Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Kennsluhættir

Hugmyndafræði Sjálandsskóla um opna skólann byggir á kenningum skólamanna, heimspekinga og félagsfræðinga og leggur hún áherslu á að nemendur leiti sér þekkingar á eigin spýtur í stað utanbókarlærdóms. Þannig byggir hugmyndafræðin á að nemendur vinni í opnum rýmum og þjálfist í að taka tillit til annarra, þekki tilfinningar sínar og bekkjarfélaganna. Skiplag námsins byggist m.a. upp á að efla sjálfstæð vinnubrögð og þjálfun í að vinna með öðrum nemendum í hóp. Námsumhverfið er skapandi, fjölbreytt og nemandinn er ávallt í brennidepli. Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á fjölbreytta og sveigjanlega kennsluhætti í samræmi við einstaklingsmiðað nám. List- og verkgreinar eru í öndvegi í öllu skólastarfinu með áherslu á skapandi hugsun, frumkvæði og gagnrýna hugsun. Í stundatöflu nemenda í 1.-7. bekk er útikennsla fastur dagskrárliður a.m.k. tvær kennslustundir í hverri viku.

Aðalnámskrá grunnskóla er lögð til grundvallar starfi í Sjálandsskóla. Við skipulag náms eru námsmarkmið aðalnámskrár í öllum greinum höfð til viðmiðunar. Vegna áherslu skólans á samþættingu námsgreina er skipting verkefna milli umsjónarkennara og sérgreinakennara töluverð. Umsjónarkennarar skipuleggja öllu jöfnu nám í heimilisfræði, íslensku, stærðfræði, náttúrugreinum, samfélagsgreinum, upplýsinga- og tæknimennt og leiklist samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Í flestum árgöngum skipuleggja sérgreinakennarar nám í erlendum tungumálum, hönnun og smíði, skólaíþróttum og listgreinum. Nánar er fjallað um skipulag náms og kennslu í námsvísum og
kennsluáætlunum sem finna má á heimasíðu skólans.

Nám og kennsla

Námsgögn

Áhersla er lögð á að í skólanum sé til úrval náms- og kennslugagna. Starfsfólk skólans fylgist vel með útgáfu nýrra námsgagna. Þess er vænst að nemendur gangi vel um bækur og önnur kennslugögn. Skólinn leggur áherslu á að upplýsingatækni sé samofin öllu skólastarfi. Skólinn hefur því lagt áherslu á að auka tölvu- og spjaldtölvukost sinn. Nemendur á unglingastigi geta tekið með sér eigin snjalltæki sem þeir nýta til náms með sérstökum skilmálum.

Íslenska

Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir í íslensku þar sem við erum með ólíka einstaklinga með mismunandi styrkleika. Á yngsta stigi er lögð áhersla á málfærni, lesfimi, lestrarfærni, virka hlustun, hlustunarskilning og að geta tjáð sig í ræðu og riti. Á miðstigi er lögð aukin áhersla á lesskilning, fjölbreytta ritun, tjáningu og miðlun og málfræði. Á unglingastigi eykst áherslan á lestur með athygli, heimspekilega samræður, að rýna í fjölbreytta texta bæði bókmennta og fræðitexta og að vinna með heimildir. Í Sjálandsskóla eru unnið út frá viðmiðum MMS um lestrarfærni nemenda. Í skólanum er stuðst við PALS lestrarkennsluaðferðina í 1.-7. bekk. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skriftarfærni og það sjálfstraust sem þarf til að standa frammi fyrir hópi með flutningi texta og leikrita. Námsvísa og kennsluáætlanir allra árganga skólans má finna á heimasíðu skólans.

Ný Lestrarstefna Sjálandsskóla var birt á heimasíðu skólans í apríl 2017. Hún er unnin eftir þeim lestrarkennsluaðferðum, skimunum og prófum sem notast er við í skólanum. Einnig er unnið eftir þeim nýju viðmiðum í lestri sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Góð lestrarfærni er undirstaða náms og því leggur Sjálandsskóli ríka áherslu á lestrarkennslu. Að vinna með lestur er ferli sem er í sífelldri endurskoðun og kennslan á að taka mið af því sem reynist farsælast hverju sinni. Lestrarþjálfun er sameiginlegt verkefni heimilis og skóla og áherslur taka mið af stöðu nemenda hverju sinni. Notuð eru ákveðin hraðaviðmið til að meta lestrarfærni nemenda og höfum við í Sjálandsskóla ákveðið að nota þau viðmið sem Menntamálastofnun gefur út en þar metum við vegin orð á mínútu. Til að ná góðum tökum á lestrinum er þó einnig mikilvægt að þjálfa lesskilninginn markvisst. Það er gert með því að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum í lesskilningi. Góðan lesskilning þarf að efla jafnt og þétt, vinna með orðaforða, málskilning og málvitund með mismunandi aðferðum frá upphafi grunnskóla.

Erlend tungumál

Tungumálakennsla miðast að því að byggja upp orðaforða nemenda með hlustun, lestri, töluðu máli og ritun. Stefnan er að vekja áhuga nemenda á erlendum tungumálum og auka víðsýni og skilning þeirra með því að kynna fyrir þeim ólíka menningarheima. Á yngsta stigi hefst enskukennsla. Í upphafi fer kennslan fram í gegnum söngva, leik og ýmiss tungumálaforrit. Orðaforðinn tengist nánasta reynsluheimi barnsins. Í 7. bekk bætist danska við. Áfram er unnið í gegnum söng, leik og spjaldtölvur en við bætist aukinn lestur, flóknari hlustun og gerðar eru meiri kröfur í ritun og töluðu máli. Á unglingastigi aukast kröfurnar enn frekar. Unnið er markvisst með lesskilning, mismunandi frásagnarform, hlustun og ritun. Meiri kröfur eru gerðar um sjálfstæð vinnubrögð og nemendum bjóðast fjölbreyttari leiðir til verkefnaskila. Námsvísa og kennsluáætlanir allra árganga skólans má finna á heimasíðu skólans.

