Forráðamenn nemenda Sjálandsskóla
Foreldrar eru mikilvægir samstarfsmenn skóla þar sem þeir bera ábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna. Afar mikilvægt er að foreldrar finni sig velkomna í skólann og að aðstoð þeirra sé vel þegin og hafi gildi. Þess er vænst foreldrar fylgist náið með námsframvindu barna sinna, gefi námi þess tíma, hvetji barnið áfram, sýni áhuga, tali jákvætt um skóla og skólastarf við barnið og spyrji viðeigandi spurninga (hver spurning á sinn stað og stund). Hvatt er til þess að foreldrar komi með virkum hætti að skólastarfinu með markvissum heimsóknum á skólatíma, þátttöku í starfi umsjónarbekkja, foreldrafélags og foreldraráðs. Mikil áhersla er lögð á að gott upplýsingastreymi sé á milli heimila og skóla.
Stofnaðir hafa verið vinahópar í nokkrum bekkjum skólans og eru þeir fyrst og fremst hugsaðir til að styrkja vináttuböndin innan bekkjarins. Bekkjafulltrúar hafa séð um að kynna og skipuleggja vinahópana í samvinnu við umsjónarkennara. Til að hægt sé að koma þessu í kring er nauðsynlegt að skipulagið sé vel kynnt fyrir foreldrum (t.d. með foreldrafundi) og að allir séu þessu samþykkir og komi sér saman um hvernig standa eigi að heimsóknunum. Fyrirkomulagið hefur verið á þann veg að bekknum er skipt upp í hópa og eru 4 – 5 nemendur í hverjum hópi. Hópurinn fer síðan einu sinni í heimsókn til hvers nemanda í hópnum. Þegar allir eru búnir að taka á móti hópnum einu sinni þá er hugsanlegt að bekknum sé aftur skipt upp í hópa og ferlið endurtekið.
Foreldraheimsóknir
Forráðamenn eru eindregið hvattir til að koma í heimsóknir á skólatíma barnanna. Forráðamenn mega gjarnan aðstoða starfsfólk skólans við öll þau störf sem þeir treysta sér til.Foreldrum gefst þannig kærkomið tækifæri til að kynnast starfsháttum, umhverfi og aðbúnaði barnanna.
Haustfundir
Að hausti eru forráðamenn boðaðir til fundar með umsjónarkennara. Þar kynna umsjónarkennarar vetrarstarfið. Foreldrar fá þá tækifæri til að ræða ýmis mál varðandiskólastarfið og félagsleg samskipti nemenda. Foreldrar velja tvo til fjóra bekkjarfulltrúa en þeir eru fulltrúar hópsins í árgangastarfi. Foreldrar nemenda í 1. bekk eru boðaðir á kynningarfund í maí vorið áður en barnið byrjar í skóla. Kynning fyrir foreldra barna í 1. bekk.
Foreldraviðtöl
Við upphaf skólastarfs á haustin þá eru forráðamenn boðaðir á fund með umsjónarkennara barnsins. Á fundinum er farið yfir helstu markmið og fyrirkomulag vetrarins. Í október eða nóvember eru forráðamenn og nemendur aftur boðaðir í skólann þar sem farið er yfir framvindu námsins og ákveðin næstu skref. Svipað viðtal fer síðan aftur fram í febrúar. Ef þörf er á þá eru foreldraviðtöl gjarnan fleiri yfir veturinn. Ef um er að ræða erlenda foreldra sem ekki tala og skilja íslensku þá er fengin aðstoð túlks við viðtalið.
Foreldrafélag
Í Sjálandsskóla er starfrækt foreldrafélag. Félagar í því eru allir forráðamenn nemenda í skólanum. Meginmarkmið félagsins er að efla samstarf milli forráðamanna nemenda og skólans og stuðla að velferð nemenda í leik og starfi. Starf foreldrafélagsins byggist á skipulögðu samstarfi forráðamanna nemenda í hverjum umsjónarhóp og skólans. Stjórn foreldrafélagsins er skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum sem allir eru forráðamenn nemenda í skólanum. Stjórnin fundar reglulega. Allar fundargerðir foreldrafélagsins eru aðgengilegar á netinu. Ef forráðamenn vilja koma málum á framfæri við stjórnina þá er hægt að hafa samband við stjórnina í gegnum tölvupóst eða símleiðis. Stjórnarskipti eru á aðalfundi sem er haldinn að vori. Bekkjarfulltrúar: Tveir bekkjarfulltrúar koma frá hverjum umsjónarhópi og er hlutverk þeirra m.a. aðhalda utan um bekkjarstarf í samráði við kennara og með þátttöku annarra foreldra og mæta á aðalfund foreldrafélagsins. Nánari lýsingu á hlutverki bekkjarfulltrúa er hægt að nálgast á heimasíðu skólans. Foreldrar í Sjálandsskóla eiga fulltrúa í svæðaráði foreldra í Garðabæ.
Foreldraráð
Við Sjálandsskóla starfar foreldraráð. Kosið er í foreldraráð til tveggja ára í senn. Foreldraráð fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið, fylgist með að áætlanir séu kynntar foreldrum, svo og með framkvæmd þeirra. Skólastjóri starfar með foreldraráði og veitir því upplýsingar um starfið í skólanum. Ráðið fundar að jafnaði mánaðarlega með skólastjórnendum. Upplýsingar um starf foreldraráðsins er að finna á heimasíðu skólans.
Heimasíða
Á heimasíðu Sjálandsskóla hafa foreldrar/forráðamenn greiðan aðgang að upplýsingum um skólastarfið. Þar er m.a. að finna upplýsingar um skólann, tilkynningar frá skólanum, nöfn starfsmanna, stundaskrár, skóladagatal, skólanámskrá, skýrslur, námsvísa og áætlanir, fréttabréf og myndir úr skólalífinu. Foreldrafélagið og foreldraráð skólans eru með sér svæði þar sem upplýsingar, fréttabréf og fundargerðir eru birtar.