Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gildi og leiðarljós

Að vilja og virða

Í lögum um grunnskóla segir að það sé markmið grunnskóla, í samvinnu við heimilin, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Þannig á grunnskólinn að leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Skólinn á að stuðla að góðu samstarfi við heimilin með það að markmið að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda. Starfshættir skólans eiga að mótast af umburðarlyndi, góðum gildum og lýðræðislegu samstarfi.

Grunnskólinn á að veita nemendum tækifæri til þess að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið á því að leggja grunn að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Með framangreint að leiðarljósi er hugmyndafræði Sjálandsskóla byggð. Skólahúsnæði Sjálandsskóla er sveigjanlegt og í starfinu er lögð áhersla á einstaklingsmiðað skólastarf og samvinnu nemenda.

Skólabragur

Skólinn er sameiginlegur vinnustaður margra ólíkra einstaklinga. Litið er svo á að mannleg samskipti og ábyrg hegðun séu grunnþættir í skólastarfinu og forsenda náms sé að nemendum líði vel í skólanum. Hver nemandi og starfsmaður á rétt á því að fá tækifæri til að vinna vinnuna sína eins og best verður á kosið. Unnið er markvisst að því að skapa andrúmsloft háttvísi og frelsis í skólanum. Ábyrgð nemenda
á eigin starfi, leik, viðhorfum og framkomu verður þroskuð með því að veita þeim viðeigandi ábyrgð, val og frelsi eftir því sem þroski þeirra leyfir og með því að láta þá taka þátt í umræðu og eiga hlutdeild í ákvörðunum um réttindi sín og skyldur.

Í Sjálandsskóla er starfað samkvæmt einkunnarorðunum: Að vilja og virða.

Að vilja vísar til þess að nemandinn sé hvattur til þess að:

 • Að gera sitt besta og vera virkur í náminu
 • Sýna sjálfstæði, áhuga og frumkvæði í námi, starfi og leik
 • Vilja axla ábyrgð og hjálpa öðrum.

Að virða vísar til þess að nemandinn sé hvattur til þess að

 • Virða sjálfa/n sig
 • Virða aðra
 • Virða umhverfi sitt

Vellíðan allra

Unnið er markvisst að því að skapa andrúmsloft háttvísi og frelsis í skólanum. Ábyrgð nemenda á eigin starfi, leik, viðhorfum og framkomu verður þroskuð með því að veita þeim viðeigandi ábyrgð, val og frelsi eftir því sem þroski þeirra leyfir og með því að láta þá taka þátt í umræðu og eiga hlutdeild í ákvörðunum um réttindi sín og skyldur.

Skólahúsnæðið er þannig skipulagt að vinnuaðstaðan er fjölbreytt og hefur upp á margvíslegar aðstæður að bjóða. Nemendur læra að hverjum stað hæfir rétt atferli og raddstyrkur. Þannig nota nemendur innirödd inni í skólanum en útirödd á skólalóðinni. Það er engu að síður mikilvægt að nemendur læri að tala saman um nám, það er mjög öflug námsaðferð. Áhersla er lögð á að nemendur spyrji skólafélaga ef þá rekur í vörðurnar í námi sínu áður en að þeir spyrja kennara eða starfsmann. Báðir hagnast og læra, sá sem spyr og sá sem svarar.

Umgengnisreglur eru mikilvægar bæði í skólahúsnæðinu og á skólalóðinni. Hluti af því að byggja upp góðan aga og skapa vinnufrið er að hafa reglur skýrar og gott skipulag svo að nemandi viti hvað hann má og hvað ekki og hvar hlutir sem hann þarf að nota í námi sínu eru geymdir.

Sérstakir viðburðir á skólaárinu

Frá upphafi skólans hafa þróast ýmsir siðir og venjur sem tengjast sérstökum viðburðum á skólaárinu. Hafa þeir allir það hlutverk að efla og bæta skólabraginn.

