðir en hlutbundin vinna, leikir, uppgötvunarnám, útikennsla og skapandi vinna eru þær aðferðir sem helst eru notaðar. Hugmyndafræðina má rekja til mannúðarsálfræði og einkennist starf skólans m.a. af því að þekkja sínar tilfinningar og tilfinningar annarra. Nemendur í 1.-7. bekk er með einn útikennsludag í hverri viku eða tvær klukkustundir. Mikil áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér sjálfstæði í vinnubrögðum og taki þátt í að skipuleggja nám sitt. Unnið er út frá sterkum hliðum hvers einstaklings og námið byggt upp út frá þeim. Fjölgreindakenningin er í hávegum höfð. Nemendur læra að þekkja eigin námsstíla og kennari aðstoðar við að skapa hverjum nemandi aðstæður sem hæfa.

Kennarar skólans vinna í teymum að undirbúningi og framkvæmd skólastarfs.

Saga skólans

Sjálandsskóli tók til starfa í ágúst 2005. Hann er staðsettur við Löngulínu 8 í Garðabæ. Fyrsta starfsár skólans voru við skólann 80 nemendur í 1.-6. bekk í fullbúnum fyrsta áfanga skólans. Annar áfangi skólans með fjölnota samkomusal, tónlistar-, íþrótta- og tómstundamiðstöð var tekinn í notkun haustið 2009. Haustið 2010 var í fyrsta skipti boðið upp á nám í unglingadeild og þar með varð skólinn heildstæður grunnskóli með um 250 nemendur. Næstu ár á eftir hélst fjöldi nemenda nokkuð sambærilegur.

Skólinn hefur frá upphafi verið nýttur af fleiri en einni stofnun. Fyrstu árin voru hér einnig leikskólar, annars vegar leikskólinn Sjáland í eitt ár og hins vegar leikskólinn Montessori setrið í tvö ár. Alþjóðaskólinn á Íslandi hóf svo störf í skólahúsinu haustið 2006 og hefur verið sambýlingur Sjálandsskóla frá þeim tíma. Frá upphafi hefur Tónlistarskóli Garðabæjar haft starfsstöð í Sjálandsskóla. Byggingin varð svo að sannkallaðri samfélagsmiðstöð með tilkomu 2. áfanga skólans enda er þar afar góð aðstaða til ýmissa samkoma, tónlistariðkunnar og margvíslegra íþrótta.

9. nóvember 2011 hlaut skólinn Íslensku menntaverðlaunin, í flokknum Skóli sem sinnt hefur nýsköpun.

Í umsögn dómnefndar segir:
Frá upphafi voru starfinu sett afar metnaðarfull markmið. Áhersla var lögð á einstaklingsmiðað nám, fjölbreytta, sveigjanlega og lýðræðislega kennsluhætti, sköpun og tjáningu. Skólabyggingin sjálf er einstakt umhverfi utan um þetta metnaðarfulla starf. Kennslurýmin eru opin og áhersla lögð á að nemendur taki þátt í að skipuleggja námið. Þeir gera sér námsáætlanir í samstarfi við kennara sína og bera meiri ábyrgð á starfi sínu en víða gerist. Fáir skólar bjóða jafn fjölbreytt og áhugavert val á unglingastigi. Þar geta nemendur valið milli 50 ólíkra viðfangsefna; útieldun, ítölsk matargerð, skartgripagerð, kajakróður, franska, sagnfræði og fatahönnun eru dæmi um þetta fjölbreytta val sem
stenst fyllilega samjöfnuð við það sem gerist í fjölmennustu skólunum.

Í nóvember 2014 hófst formlega 10 ára afmælisár skólans með samkomu á sal og ávarpi Gunnars Einarssonar bæjarstjóra. Í tilefni afmælisins gáfu foreldrar skólanum skólalag, Sjálandsslagið. Höfundur lags og texta er Heiðar Örn Kristjánsson

Sjálandslagið
Skólinn minn í Sjálandi
skjólið mitt.
Félagslífið flæðandi,
fjölbreytt og marglitt.