List- og verkgreinar

Í listum er lögð áhersla á markvissa kennslu í aðferðum, áhöldum og tækjum sem á við hverja grein en rík áhersla er lögð á að sköpun sé samofin öllu skólastarfi m.a. með aðkomu að leikritum. Markmið með list og verkgreinakennslu í Sjálandskóla eru fyrst og fremst áhersla á sköpun og sköpunarferli, verkkunnáttu, tækni, fagurfræði og gildi, efnisþekkingu, líkamsbeitingu, túlkun og tjáningu. Í kennsluháttum er reynt að hafa verkefnin fjölbreytt og þannig úr garði gerð að þau bjóði upp á fjölbreyttar útfærslur. Verkefnunum er ætlað að mæta hverjum nemanda þar sem hann er staddur og styðja hann í að auka færni sína í greininni. Verkefnin eru kynnt nemendum með dæmum, spjalli og stuttri
sýnikennslu. Kennari gengur svo á milli og aðstoðar nemendur. Nemendur eru einnig hvattir til að hjálpa hvorum öðrum. Rík áhersla er á að nemendur fái jákvæða upplifun af greininni, þroski og efli sköpunargleði sína og verði jafnvel forvitnari um heiminn í kringum sig. Námsvísa og kennsluáætlanir allra árganga skólans má finna á heimasíðu skólans.

Heimilisfræði

Í nútíma samfélagi er mikilvægt að börn læri að axla ábyrgð á eigin umhverfi og umgangast það af virðingu. Aðstaða til heimilisfræði í Sjálandsskóla er fábreytt og því erfitt um vik að hafa verklega kennslu. Í kennslu í heimilisfræði er því lögð rík áhersla á samstarf heimila og skóla. Heimaverkefni nemenda í heimilisfræði, þar með talið heimilisvikum eru heimilisstörf. Markmiðið er að þau læri að ganga snyrtilega
um eigið herbergi, ganga frá eigin fötum, þvo þvotta, útbúa máltíðir, vaska upp, ganga frá leirtaui og sinna öðrum þeim störfum sem falla til á heimilum. Á unglingastigi eru mörg valnámskeið sem heyra undir heimilisfræði.

Skólaíþróttir

Leiðarljós íþrótta og sundkennslu í Sjálandsskóla er að allir nemendur fái jákvæða upplifun af fjölbreytilegri hreyfingu og geti nýtt sér hana sér til heilsubótar í framtíðinni. Áhersla er lögð á að efla hreyfifærni og vekja áhuga barna á ýmsum tegundum hreyfingar. Þá er haft að leiðarljósi að nemendur beri virðingu fyrir getu hvers annars og fari eftir reglum sem gilda í íþróttum og leikjum. Á miðstigi er að auki lög áhersla á að auka líkamsvitund nemenda og að þeir læri að meta gildi íþrótta fyrir líkama og sál. Þá er gengið út frá því að nemendur geti gert æfingar sem reyna á þol, styrk og stöðugleika. Á unglingstigi er auki lögð áhersla á að nemendur geti tekið þátt í hópíþróttum og einstaklingsíþróttum og reynt að vekja áhuga þeirra á heilsurækt innan og utan skólans. Nemendur eru hvattir til að ganga eða hjóla í skólann og borða hollan mat. Útikennsla umsjónarkennara er markvisst tengd líkams- og heilsurækt. Í sjálfri íþróttakennslunni er lögð mikil áhersla á að nýta möguleika umhverfisins, skólalóðina, Arnarnesvoginn og Gálgahraun. Til dæmis er nemendum í 5.-7. bekk. kennt að róa kajak. Útikennsla í íþróttum er því allt árið um kring í Sjálandsskóla. Sundkennsla fer fram einu sinni í viku allt árið um kring. Námsvísa og kennsluáætlanir allra árganga skólans má finna á heimasíðu skólans.

Þemu (Samfélagsgreinar, náttúrugreinar, lífsleikni, UT)

Samfélags- og náttúrgreinar eru kenndar í þemum. Það þýðir að nemendur helga sig ákveðnu viðfangsefni í tiltekinn vikufjölda og ljúka því áður en næsta viðfangsefni er tekið fyrir. Í þemum er samþætting námsgreina höfð að leiðarljósi. Helstu markmið og áhersluþættir þemakennslu á öllum stigum Sjálandsskóla er að efla sjálfstæð vinnubrögð nemenda, stuðla að skilningi nemenda á námsefninu sem liggur til grundvallar viðhorfi þeirra til umhverfis, auðlinda, menningar, sögu, náttúru og tækni. Markmiðið er að verkleg færni og félagsfærni styrkist, frumkvæði og ábyrgð aukist með virkri þátttöku nemenda. Hvert þema á sér skýran ramma. Í hverju þema er kennsluáætlun þar sem tilgreind eru helstu markmið, viðfangsefni, námsefni og hvernig vinna í þema verður metin. Í lok þema fá nemendur og foreldrar mat á frammistöðu nemandans í þemanu inn á Námfús. Kennsluhættir í þemakennslu hafa ákveðinn stíganda en markmiðin eru þau sömu. Eftir því sem á grunnskólagönguna líður hafa nemendur meira um það að segja hver afurð þemaverkefnanna er og verða sjálfstæðari í vinnubrögðum og gagnaöflun. Lögð er rík áhersla á fjölbreytta kennsluhætti á öllum stigum. Útikennsla er einnig hluti af hverju þema. Aðstaða til náttúrufræðikennslu á skólalóð og í nágranni skólans er frammúrskarandi góð en engin sérútbúin aðstaða er til náttúrufræðikennslu í skólanum. Umhverfisvitund nemenda er ræktuð á markvissan hátt með sorpflokkun, fullnýtingu og endurnýtingu verðmæta. Námsvísa og kennsluáætlanir allra árganga skólans má finna á heimasíðu skólans.