Skólasetning

Skólasetning fer fram á heimasvæðum nemenda á fyrsta skóladegi ár hvert. Þar er stutt samvera þar sem umsjónarkennara segja frá mikilvægum atriðum varðandi skólabyrjunina. Nýnemar hitta kennara á stuttum fundi fyrir fyrsta skóladaginn. Daginn eftir skólasetningu hefst svo formlegt skólastafs með morgunsöng allra nemenda í 1. – 7. bekk og starfsmanna.

Gróðursetningardagur í Sandahlíð

Sjálandsskóli fékk úthlutað landsvæði til ræktunar hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar. Svæðið er í suðaustanverðri Sandahlíð nálægt Guðmundarlundi. Farið er árlega að hausti með allan nemendahópinn í gróðursetningar- og útivistarferð. Nemendahópnum er fjórskipt í vinnu. Á meðan einn hópur plantar undir stjórn starfsfólks Garðyrkjudeildar Garðabæjar eru hinir við leiki í Guðmundarlundi. Í hádeginu eru grillaðar pylsur og svo er frjáls leikur á svæðinu.

Skólabúðir á Reykjum

Á hverju hausti fara nemendur í 7.bekk í fimm daga ferð í skólabúðir á Reyki í Hrútafirði. Starfið er í öllum aðalatriðum byggt á sömu markmiðum og starf í almennum grunnskólum. Sérstök áhersla er lögð á að auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda, auka félagslega aðlögun nemenda, að nemendur fáist við áður óþekkt viðfangsefni, kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta svo að eitthvað
sé nefnt. Umsjónarkennarar bekkjarins fylgja nemendum í skólabúðirnar.

Vinavika og 9. nóvember

9. nóvember árið 2011 fékk skólinn afhent íslensku menntverðlaunin. Þetta hefur orðið sérstakur hátíðisdagur og lok vinaviku tengist honum. Í vinaviku er lögð áhersla á náungakærleika, virðingu og gleði.

1. des. Fullveldisdagurinn

Fullveldisdagurinn er að jafnaði með þeim hætti að allir nemendur í skólanum fá aldurstengda fræðslu um þann atburð í sögunnu þegar Íslendingar fengu fullveldi. Nemendur í 8. bekk flytja dagskrá sem er samansett af ýmsum fróðleik um fullveldishátíðina 1918, aðdraganda hennar og líf og starf Íslendinga á þeim tíma. Nemendur skólans sem stunda nám við tónlistarskóla Garðabæjar flytja gjarnan tónlist við
þessa athöfn.

Dagur íslenskrar tungu

Þann 16. nóvember ár hvert er dagskrá í tengslum við Dag íslenskrar tungu sem er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar. Hver árgangur vinnur að einhverjum verkefnum tengdum íslenskri tungu. Gjarnan er farið út fyrir skólann og verkefnin kynnt þar.

Upplestrarkeppni

Á hverju ári er haldin upplestrarkeppni meðal nemenda í 7. bekk á Íslandi. Keppnin nefnist Stóra upplestrarkeppnin og hefur skólinn tekið þátt í henni. Hefst hún formlega á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember og henni lýkur í mars. Fyrri hluti keppninnar fer þannig fram að nemendur æfa sig í því að lesa upphátt fyrir samnemendur sína. Lýkur keppninni með upplestrarhátíð sem haldin er á sal skólans þar sem 2-3 nemendur eru valdir til áframhaldandi þátttöku fyrir hönd skólans. Í síðari hluta keppninnar keppa fulltrúar skólanna í Garðabæ og á Seltjarnarnesi um hver er besti upplesarinn. Markmið keppninnar er að:

 • Að vekja athygli og áhuga nemenda á vönduðum upplestri og framburði
 • Að nemendur þjálfist í að lesa upphátt
 • Að nemendur þjálfist í að koma fram fyrir aðra
 • Að nemendur þjálfist í að hlusta á aðra
 • Að þjálfa nemendur í að temja sér góða og prúðmannlega framkomu

Aðventan

Markmið skólans er að hafa desember afslappaðan og notalegan mánuð. Stefnt er að því að hafa uppbrotsdag í vikunni fyrir fyrsta sunnudag í aðventu. Nemendur vinna þá í hópum ýmist að því að búa til jólaskraut fyrir skólann eða jólagjafir. Í desember ár hvert taka nemendur þátt samfélagsverkefni og aðstoða þá sem minna mega sín.