Sjálandsskóli er skólinn minn.
Skapa´og vilja er lykillinn.

Vinátta og virðing, von og samhljómur.
Hraustleg hreyfing og hrífandi lærdómur.
Lifandi leikur og lífsgleði í Sjálandi.

Skólahúsnæðið og skólahverfið

Við hönnun Sjálandsskóla var forhönnun skólans byggð upp á sk. Design Down Process aðferð en hún byggir m.a. á því að áhugasömu fólki var boðið að koma að forhönnun skólans s.s. fræðimönnum í kennslufærði, áhugasömum foreldrum, fulltrúum frá bænum og arkitekt. Haldnir voru fjöldamargir fyrirlestrar sem fjölluðu um hugmyndafræði opinna skóla og þátttakendur fengnir til að rissa upp hugmyndir sínar. Orri Árnason arkitekt hjá Zeppelín var fljótlega ráðinn til verksins sem arkitekt skólans. Skólahúsnæði Sjálandsskóla er opið og sveigjanlegt. Það sem aðgreinir Sjálandsskóla meðal annars frá hefðbundnum skólum eru heimasvæðin. Í stað hefðbundinna kennslustofa er sameiginlegt
vinnusvæði 40-70 nemenda úr einum til tveimur árgöngum.

Í samráði við kennara eru nemendur aðstoðaðir við að finna út hvaða námsaðstæður henta þeim best. Í húsnæðinu eru vel búnar textíl-, myndmennta-, tónlistar- og smíðastofa. Þá er innangengt í íþróttahús Sjálandsskóla þar sem er inni sundlaug, danssalur og íþróttasalur. Í íþróttahúsinu fer fram starfsemi tómstundaheimilisins Sælukots eftir að skóladegi lýkur fyrir nemendur í 1. – 4. bekk.

Húsnæðinu er skipt niður í mismunandi vinnusvæði þar sem nemendur geta bæði unnið í stórum og litlum hópum. Aðalinngangurinn er að vestanverðu við Löngulínu fyrir miðju skólans. Þaðan er gengið inn í íþróttamiðstöð og samkomusal skólans. Skrifstofur Sjálandsskóla eru á efri hæð skólans í austurálmu næst sjónum.

Austur inngangar eru þrír. Sá sem næstur er Vífilsstaðavegi er ætlaður nemendum unglingadeildar og nemendum í 7.- 9. bekk Alþjóðaskólans. Sá í miðið er ætlaður nemendum í 1.-7.bekk og nemendum í 1.-3.bekk Alþjóðaskólans. Inngangurinn næst sjónum er ætlaður gestum og starfsmönnum. Inngangur íþróttahússins er fyrir nemendur í 4.-6. bekk Alþjóðaskólans.

Bílastæði við Löngulínu eru skammtímastæði. Bílastæði skólans eru austan við íþróttavöllinn fyrir ofan
Ránargrund. Þeir sem koma akandi að skólanum með börn sín eru beðnir um að nota sleppistæði við hringtorgið. Foreldrar eru hins vegar vinsamlegast beðnir um að leggja ekki bifreiðum í hringtorgið ef þeir eiga erindi inn í skólann heldur leggja í bílastæðin. Nemendur eiga að ganga inn í skólann þar sem þeirra vinnusvæði er og skór þeirra þurfa alltaf að vera í skóhillum sem eru merktar þeirra árgangi. Aðkoma neyðar- og þjónustubíla er um Ránargrund. Öðrum er ekki heimilt að koma þá leið að skólanum.

Nemendur eru ávallt hvattir til að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Nauðsynlegt er að foreldrar finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann, hvetji þau til að nota gangbrautir og bendi þeim á slysagildrur sem ber að varast. Nauðsynlegt er að nemendur séu með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu.