Stærðfræði

Á yngsta stigi er lögð áhersla á talnagildi og grunnþætti reikniaðgerða ásamt fjölbreyttum stærðfræðibókum. Hlutbundin vinna er stór þáttur í útikennslu í stærðfræði. Kennsluforrit og stærðfræðispil eru notuð í kennslu. Á miðstigi er unnið í kennslubókum og æfingaheftum. Einnig er
stærðfræðin fléttuð inni í útikennslu og þemavinnu. Stærðfræðiforrit eru notuð til að þjálfa ákveðna þætti t.d. margföldunartöfluna og aðrar reikniaðgerðir. Á unglingastigi er unnið í lotum og í hverri lotu er unnið með ákveðinn námsþátt. Innlagnir eru á töflu hjá kennara, nemendur vinna skilaverkefni og kaflapróf eru eftir hverja lotu. Námsvísa og kennsluáætlanir allra árganga skólans má finna á heimasíðu skólans.

Upplýsinga og tæknimennt

Áhersla er lög á að upplýsinga- og tæknimennt sé samofin öðrum námssviðum og þannig séu nemendur að beita upplýsinga og tæknimennt jafnt í þemum, listgreinum, tungumálum, íslensku og stærðfræði. Námsvísa og kennsluáætlanir allra árganga skólans má finna á heimasíðu skólans.

Val

Valfög í 8.-10. bekk Sjálandsskóla eru kennd á námskeiðum. Hvert námskeið er tvær stundir á viku í 8- 9 vikur. Hver nemandi er í þremur valnámskeiðum í hverri viku. Á skólaárinu tekur nemandinn því þátt í 12 valnámskeiðum. Námskeiðum er skipt upp í 4 flokka: listir, heimilisfræði, íþróttir og ýmislegt og eiga nemendur að velja sér tiltekin fjölda námskeiða úr hverjum flokki. Nemendur sem sjá um félagsstarf
skólans, leiksýningu skólans eða stunda íþrótt/listgrein fjórar klukkustundir eða meira á viku geta sleppt einu valnámskeiði í síðustu vallotu skólaársins. Reynt er eins og kostur er að koma til móts við óskir um nemenda og halda þau námskeið sem flestir velja en undanfarin ár hafa árlega verið haldin 40-60 námskeið.

Reglur um fjarnám

Reglur og tilhögun vegna fjarnáms grunnskólanemenda í Sjálandsskóla

  1. Fjarnám grunnskólanemenda þarf alltaf að vera ákveðið í samráði við foreldra, kennara og skólastjórnendur
  2. Nemandi þarf að hafa lokið þeim hæfniviðmiðum sem fylgja lokum 10. bekkjar í þeirri námsgrein sem um ræðir og hafa náð hæfnieinkunn B+
  3. Nemandi þarf að vera tilbúinn að vinna sjálfstætt og taka ábyrgð á sínu námi.
  4. Einungis er hægt að taka einn fjarnámsáfanga frá FG í hverri námsgrein
  5. Sjálandsskóli greiðir fyrir einn fjarnámsáfanga í hverri námsgrein
  6. Ef nemandi fellur eða hættir í áfanga þarf hann að greiða áfangagjaldið tilbaka
  7. Nemandi stendur sjálfur straum af kostnaði ef hann tekur áfanga í annað skiptið
  8. Aðgangsorð og lykilorð að Námsneti FG þarf umsjónarmaður fjarnámsins í Sjálandsskóla að hafa undir höndum
  9. Sjálandsskóli sér um að útvega námbækur í fjarnámsáföngum

Skipulag skóladagsins

Stundatöflum nemenda var breytt á skólaárinu 2016-2017 og eru nú þrjár tímatöflur í gangi í stað tveggja áður. Skóladagurinn hefst hjá nemendum í 1.-7. bekk klukkan 8:15 en kl. 8:20 hjá nemendum í 8.-10. bekk. Skóladeginum lýkur klukkan 13:30 hjá nemendum á yngsta stigi, klukkan 13:50 hjá nemendum á miðstigi. Nemendur í unglingadeild ljúka skóladeginum kl. 13:50 á mánudögum, kl. 14:10 þriðjudaga og fimmtudaga, kl. 14:50 á miðvikudögum og kl. 13:30 á föstudögum. Sjálandsskóli starfar innan ramma um viðmiðunarstundaskrá menntamálaráðuneytisins.

Hver kennslustund er hjá nemendum í 1.-7.bekk er ýmist 40 eða 60 mínútur og skiptir þá ekki máli að hvaða fagi er unnið. Í 8. -10. bekk eru allar kennslustundir 40 mínútur utan ein kennslustund eftir hádegi en hún er 60 mínútur. Skipting námsgreina er mismunandi eftir tímabilum. Stundir hjá umsjónarkennara eru u.þ.b. 14 en aðrar stundir eru hjá sérgreinakennurum.

Umsjónarkennarar skipta námsárinu upp í tímabil (lotur) sem eru tileinkuð tilteknu þema. Þessar lotur eru mislangar allt frá 1 viku til 5 vikna. Flest þemu eru á einhvern hátt samstarfsverkefni umsjónarkennara og sérgreinakennara.

