Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samstarf heimila og skóla

Foreldrasamstarf er einn af hornsteinum skólastarfsins. Uppeldis- og fræðsluhlutverk skóla þarf alltaf að leysa í nánu samstarfi við forráðamenn. Gott samstarf milli heimilis og skóla er lykillinn af farsælli skólagöngu nemenda. Gagnkvæm virðing, heiðarleiki og traust eru hugtök sem höfð eru að leiðarljósi í samstarfi heimilis og skóla.

Lögum um grunnskóla nr. 66/1995 segir í 15. grein: ,,Starfsmönnum skóla er skylt að efla samstarf skóla og heimila, m.a. með því að miðla fræðslu um skólamál til foreldra og veita upplýsingar um starfið í skólanum…”

Nokkur mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga:

 • Forráðamenn eru beðnir um að eiga samráð um fundartíma við starfsfólk skólans til að tryggja kennslustund nemenda sé ekki trufluð
 • Starfsmenn svara tölvupósti eins fljótt og unnt er á viðverutíma þegar þeir eru ekki í kennslu. Þannig er viðvera kennara virka daga frá kl. 8-16 alla daga nema föstudaga en þá er viðveran frá kl. 8-14:30
 • Á fundum vegna nemendamála eru einkunnarorð skólans vilja og virða höfð að leiðarljósi. Fundarmenn skulu alltaf hafa hagsmuni barnsins sem um ræðir að leiðarljósi

Foreldrasamstarf

Forráðamenn eru ávallt velkomnir í Sjálandsskóla en ef foreldrar ætla að eiga samtal við kennara eða aðra starfsmenn skólans eru þeir beðnir um panta tíma hjá viðkomandi starfsmanni til að tryggja sem minnsta truflun í kennslustundum nemenda. Skólinn er mikilvægur þáttur í lífi barna og fjölskyldna þeirra og gott samstarf heimila og skóla er ein af forsendum góðs og árangursríks skólastarfs. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og þeirra sem í skólanum starfa. Samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti og samábyrgð. Mikilvægt er að foreldrar séu sáttir við starf skólans og styðji það en gagnkvæm upplýsingagjöf milli starfsfólks skólans og foreldra er mikilvæg leið í þessu sambandi. Margar rannsóknir sýna að þátttaka foreldra í skólastarfi hefur jákvæð áhrif á framfarir og þroska nemenda og margt bendir til þess að fátt hafi meiri áhrif á líðan og námsárangur nemenda en viðhorf, áhugi og stuðningur foreldra. Sérstaklega reynir á þennan þátt þegar einhverskonar erfiðleikar steðja að t.d. námslegir, félagslegir og/eða hegðunarörðugleikar. Með einlægum ásetningi og vinnu af beggja hálfu hefur samvinna við foreldra verið það sem skiptir sköpum. Það er mikilvægt að foreldrar temji sér að tala jákvætt um skólann en börn tileinka sér gjarnan viðhorf foreldra sinna og taka þá sér til fyrirmyndar. Foreldrar eru hins vegar hvattir til að hafa samband við þá sem í skólanum starfa ef þá skortir upplýsingar eða vilja koma á framfæri ábendingum um skólastarfið.

Miðlun upplýsinga til foreldra/Námfús

Námsvísa er að finna á vef skólans undir slóðinni: http://www.sjalandsskoli.is/namid/namsvisar/ Þá má finna kennsluáætlanir allra árganga undir slóðinni: http://sjalandsskoli.is/namid/kennsluaaetlanir/. Sjálandsskóli notast við upplýsingakerfið Námfús – fjölskylduvef en þar er hægt að nálgast upplýsingar um námsáætlanir, ástundun nemenda, bekkjarlista og stundatöflur. Nemendur/forráðamenn fá veflykil senda við upphaf skólagöngu sem veitir foreldrum og börnum aðgang að upplýsingunum. Ef lykilorð týnist er hægt að fá nýtt hjá ritara.

Foreldra og nemendaviðtöl

Foreldar koma tvisvar á ári til viðtals við umsjónarkennara barnsins og að auki eru haldnar námskynningar fyrir árganga í september. Fyrsta skóladag hvers vetrar eru nýir nemendur skólans boðaðir í viðtal til umsjónarkennara ásamt forráðamönnum sínum. Eldri nemendur hitta
umsjónarkennara sinn og fá upplýsingar um skólastarfið. Einu sinni á hvorri önn er síðan formlegur viðtalsdagur en þá er felld niður hefðbundin kennsla og foreldrar/forráðamenn panta viðtalstíma í Námfús. Aðrir kennarar og starfsmenn eru einnig til viðtals í skólanum á foreldradegi. Ef þörf er á aðstoð við túlkun er leitað til túlks.

