Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Frávik frá skólareglum

Mikilvægt er að starfsmenn, foreldrar og nemendur séu meðvitaðir um æskilega hegðun og viðbrögð við hegðunarfrávikum. Nemendur fá fræðslu og þjálfun varðandi greinarmun á æskilegri hegðun og hegðunarfrávikum.

Í Sjálandsskóla er leitast við að hafa skýr og fyrirsjáanleg viðbrögð við hegðunarfrávikum. Hegðunarfrávikum er skipt upp í þrjú stig eftir alvarleika. Úrvinnsla 1. stigs hegðunarfrávika er í höndum kennara/ starfsmanns, 2. stigs hegðunarfrávik í höndum umsjónarkennara / kennara með aðkomu verkefnastjóra, 3. stig hegðunarfrávik eru unnin af stjórnendum og kennurum.

Í dagsins önn er eðlilegt að nemendur gleymi sér og þurfi leiðsögn um atferli. Flestum málum lýkur yfirleitt með leiðsögn og ábendingu. Ef mál eru þannig sprottin eða nemendur ekki tilbúnir að taka leiðsögn setur starfsmaður þau í skýrt ferli.

Lögð er áhersla á að minniháttar hegðunarfrávik fyrnist þegar úrvinnslu þeirra er lokið. Nemandi sem ekki sýnir öðrum og umhverfi sínu virðingu og vinsemd er studdur með markvissum aðgerðum skóla og heimilis.


1. stigs hegðunarfrávik
• Þras, ögrun, rifrildi
• Truflar athafnir, leiki eða vinnu annarra
• Gengur illa um
• Pikk og pot, ögrandi snerting
• Hróp, köll, garg og gól
• Hlaup á göngum
• Koma seint í tíma/ fara úr tíma án leyfis

Viðbrögð við 1. Stigs hegðunarfrávikum
• Kennari/ starfsmaður ræðir við nemandann til að fá upplýsingar um málsatvik (umsjónarkennari upplýstur um málið)
• Nemanda er leiðbeint
• Útskýrðar fyrir nemanda leiðir sem henta betur, æskileg viðbrögð sem eru ekki hegðunarfrávik.

2. stigs hegðunarfrávik
• Særandi eða niðrandi orðbragð
• Óhlýðni, neitar að fylgja fyrirmælum
• Ósannsögli, svindl
• Niðurbrjótandi áreitni, hrekkir, stríðni
• Skemmdir á eigum annarra eða skóla
• Óleyfileg notkun á tölvum og snjalltækjum
• Árekstrar við aðra nemendur
• Skróp
• Fara án leyfis af skólalóð

Viðbrögð við 2. stigs hegðunarfrávikum
• Verkefnastjóri/ umsjónarkennari hefur samband við foreldra/ forráðamenn.
• Atvik er skráð í Námfús
• Sýni nemandi endurtekið sömu hegðun er boðað til fundar með foreldrum/ forráðamönnum
• Útbúin er umbótaáætlun þar sem það á við

3. stigs hegðunarfrávik
• Ofbeldi/ líkamsárás
• Ógnandi hegðun og/ eða hótanir
• Skemmdarverk
• Hnupl eða þjófnaður
• Meðferð vopna, eldfæra eða ávanabindandi efna

Viðbrögð við 3. stigs hegðunarfrávikum
• Haft er samband við foreldra og þeir boðaðir til fundar með nemanda, stjórnanda og umsjónarkennara eins fljótt og unnt er
• Nemandi er tekinn úr aðstæðum og fer ekki inn í bekk fyrr en málinu er lokið
• Atvik er skráð í atvikaskrá

Úrræði sem skólinn hefur í nemendamálum
• Leiðsögn frá kennara og tíð upplýsingagjöf til foreldra
• Gerður samningur með skilyrðum
• Reglulegir stöðufundir með foreldrum, kennurum og stjórnendum
• Handleiðsla námsráðgjafa
• Handleiðsla þroskaþjálfa og eftirfylgni
• Nemandi hafður í námsaðstæðum utan heimasvæðis með starfsmanni
• Fjallað um nemanda á nemendaverndarráðsfundi þar sem leitað er mögulegra úrræða utan skólans (sálfræðigreining, heilsugæsla eða aðrar heilbrigðisstofnanir)
• Tilkynning til fjölskyldusviðs Garðabæjar

Gildistaka og kynning
Ferlið tekur gildi 1. janúar 2022. Verklagið hefur verið rætt á tveimur kennarafundum og endurskoðað, samþykkt í skólaráði og kynnt fyrir nemendum.
Verklag um hegðunarfrávik og skólareglur er sífellt til endurskoðunar og taka breytingum í ljósi reynslu og eftir atvikum.


English
Hafðu samband