Skólahúsnæðið opnar kl. 7:30 á morgnana. Stuðningsfulltrúar og skólaliðar mæta til starf kl. 8:00 og hafa eftirlit með nemendum þar til kennsla hefst kl. 8:15 en þá eiga nemendur á yngsta- og miðstigi að vera mættir á sín heimasvæði.

Skóladagurinn hjá 1.-4. bekk
07:30 – Skólahúsnæðið opnar
08:00 – 08:15 Stuðningsfulltrúar hafa eftirlit með nemendum á heimasvæðum
08:15 – 08:25 Morgunsöngur
08:25 – 08:30 Krókur
08:30 – 09:10 1. kennslustund
09:10 – 09:50 2. kennslustund
09:50 – 10:10 Útivist
10:10 – 11:10 3. kennslustund
11:10 – 12:10 4. kennslustund
12:10 – 12:30 Matur
12:30 – 12:50 Frímínútur
12:50 – 13:25 5. kennslustund
13:25 – 13:30 Krókur
13:30 – 17:00 Tómstundaheimili og annað frístundastarf

Skóladagurinn hjá 5.-7. bekk
07:30 – Skólahúsnæðið opnar
08:00 – 08:15 Stuðningsfulltrúar hafa eftirlit með nemendum á heimasvæðum
08:15 – 08:25 Morgunsöngur
08:25 – 08:30 Krókur
08:30 – 09:30 1. kennslustund
09:30 – 09:50 Útivist
09:50 – 10:30 2 kennslustund
10:30 – 11:10 3. kennslustund
11:10 – 12:10 4. kennslustund
12:10 – 12:30 Frímínútur
12:30 – 12:50 Matur
12:50 – 13:50 5. kennslustund
13:50 – 13:55 Krókur

Skóladagurinn hjá 8.-10. bekk
07:30 – Skólahúsnæðið opnar
08:20 – 09:00 1. kennslustund
09:00 – 09:40 2. kennslustund
09:40 – 10:00 Hlé
10:00 – 10:40 3. kennslustund
10:40 – 11:20 4. kennslustund
11:20 – 12:00 5. kennslustund
12:00 – 12:30 Matur
12:30 – 13:30 6. kennslustund
13:30 – 14:10 7. kennslustund
13:50 – 14:50 8. kennslustund (valgreinar á miðvikudögum)

Morgunsöngur

Allir nemendur í 1.-7.bekk og starfsmenn skólans hefja hvern skóladag á morgunsöng undir stjórn tónmenntakennara og skólastjóra. Sungin eru að öllu jöfnu tvö lög, tilkynningar fluttar, nemendur sýna leikrit eða við fáum utanaðkomandi gesti til að gera skólastarfið enn skemmtilegra.

Nesti, útivist, frímínútur og máltíðir

Hlé nemenda milli kennslustunda eru tvö. Að morgni er nestisstund og útivist og í hádeginu er máltíð og frímínútur (40 mínútur hjá yngri nemendum en 30 hjá unglingum). Nesti hafa nemendur með sér að heiman og mælst er til að hollusta sé í fyrirrúmi og ávextir og grænmeti sé aðaluppistaðan í því nesti. Garðabær hefur gert samning við Skólamat sem sér um framreiðslu á heitum mat fyrir nemendur í hádeginu. Nemendur geta verið í áskrift alla daga vikunnar eða suma daga. Nemendur sem eru í tómstundaheimilinu eftir skóla fá síðdegishressingu þar. Nemendur geta einnig komið með nesti að heiman og hafa aðgang að örbylgjuofni og samlokugrilli í matsal. Eldri nemendur hafa einnig aðgang að heitu vatni. Í frímínútum er boðið uppá opnar stofur í listgreinum. Nemendur í unglingadeild hafa val um að vera inni eða úti í frímínútum. Nemendur á mið og yngsta sigi hafa þetta val frá október til maí. Ef þeir velja að vera inni eiga þeir að vera í rólegum leikjum á sínum heimasvæði, á bókasafni eða nýta sér opnar stofur hjá listgreinum.

Allir kennarar og starfsmenn skólans sjá um gæslu í frímínútum bæði inni og úti. Skólastjóri skipuleggur gæsluna í samráði við kennara og umsjónarmann skólabyggingar.

Heimavinna

Skólinn er vinnustaður nemenda. Þar fá þeir nauðsynlega leiðsögn um nám og starf og almennt ríkir því jöfnuður í þeim stuðningi sem nemendur fá um nám sitt. Heimanám tekur miða af námslegri stöðu og þroska hvers og eins nemanda. Vinnudagur nemenda í grunnskóla er langur og mikilvægt að börn eigi rík tækifæri til þess að rækta aðra hæfileika sína eftir að vinnudegi í grunnskóla lýkur. Mikilvægt að
foreldrar styðji við nám og vinnu nemenda. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að upplýsingastreymi sé öflugt og tiltekin verkefni leysi nemendur á heimili sínu.