Heimsóknir í kennslustundir

Foreldrar eiga þess kost að koma í heimsókn í ákveðnar kennslustundir. Mikilvægt er fyrir foreldra að vera í samráði við viðkomandi kennara um heppilegan tíma. Það eykur líka möguleikann á því að gestirnir verði virkir þátttakendur í skólastarfinu. Forráðamenn sem eiga þess kost eru hvattir til að koma með í gróðursetningarferðina að hausti, í skíðaferðina og í fjallgönguna að vori.

Vinnustaðakynning

Foreldrar sem hafa áhuga á eiga þess kost að bjóða hóp barna sinna, ásamt kennara þeirra, í heimsókn á vinnustað sinn. Einnig er gaman þegar foreldrar koma í skólann og kynna störf sín. Slíkt er áhugavert bæði fyrir foreldra og nemendur.

Skólakynning foreldra og nýnema

Foreldrar væntanlegra nemenda í 1. bekk eru boðaðir á kynningarfund á vordögum. Þar er skólastarfið kynnt og þeim sýndur skólinn. Í vikunni fyrir skólasetningu er nýjum nemendum í 2.-10. bekk boðið í kynningu á skólanum. Starfsfólk skólans sér um kynningu og mótttöku nýnema.

Við kennum þið þjálfið

Að hausti er haldinn fræðslufundur um lestur fyrir foreldra/forráðamenn barna í 1. bekk. Þar er fjallað um lestrarkennslu, stoðkerfi Sjálandsskóla, fyrirkomulag heimalesturs og hlutverk foreldra í heimalestri. Reynsla okkar sýnir að þáttur foreldra er mikilvægur og getur skipt sköpum fyrir lestrarnám barna. Góð byrjun á samstarfi heimilis og skóla í lestrarnámi er því gríðarlega mikilvæg. Við leggjum mikla áherslu á að hvert einasta barn í 1. bekk eigi fulltrúa á fræðslufundinum. Þess vegna bjóðum við uppá tvær tímasetningar samdægurs til þess að foreldrar geti valið hvor tímasetningin hentar þeim betur.

Tölvusamskipti

Allir starfsmenn Sjálandsskóla eru með netfang og tölvupóstur er einfalt, þægilegt og fljótlegt samskiptaform. Tölvupóstur er ákjósanlegur í almennum samskiptum við einstaka kennara eða skólann. Við bendum þó á að tölvupóstur er ekki örugg samkiptaleið og ætti ekki að nota til að tala um viðkvæm mál heldur til að leita upplýsinga, hrósa eða koma með ábendingar. Ef um viðkvæm mál er að ræða er æskilegra að hafa símasamband eða koma á fundi. Kennarar Sjálandsskóla eru ekki með fastan símaviðtalstíma en ritari kemur skilaboðum til kennara ef óskað er eftir að þeir hafi samband.

Starfsfólki skólans er ekki heimilt að eiga samskipti vegna einstakra nemenda á facebook. Vísa í persónuverndarlög.

Námfús – fjölskylduvefur

Sjálandsskóli notast við upplýsingakerfið Námfús – Fjölskylduvef en þar er hægt að nálgast upplýsingar um ástundun nemenda, bekkjarlista og stundatöflur. Nemendur/forráðamenn fá veflykil hjá ritara við upphaf skólagöngu sem veitir foreldrum og börnum aðgang að upplýsingunum. Mikilvægt er að foreldrar skrái netföng hjá ritara skólans því oft eru sendar út tilkynningar rafrænt. Ef lykilorð týnist er hægt að fá
nýtt hjá ritara. Heimasíða Fjölskylduvefsins er á www.namfus.is.

Fundir með foreldrum og nemendum

Stjórnendur, kennarar, þroskaþjálfar og sérkennarar sitja fjölmarga fundi vegna nemendamála. Það kunna að vera teymisfundir vegna einstakra nemenda, skilafundur vegna greininga, fundur vegna hegðunarmála o.s.frv. Hagsmunir barnsins eru ávallt hafðir að leiðarljósi og málefni fundarins eru rædd af fagmennsku með lausnarmiðun að leiðarljósi.

Foreldrafélagið

Lög foreldrafélags Sjálandsskóla

1. grein. Félagið heitir Foreldrafélag Sjálandsskóla. Félagar teljast allir forráðamenn nemenda skólans.

