Skipulagsdagur
19.09.2008
Samskiptahæfni í skólastarfi „Virðing og umhyggja er lykill að gefandi og þroskandi samskiptum“
Föstudaginn 19. september kl. 8.30 – 14.00 efnir forvarnanefnd, íþrótta- og tómstundaráð í samstarfi við leik- og grunnskólanefnd Garðabæjar til fræðslufundar í Flataskóla fyrir kennara og starfsfólk leik- og grunnskóla og aðra sem koma að umönnun barna í Garðabæ. Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor og samstarfsfólk rannsóknasetursins Lífshættir barna og ungmenna við Háskóla Íslands munu fjalla um samskiptahæfni.
Leiðarljós umfjöllunarinnar eru gagnkvæm virðing og umhyggja við að byggja upp góðan bekkjar- og skólabrag og styrkja nemandann félagslega og námslega. Sjónum verður beint að því hve brýnt er að búa yfir góðri samskiptahæfni í nútíma samfélagi. Jafnframt verður fjallað um hvernig efla megi hæfni nemenda í samskiptum og greint í því samhengi frá skólaþróunarverkefninu: Hlúð að félags- og tilfinningaþroska nemenda. Sérstök áhersla verður lögð á leiðir við að leysa árekstra og ágreiningsmál í bekkjar- og skólastarfi. Nálgunin er þroskamiðuð þar sem fræði og framkvæmd eru tengd nánum böndum.
Umfjölluninni verður skipt í fyrirlestra og umræður. Boðið verður upp á léttan hádegisverð.