Heimanám er leið til að:

  • Rifja upp og festa betur í minni
  • Ljúka verkefnum sem ekki tekst að klára í skólanum
  • Þjálfa betur vinnuaðferðir
  • Undirbúningur sem leiðir til betri virkni í tímum

Í Sjálandsskóla er því lögð áhersla á að:

  • Nemendur lesi heima í 15 - 20 mínútur á dag (í hljóði og upphátt), 5 daga vikunnar og foreldrar lesi líka fyrir börn sín á hverjum degi, í það minnsta fyrir nemendur í 1.-4. bekk Nemendur vinna verkefni heima sem lúta að heimilisfræði og heimilishaldi, sérstaklega í svokölluðum heimilisvikum.
  • Nemendur í 1.-4. bekk þurfa að sinna heimavinnu ef þeir hafa ekki nýtt skóladaginn nægjanlega vel.
  • Nemendur í 5.-7. bekk þurfa að sinna heimavinnu ef þeir hafa ekki nýtt skóladaginn nægjanlega vel og lesa fyrir þema.
  • Nemendur í 8. -10. bekk vinna verkefni heima ef vinnudagurinn í skóla dugar ekki, ef þeir vilja hraða sér í námi og einnig fylgir heimavinna skilum á lotum (stærri verkefnaskil, kannanir og próf).

Forfallakennsla

Reynt er að manna forföll kennara í öllum árgöngum skólans. Í tímabundnum veikindum bæta kennarar sem starfa saman í teymi við sig nemendum í hóp. Í einhverjum tilfellum breyta kennarar út frá skipulagðri dagskrá, það fer allt eftir stærð hópsins og þeim viðfangsefnum sem liggja undir. Í forföllum sem fyrirséð er að taki lengri tíma er fenginn kennari til að leysa af.

Skólasókn og ástundun

Mikilvægt er að nemendur temji sér stundvísi og líti á skólann sem góðan vinnustað þar sem þeir geta náð árangri í námi, starfi og leik. Börnum þykir að öllu jöfnu mjög óþægilegt að koma of seint í skólann. Sjálandsskóli notar Námfús til að halda utan um skólasókn nemenda. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast vel með skráningum á Námfúsi.

Samkvæmt lögum eru foreldrar ábyrgir fyrir því að börn þeirra sæki skóla. Veikindi skal tilkynna á hverjum degi til umsjónarkennara eða skrifstofu skólans, hvort heldur er í Námfús, tölvupósti eða síma. Ef veikindadagar nemanda á skólaárinu eru fleiri en 10 á hverju þriggja mánaða tímabili á umsjónarkennari að tilkynna skólastjórnendum það. Ef veikindadagar eru orðnir 20 eða fleiri á skólaárinu á umsjónarkennari að tilkynna málið til nemendaverndarráðs.

Foreldrar tilkynna um leyfi fyrir nemanda frá skólasókn til umsjónarkennara ef leyfið varir tvo daga eða skemur. Tilkynna þarf skriflega til umsjónarkennara um leyfi sem standa þrjá daga eða lengur á þar til gerðu eyðublaði. Leyfisveiting um lengri tíma er háð staðfestingu skólastjóra sem og ítrekaðar leyfisbeiðnir. Í öllum tilvikum bera foreldrar ábyrgð á námi barna sinna á meðan leyfi stendur enda er um að ræða leyfi frá skólasókn en ekki námi. Í sérstökum aðstæðum geta foreldrar sótt um undanþágu frá skólasókn í tiltekna námsgrein um lengri eða skemmri tíma.

Seinkoma er gefin fyrstu 15 mínútur hverrar kennslustundar og skóladags. Eftir 15 mínútur er skráð fjarvist en einnig ef nemandi yfirgefur kennslusvæðið án leyfis. Gert er ráð fyrir því að forráðamenn geri athugasemdir við skráningu í Námfús eins fljótt og auðið er, ef ástæða er til. Einungis umsjónarkennari og skólastjórnendur geta og mega leiðrétta skráningu á ástundun nemenda en það er þó aðeins gert í samráði við þann kennara sem skráði ástundun. Nemendur á mið- og unglingastigi fá einkunn fyrir mætingar. Gefin eru fjarvistarstig fyrir eftirfarandi:

Miðstig og unglingastig:

  • Veikindi -0 stig
  • Leyfi -0 stig
  • Seinkoma -1 stig
  • Gleymd sundföt -1 stig
  • Fjarvist -2 stig

Verði skólasóknarstig fleiri en 13 stig kallar umsjónarkennari forráðamenn í viðtal til þess að leita leiða til úrbóta. Á unglingastigi býðst nemanda að gera sérstaka samninga sem fela í sér að ef ástundun nemanda batnar mjög mikið á tilteknu tímabili fækkar fjarvistarstigum einnig.
Verði skólasóknarstig fleiri en 25 vísar kennari málinu til úrlausnar nemendaverndarráðs. Skólastjóra ber að tilkynna ófullnægjandi skólasókn nemanda til fræðslu- og barnaverndaryfirvalda. Skólasóknareinkunn á mið- og unglingastigi skólans er reiknuð út frá eftirfarandi stigagjöf og er birt á einkunnablað nemanda í lok skólaárs. Skólasókn í 1.- 6. bekk er tilgreind með bókstöfum (hæfni).

Miðstig:
    Stig     Einkunn
    0-5    10 (A)
    6-10    9 (B+)
    11-15    8 (B)
    16-20    7 (C+) Fundur með foreldrum
    21-25    6 (C)
    > 25    5 (D) Ófullnægjandi skólasókn – vísað til nemendaverndarráðs

Unglingastig:
    Stig    Einkunn
    0-3    10 (A)
    4-8    9 (B+)
    9-13    8 (B)
    14-18    7 (C+) Fundur með foreldrum
    19-25    6 (C)
    > 25    5 (D) Ófullnægjandi skólasókn – vísað til nemendaverndarráðs

Sund og íþróttakennsla fer fram í skólanum. Kennslustundaskipting er með öðrum hætti en hér að ofan greinir þegar nemendur eru í sundi. Þá eru nemendur á unglingastigi einn dag í skólanum lengur en þessi tafla segir til um og ljúka skóladeginum að lokinni 5 kennslustund á föstudögum.