2. grein. Markmið félagsins er að:

 • vera samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í skólanum.
 • efla og tryggja gott samstarf foreldra og starfsfólks skólans.
 • styðja heimili og skóla við að skapa nemendum góð uppeldis- og menntunarskilyrði.
 • koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla- og uppeldismál.
 • standa vörð um réttindi barna til mennta og aukins þroska.

3. grein. Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með því að:

 • skipuleggja og halda utan um starf bekkjarfulltrúa í hverjum bekk
 • koma á umræðu- og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál.
 • standa að upplýsingamiðlun til foreldra t.d. með útgáfu fréttabréfs og halda úti
 • heimasíðu foreldrafélagsins þar sem birtar eru fundargerðir og annað er viðvíkur starfsemi félagsins
 • veita skólayfirvöldum lið svo að aðstæður til náms og félagslegra starfa verði sem bestar
 • taka þátt í samstarfi við önnur foreldrafélög, svæðaráð og landssamtök foreldra

4. grein. Stjórn félagsins skipa þrír foreldrar/forráðamenn, æskilegt er að þar af sé einn sem einnig hefur verið kosinn í foreldraráð. Stjórn skal kjörin til tveggja ára í senn tveir stjórnarmenn annað árið og einn hitt árið. Stjórnin skiptir með sér verkum. Auk formanns skal stjórnin skipuð ritara og gjaldkera.

5. grein. Bekkjarfulltrúar starfa á vegum foreldrafélagsins sem setur þeim starfsreglur. Bekkjarfulltrúar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins. Hlutverk bekkjarfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hverrar bekkjardeildar með nánu samstarfi við umsjónarkennara. Stjórn foreldrafélagsins ber ábyrgð á að í upphafi skólaárs séu kosnir tveir til þrír fulltrúar forráðamanna úr hverri bekkjardeild til tveggja ára í senn. Í fyrsta bekk eru tveir eða einn kosnir til tveggja ára og einn til eins árs til að stuðla að því að allir hætti ekki á sama tíma.

6. grein. Aðalfundur skal haldinn í maí ár hvert. Stjórnin boðar til fundarins í samstarfi við foreldraráð með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Í fundarboði skal kynna efni fundarins.

Verkefni aðalfundar:

 • Kosning fundarstjóra og fundarritara
 • Skýrsla stjórnar
 • Skýrslur nefnda
 • Lagabreytingar
 • Reikningar lagðir fram til samþykktar
 • Kosning fulltrúa í stjórn foreldrafélags
 • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 • Skýrsla foreldraráðs
 • Kosnins fulltrúa í foreldraráð

Önnur mál

7. grein Stjórn foreldrafélagsins getur skipað nefndir um afmörkuð verkefni. Stjórnin ber ábyrgð á störfum nefnda og setur þeim erindisbréf.

8. grein Fulltrúaráðið skal koma saman eigi sjaldnar en þrisvar á skólaárinu og oftar ef þurfa þykir. Fyrsti fundur skal haldinn í upphafi skólaárs. Stjórn félagsins undirbýr og boðar til þessara funda. Þar skulu rædd mál er varða markmið og starf foreldrafélagsins, starf foreldra í bekkjardeildum og verkefni foreldraráðs. Fulltrúaráð skal aðstoða stjórn félagsins í stærri verkefnum.

9. grein Félagsstjórn skal ekki sinna klögumálum eða hafa afskipti af vandamálum er upp kunna að koma á milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.

10. grein Stjórn foreldrafélagsins er heimilt að óska eftir því að foreldrar greiði framlag til félagsins. Þetta framlag er innheimt árlega og ákveðið á aðalfundi.

11. grein Ákvörðun um slit félagsins verður tekin með einföldum meirihluta á stórnarfundi og renna þá eignir þess til skólans.

12. grein Lögum þessum má breyta með einföldum meirihluta á aðalfundi, enda sé lagabreytinga getið í fundarboði.

            Samþykkt á fundi aðalfundi foreldrafélags Sjálandsskóla 11. október 2005

Bekkjarfulltrúar

Bekkjarfulltrúar starfa á vegum foreldrafélagsins sem setur þeim starfsreglur. Bekkjarfulltrúar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins. Hlutverk bekkjarfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hverrar bekkjardeildar með nánu samstarfi við umsjónarkennara. Stjórn foreldrafélagsins ber ábyrgð á að í upphafi skólaárs séu kosnir tveir til þrír fulltrúar forráðamanna úr hverjum umsjónarhópi til eins árs.

Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldra við kennara og annað starfsfólk skóla. Starfsreglur þeirra eru eftirfarandi:

 • Hlutverk bekkjarfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra/forráðamanna og nemenda auk þess að leitast við að treysta samband heimila og skóla innan hverrar bekkjardeildar.
 • Bekkjarfulltrúar tryggja að foreldrastarfið sem ákveðið er í bekknum sé framkvæmt, t.d. bekkjarkvöld, ferðalög, umræðufundir og heimsóknir. Æskilegt er að skipta foreldrum bekkjarins í litla hópa (4-5 foreldrar) til að skipuleggja einstök verkefni vetrarins.
 • Bekkjarfulltrúar aðstoða kennara við að skipuleggja þátttöku foreldra í skólastarfinu eftir því sem við á, t.d. í tengslum við vettvangsferðir, starfskynningar og heimsóknir foreldra í bekkinn.
 • Bekkjarfulltrúar aðstoða við framkvæmd einstakra viðburða á vegum foreldrafélagsins, t.d. innilegu og vorfagnað eða útvega staðgengil
 • Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir við stjórn foreldrafélagins og hafa seturétt á öllum fundum stjórnar. Þeir aðstoða einnig við atburði á vegum félagsins.
 • Bekkjarfulltrúar skulu gæta þess að hafa velferð nemenda, foreldra og kennara að leiðarljósi í bekkjarstarfinu og virða trúnað um persónulega hagi nemenda og foreldra.
 • Bekkjarfulltrúar aðstoði eða sjái um að kennari fái aðstoð við vettvangsferðir, skemmtanir eða önnur verkefni sem kennari óskar aðstoðar við
 • Bekkjarfulltrúar sjá um að koma vinahópastarfi af stað þar sem það er í gangi
 • Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldra innbyrðis
 • Þeir aðstoða foreldra í bekknum við að koma hugmyndum sínum á framfæri varðandi félagslífið í bekknum, aðstoða við viðburði sem styrkja nemendahópinn og skapa góðan bekkjaranda.
 • Þeir aðstoða foreldra við að samræma útivistarreglur, afmælisgjafir og ýmislegt annað er varðar almenna samræmingu í uppeldi. Þeir geta líka átt frumkvæði að skemmtunum og fræðslu fyrir nemendur bekkjarins og fjölskyldur þeirra.

Bekkjarfulltrúar eru einnig tengiliðir foreldra við stjórn foreldrafélagsins.

 • Fulltrúar eru ábyrgir fyrir að mæta á bekkjarfulltrúafundi tvisvar á vetri þar sem lagðar eru línur fyrir vetrarstarfið. Komist þeir ekki skulu þeir kalla aðra til.
 • Þeir skulu einnig aðstoða stjórn félagsins með nefndarstörf eða önnur verkefni sem

Grunnstoðir

Foreldrafélag Sjálandsskóla er aðili að Grunnstoð sem er samstarfsvettvangur Foreldrafélags grunnskóla í Garðabæ. Helstu verkefni Grunnstoða er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum Foreldrafélaga í Garðabæ.

Samskipti á facebook

Bekkjarfulltrúar nota gjarnan facebook fyrir forráðamenn ákveðinna bekkja eða árganga. Það er mikilvægt að stofnandi síðunnar sem er ábyrgur fyrir henni setji starfsreglur um hvaða upplýsingar mega koma fram. Það eru tilmæli skólans að þar leyfist eingöngu að vera gagnlegar og uppbyggilegar upplýsingar fyrir forráðamenn sem styðja með jákvæðum hætti við skólastarfið. Neikvæð skrif eiga ekki að leyfast hvorki um starfsmenn, foreldra eða nemendur skólasamfélagsins.

Starfsfólki skólans er ekki heimilt að eiga samskipti vegna einstakra nemenda á facebook sbr. Lögum nr 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Samskiptavandi utan skóla

Ef upp kemur samskiptavandi milli nemenda utan skólatíma bera forráðamenn ábyrgð á að leysa úr þeim með því að hafa samskipti við viðkomandi foreldra og vinna að lausn málsins. Ef foreldrum tekst ekki að leysa málið og vandinn dregur dilk á eftir sér inn í skólastarfið mun starfsfólk skóla koma til aðstoðar en alltaf er krafist samstarfs við forráðamenn sem eiga hlut að máli.

English
Hafðu samband