Í Garðabæ hafa foreldrar val um grunnskóla fyrir börn í 1.-10. bekk og um eiginleg skólahverfi er ekki að ræða. Nærumhverfi
skólans er: Sjáland, Ásar, Grundir og Nes og markast það að Hafnarfjarðarvegi í suður, Gálgahrauni í vestur, Arnarnesvogi í norður og
Kópavogi í austur.

Skrifstofa skólans

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 7:45 -16:00 mán., - fim. en 8:00-15:00 á föstudögum.

Innritun og móttaka nýrra nemenda

Forráðamenn innrita nýja nemendur á heimasíðu Garðabæjar inn á vefnum Minn Garðabær en þar er rafrænt eyðublað sem ber að nota þegar sótt er um skólavist. Þjónustuver Garðabæjar sendir umsóknina til skólans. Á vorin er auglýstur sérstakur tími til umsóknar um skólavist nýnema. Á vorin eru haldnir kynningarfundir þar sem helstu áherslur skólans eru kynntar og boðið er upp á skoðunarferð um skólann. Í maí er verðandi nemendum í 1. bekk boðið í vorskóla þar sem þeir fá að upplifa og kynnast hluta úr skóladegi.

Ef nemendur eru að innritast á öðrum tímum skólaársins er foreldrum bent á að hafa samband við skrifstofu skólans og óska eftir kynningu á skólanum. Nemendur sem eru með lögheimili í öðru sveitarfélagi en Garðabæ verða að sækja um skólavist utan sveitarfélags. Þó að forráðamenn hafi fengið staðfestingu á að umsókn skólans um skólavist sé móttekin er ekki hægt að ganga að skólavist vísri. Skólastjóri ákveður hvort skólavist nemenda utan lögheimilis er samþykkt, það fer m.a. eftir fjölda í bekkjum o.fl. Þegar skólavist hefur verið samþykkt skráir ritari skólans nemandann í bekk, hefur samband við forráðamenn og upplýsir kennara og námsráðgjafa um nýjan nemanda.

Hlutverk ritara/sérfræðings

 Raðar nemendum í bekkjardeildir í samráði við umsjónarkennara og stjórnendur
 Sér um innritun og heldur utan um nemendaskrá
 Lætur umsjónarkennara og námsráðgjafa vita um nýjan nemenda eins fljótt og hægt er
 Býður nemandanum og forráðamönnum í heimsókn í skólann ef við á
 Útvegar og leiðbeinir forráðamönnum um upplýsingavefinn Námfús og sendir aðgangsorð
 Útskýrir og leiðbeinir forráðamönnum um tómstundaheimilið ef við á
 Ef nemandi er af erlendu bergi brotinn, sjá móttökuáætlun nemenda með annað móðurmál en íslensku
 Upplýsir kennsluráðgjafa um nýjan nemanda sem sér um netfang o.fl. sem tengist upplýsingatækni

Hlutverk stjórnenda

 Tekur á móti nemenda og forráðamanni í fyrstu heimsókn, útskýrir skólastarfið og sýnir skólann
 Sér um að setja móttöku nemandans í viðeigandi ferli

Hlutverk umsjónarkennara

 Kynnir nemandann fyrir bekknum
 Afhendir stundatöflu og vísar á almennar upplýsingar s.s. bekkjarlista
 Fær upplýsingar frá foreldrum og um námslega stöðu
 Hefur samband við fyrri skóla og fær upplýsingar um nám nemandans. Ef þörf krefur hefur umsjónarkennari samband við sérkennara og námsráðgjafa
 Upplýsir list- og verkgreinakennara um nýjan nemanda og setur í hópa
 Upplýsir sérkennara um stöðu nemandans ef tilefni er til
 Upplýsir námsráðgjafa um nýjan nemanda

Hlutverk námsráðgjafa

 Á samtal við nemandann fljótlega eftir að skólavist er hafin
 Fylgir nemandanum eftir með því að fylgjast með honum og hitta hann eins oft og þörf krefur (sjá starfssvið námsráðgjafa)

English
Hafðu samband