Sérstakur stuðningur við nemendur

Í Sjálandsskóla er áhersla lögð á gott stuðningsnet við nemendur. Þroski og geta nemenda til náms er mismunandi af margvíslegum orsökum. Þess vegna er oft nauðsynlegt að nemendur fái stuðning eða breyttar áherslur í námi til þess að þeir geti notið hæfileika sinna. Árlega eru breytingar á sérstökum stuðningi við nemendur enda er hann sniðinn að þörfum nemendahópsins á hverjum tíma. Gerð er nánari grein fyrir stuðningi við nemendur í árlegri starfsáætlun skólans.
Sérkennsla er ein af leiðum skólans til að mæta þörfum nemenda. Hún felur í sér breytingu á námsaðstæðum, námsefni, námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum.

Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum viðkomandi nemanda og fer ýmist fram innan eða utan almennra bekkjardeilda. Við skipulag sérkennslu í Sjálandsskóla er unnið eftir reglugerð um sérkennslu. Í reglugerð um sérkennslu segir: Sérkennsla felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans.

Í sérkennslu felst m.a.:

Gerð rökstuddrar námsáætlunar fyrir nemendahóp eða hvern einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemanda og á athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska. Tilgreind skulu langtíma- og skammtímamarkmið með kennslunni.

Í reglugerðinni er enn fremur getið um réttindi nemenda og forráðamanna þar segir:

  • Ef forráðamenn, kennarar og sérfræðingar sérfræðiþjónustu skóla eru sammála um að nemandi þurfi á sérstöku námstilboði að halda skal hann eiga rétt á sérkennslu. Um sérkennsluúrræði og gerð námsáætlunar fyrir einstaka nemendur hefur sérkennari, þroskaþjálfi og eða umsjónarkennari samráð við forráðamenn og leita samþykkis þeirra.
  • Allar athuganir og rannsóknir sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki forráðamanna. Foreldrum og/eða forráðamönnum er heimilt að lesa þau gögn sem eru í vörslu skóla og fræðsluyfirvalda sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar varðandi skólagöngu barna þeirra að
    viðstöddum sérfræðingi viðkomandi starfsstéttar. Með allar slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.
  • Umsjónarkennari skal fylgjast með námi og þroska nemenda sinna, leiðbeina þeim og hafa reglulegt samband við forsjármenn þeirra. Umsjónarkennari skal einnig fylgjast með námi nemenda sinna hjá öðrum kennurum, þ.m.t. í sérkennslu.

Sérkennsla er veitt einstaklingum eða hópum. Hún getur verið bundin við afmarkaða þætti náms eða almenn námsaðstoð og byggist skipulag og inntak hennar á greiningu og mati á stöðu nemenda og þörfum þeirra.

Þegar alvarlega fatlað barn hefur skólagöngu er æskilegt að undirbúningur hefjist með góðum fyrirvara, allt að einu ári. Sá tími er notaður til að koma á tengslum við foreldra barnsins, afla upplýsinga um þarfir þess og skipuleggja kennslu og þann stuðning sem barnið kann að þarfnast.

Í Sjálandsskóla skiptist sérkennsla í kennslu nemenda með einstaklingsnámskrá, stuðningskennslu og nýbúakennslu. Sérkennslutímum er skipt milli nemenda í samræmi við þarfir þeirra og endurskoðun fer fram nokkrum sinnum á ári. Í sérkennslu fer reglulega fram mat á stöðu nemenda Framhald sérkennslunnar er skipulagt í samræmi við niðurstöðu matsins. Talsverður sveigjanleiki er á fjölda nemenda í sérkennslu og fer það eftir þörf og áherslum hverju sinni.

Þegar um er að ræða nemendur með miklar sérþarfir eru haldnir reglulegir fundir með þeim aðilum sem skipuleggja og vinna sameiginlega að námi nemanda. Einnig eru haldnir fundir með foreldrum/forráðamönnum í september og apríl/maí fyrir utan hefðbundna foreldrafundi sem eru u.þ.b. 3x á ári.

Kennsla nemenda með einstaklingsnámskrá

Í þessum hópi eru nemendur með sértæka námserfiðleika, með athyglis-, félags og/eða tilfinningalega erfiðleika og fatlaðir nemendur.
Sérkennari í samráði við þroskaþjálfa og umsjónarkennara hafa umsjón með gerð einstaklingsnámsskrár sem forráðamaður skrifar undir að hausti. Einstaklingsnámskráin er sett fram í samræmi við þarfir hvers og eins. Kennsla þessara nemenda tekur mið af sérstökum forsendum og færni nemandans. Til grundvallar skulu lagðar athuganir og prófanir sem gerðar hafa verið í skólanum og/eða af sérfræðingum skólaþjónustu. Einstaklingsnámskrá skal innihalda úrræði, kennsluáætlun, markmið, áætlun um mat og hvernig samskiptum við foreldra verður háttað. Stöðugt endurmat og
aðlögun að kennsluáætlun fer fram reglulega.

Stuðningskennsla

Í stuðningskennslu eru börn sem fylgja kennslu og námsefni bekkjar en vinna hægt og þarfnast aðstoðar.

Nýbúakennsla

Nýbúakennsla er fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa dvalið langtímum erlendis og felur í sér íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt þjóðfélag. Markmið kennslu í íslensku fyrir nýbúa er að nemendur öðlist kunnáttu og færni í íslensku sem geri þeim kleift að stunda nám í íslenskum
skólum og skilja íslenska menningu. Áhersla er lögð á færni í íslensku, að tala íslensku og skilja talað mál og ritað. Reynt er að tryggja félagslega stöðu nemandans í skólanum. Aðlögun, sjálfsmynd og sjálfstæði nemandans er styrkt og reynt að auka hæfni hans í félagslegum samskiptum. Mikilvægt er að huga vel að líðan nýbúa og félagstengslum og reyna eftir föngum að styrkja þá í nemendahópnum og efla vináttubönd.

Greiningar

Í Sjálandsskóla er LOGOS skimun lögð fyrir nemendur í 3, 6, og 8. bekk (að vori). LOGOS lestrargreiningarprófið er lagt fyrir nemendur þegar grunur er um lesblindu. Unnar eru skýrslur út frá niðurstöðum prófsins og skilafundir haldnir með foreldrum og umsjónarkennara. Í stærðfræði er Talnalykill lagður fyrir nemendur þar sem grunur er um erfiðleika. Í 9. bekk er notað skimunarprófið GRP 14. Sjá einnig Lestrarstefnu Sjálandsskóla

Yfirlitstafla um stoð- og sérfræðiþjónustu Sjálandsskóla

Hvert á að leita fyrst?

Aðrir sem að málinu koma

Námsörðugleikar

Umsjónarkennari

Námsráðgjafi

Lausnateymi

Nemendaverndarráð

 

Samskiptaörðugleikar

Umsjónarkennari

Námsráðgjafi

Lausnateymi

Nemendaverndarráð

Skólastjórnendur

 

Tal eða málörðugleikar

Umsjónarkennari

Talmeinafræðingur

Lausnateymi

Einelti

Umsjónarkennari

Námsráðgjafi

Skólastjórnendur

Eineltisteymi

Lausnateymi

Nemendaverndarráð

Sorg – ástvinamissir skilnaður

Umsjónarkennari

Skólastjórnendur

Námsráðgjafi

Áfallateymi

Nemendaverndarráð

Vanlíðan - óöryggi – veik

sjálfsmynd

Umsjónarkennari

Námsráðgjafi

Lausnateymi

Nemendaverndarráð

 

Hegðunarerfiðleikar

Umsjónarkennari

Skólastjórnendur

Lausnateymi

Nemendaverndarráð

 

Ofbeldi

Umsjónarkennari

Skólastjórnendur

Lausnateymi

Nemendaverndarráð

Lögregla

Barnavernd

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Námsmat

Með hugtakinu námsmat er átt við öflun upplýsinga um námsárangur og framvindu náms einstakra nemenda. Tilgangur námsmats er að auka gæði náms, kennslu og skólastarfs. Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Með hugtakinu námsmat er átt við „öflun upplýsinga um námsárangur og framvindu náms einstakra nemenda" (sjá t.d. Rowntree 1983:13). Tilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Tilgangurinn er einnig að auka gæði kennslu og skólastarfs og gera foreldra meðvitaða um námsgengi og hæfni barna sinna. Í námsmati í grunnskóla skal leggja mat á hæfni nemenda innan námssviða og lykilhæfni sem er sameiginleg öllum námssviðum.

Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á alhliða námsmat, byggt á fjölbreyttum matsverkefnum og sjálfsmati en einnig stöðluðu mati. Matið byggir á þeim markmiðum sem lögð eru til grundvallar í námi nemenda og viðfangsefnum þeirra. Gögnum um námsframvindu nemenda er safnað jafnt og þétt yfir árið.

Alhliða námsmat - leiðsagnarmat

Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á alhliða námsmat. Þannig á matið á að byggjast á þeim markmiðum sem lögð eru til grundvallar í námi nemenda. Matið á að nota sem leiðsögn í þágu náms og á að vera hannað til að bæta nám hvers nemanda. Matið á að taka til þekkingar, viðhorfa, færni og hæfni nemenda.
Því er mikilvægt að nota fjölbreyttar aðferðir í gagnasöfnun og að matið sé í samræmi við markmið og kennslu. Einnig er lögð áhersla á að kennarinn sé með stöðuga endurgjöf til uppbyggingar. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda með sjálfsmati og jafningjamati. Meginatriði er að nemendur sýni við
eðlilegar aðstæður hæfni sína (Cole o.fl. 1995:5).

Lögð er rík áhersla á að gefa nemendum sem best til kynna hvað lagt er til grundvallar matinu þannig að þeim sé sem best ljóst að hverju er stefnt. Nemendum á að vera ljóst hvað er lagt til grundvallar í mati (markmið og aðferðir) og hvað þeir þurfa að gera til þess að vera metnir af verðleikum. Í þessu felst að í alhliða námsmati er áhersla lögð á að matið gefi til kynna að hverju sé mikilsvert að stefna í stað þess að meginatriðið sé að mæla alla á sömu stikunni. Þannig er matinu ætlað að gera kennaranum kleift að koma til móts við þarfir nemenda og hvetja nemandann til dáða. Matið og endurgjöfin á að
stýrast af

  • þeim markmiðum sem sett eru
  • hafa áhrif á kennslu og verkefnaval
  • vera stöðugt í gangi
  • vera lýsandi og gefa fjölbreyttan vitnisburð um nám og vinnu
  • veita nemendum, foreldrum og kennurum mikilvæga endurgjöf.

Mat á stöðu gagnvart hæfniviðmiðum námssviða og lykilhæfni

Kennarar skólans meta stöðu nemenda gagnvart markmiðum námssviða og lykilhæfni með fjölbreyttum hætti. Eins og áður segir er lögð megináhersla á að matið veiti nemandanum leiðsögn um nám og sé alhliða. Mikilvægt er að matsgögn séu valin af kostgæfni og að nemendur eigi hlutdeild í þessu mati.
Þetta mat getur einnig verið formlegt s.s. lestrarskimanir og samræmd könnunarpróf.

Val á matsgögnum og leiðsögn

Kennari velur matsgögn í samræmi við hæfniviðmið og innihald. Í upphafi vinnunnar er nemandinn upplýstur um hvaða verkefnum hann á að skila og til hvers er ætlast af honum (viðhorf, þekking, færni). Hann fær tíða endurgjöf frá kennara á meðan vinnunni stendur þannig að hann viti af hvaða gæðum
hún er. Þannig er leitast við að námið nýtist nemandanum til gagns og framfara. Endurgjöf getur verið munnleg eða skrifleg. Kennarinn metur m.a.

  • Skrifleg gögn: Kannanir, ritgerðir, skýrslur, dagbækur, blaðagreinar, skrifleg verkefni
  • Afurð: Myndir, hlutir, líkön, ýmis verk
  • Frammistaða: Hreyfifærni, kynningar, upplestur, þátttaka í hópastarfi, sjálfstæði í vettvangsferðum

Sjálfsmat nemenda

Í alhliða námsmati er mikil áhersla lögð á virka þátttöku nemenda. Þeir eru, eftir því sem aðstæður gefa tilefni til, hafðir með í ráðum um matið s.s. með sjálfsmati og jafningjamati. Gildi þess að nemendur taki þátt í námsmati er margþætt. Í fyrsta lagi má nefna að þess er að vænta að nemendur skilji betur til
hvers er ætlast af þeim í náminu ef þeir hafa tekið virkan þátt í að ræða markmið þess sem og hvort þeim hafi verið náð. Þátttaka í sjálfsmati þroskar hæfni nemenda í sjálfsgagnrýni og styrkir sjálfsmynd þeirra. Þannig verður nemandinn hæfari til þess að greina eigin styrkleika, veikleika og framvindu í námi
og starfi. Einnig stuðlar þátttaka í sjálfsmati að því að nemendur beini huga sínum í ríkara mæli að námi og vinnu og séu meðvitaðri um eigin ábyrgð á námi og þroska. Sjálfsmat og jafningjamat krefst ábyrgrar afstöðu og fullrar alvöru og hefur þannig uppeldisgildi. Sjálfsmat nemenda getur veitt kennurum ýmsar mikilvægar upplýsingar sem þeir geta ekki aflað með öðrum hætti. Færni í sjálfsmati er ekki öllum eðlislæg og því þarf að kenna og þjálfa færni í sjálfsmati.

Sjálfsrýni nemenda (eða leiðsagnarmat í Námfús)

Fyrir foreldraviðtöl að hausti svara nemendur könnun í Námfús sem bregður almennu ljósi á viðhorf þeirra til námsins, eigin markmið, líðan, framlagi í hópastarfi o.fl. Niðurstöður þessarar rýni eru meginviðfangsefni þessa foreldraviðtals. Markmið þessarar rýni er að láta nemandann velta fyrir sér og
ígrunda stöðu sína sem námsmaður, vonir og væntingar með samræðu við foreldra sína og umsjónarkennara. Niðurstöður gefa mikilvægar upplýsingar um nemandann og æskilegt að bera þær saman milli ára.

Staðlað námsmat

Hluti af námsmati í Sjálandsskóla er staðlað námsmat. Þ.e. skimanir, greiningar, kannanir og próf. Staðlað námsmat gefur vísbendingar til skóla og fræðsluyfirvalda um áherslur í starfi, stöðu skóla og nemendahópa og einstakra nemenda. Einnig staðfestir staðlað námsmat þörf nemenda fyrir sérþjónustu (s.s. sérkennslu). Staða nemenda Sjálandsskóla er könnuð með stöðluðu námsmati sem hér segir:

1. bekkur

  • Stöðupróf í stafaþekkingu (tengsl stafs og hljóðs) raddlestrarpróf í ágúst
  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Lesskimun Leið til læsis í október.

2. bekkur

  • Stöðupróf í lesfimi í ágúst
  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí

3. bekkur

  • Stöðupróf í lesfimi í ágúst
  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Logos skimun í janúar – febrúar
  • Orðarún í september og desember

4. bekkur

  • Stöðupróf í lesfimi í ágúst
  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Orðarún í september og desember
  • Samræmt próf í íslensku og stærðfræði fyrir 4. bekk

5. bekkur

  • Stöðupróf í lesfimi í ágúst
  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Orðarún í september og desember

6. bekkur

  • Stöðupróf í lesfimi í ágúst
  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Orðarún í september og desember
  • Logos skimun í október – nóvember

7.bekkur

  • Stöðupróf í lesfimi í ágúst
  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Orðarún í september og desember
  • Samræmt próf í íslensku og stærðfræði fyrir 7. bekk.

8. bekkur

  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Orðarún, lesskilningspróf – september og janúar
  • Orðalykill, orðaforðapróf – september
  • LOGOS skimun í maí

9. bekkur

  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí
  • Samræmt próf, íslenska, stærðfræði og enska – mars

10. bekkur

  • Lesfimipróf MMS í september, janúar og maí

Námsmat samantekt:

  • Allir: Hæfnimat sett inn í Námfús jafnóðum í öllum námsgreinum, t.d.niðurstöður úr prófum, verkefnum o.fl.
  • Unglingadeild: Eftir hverja lotu í öllum námsgreinum er hæfnimat í Námfús
  • Valgreinar: Hæfnimat í Námfús í lok hvers tímabils
  • List og verkgr.:Hæfnimat í Námfús eftir hverja lotu
  • Að vori: Lokamat í öllum námsgreinum, byggt á hæfnimati yfir veturinn.
English
Hafðu samband