Næst síðasta daginn fyrir jólafrí er friðar- og góðverkadagur í skólanum. Nemendur hittast á sal skólans þar flytur skólakór Sjálandsskóla lög frá jólatónleikum kórsins og boðið verður uppá skemmtun. Að henni lokinni fara allir nemendur skólans í friðargöngu um nærumhverfi skólans. Eftir göngu vinna nemendur undir stjórn umsjónarkennara á sínum heimasvæðum að verkefnum sem tengjast góðverkum og kærleika. Í hádeginu borða nemendur og starfsmenn saman hátíðarverð í matsalnum.

Síðasta kennsludag fyrir jólafrí er jólaskemmtun í skólanum. Hefðbundin kennsla fellur niður þennan dag og nemendur mæta prúðbúnir á sína skemmtun. Hátíðardagskrá er á sal þar sem m.a. er fluttur helgileikur sem er í höndum nemenda í 5. bekk. Að sýningu lokinni fara nemendur í 5.-7.bekk á sín heimasvæði spila og halda stofujól en nemendur í 1. -4. bekk dansa í kringum jólatré undir stjórn tónlistarkennara, skólastjóra og nokkrum meðlimum skólakórsins. Þegar því er lokið fer umsjónarkennari með sínum nemendum í stofu og þar eru haldin stofujól. Nemendur unglingadeildar halda notalega jólastund á síðasta kennsludegi fyrir jól. Þau koma í náttfötum spila, horfa á jólamynd, gæða sér á kakó og smákökum og hafa notalega jólastund á sínu heimasvæði.

Listviðburðir

Á hverju skólaári eru fengnir listamenn í heimsókn sem flytja efni fyrir nemendur í skólanum s.s. upplestur, leiklist eða tónlist. Markmiðið með því er að sjá til þess að nemendum sé boðið upp á fjölbreytta listsköpun og kenna þeim að njóta hennar.

Stigið á stokk

Lögð er áhersla á að allir nemendur í 1.-10. bekk fái tækifæri til að stíga á svið a.m.k. einu sinni á hverju skólahári. Í upphafi skólaárs er umsjónarhópunum skipt niður á ákveðnar dagsetningar þar sem hver umsjónarhópur á að sjá um skemmtiatriði í morgunsöng a.m.k. einu sinni á hvorri önn yfir veturinn. Allir aðrir nemendur fá þá að fylgjast með. Aðalmarkmiðið með þessum stundum er að:

 • Gefa nemendum tækifæri til að koma fram og flytja atriði fyrir skólafélaga sína
 • Þjálfa nemendur í að temja sér góða og prúðmannlega framkomu á samkomum
 • Efla sjálfstraust nemenda
 • Efla og ýta undir listsköpun nemenda
 • Þjálfa nemendur í að hlusta á flutning atriða

Íþróttadagur og vorleikar

Markvisst er unnið að því að efla hreyfingu og útiveru nemenda í skólanum. Meðal annars eru útikennslutímar fastir í töflu hjá nemendum í 1.-7.bekk. Þrír skipulagðir dagar tengjast hreyfingu þ.e. íþróttadagar á haustin og vorleikar að vori. Á íþróttadegi og á vorleikum taka nemendur og starfsfólk þátt í hinum ýmsu íþróttagreinum og þrautum. Lögð er áhersla á að mikla fjölbreytni svo að flestir fái eitthvað við sitt hæfi. Markmið með slíkum dögum er að stuðla að aukinni hreyfingu, efla samkennd og félagsanda innan skólans.

Öskudagur

Nemendur klæða sig í búninga, syngja í „verslunum“ sem settar eru upp í skólanum (foreldrar gefa sælgæti), leysa fjölbreyttar þrautir og fara í gegnum draugahús.

Vetrarferð til fjalla

Árlega fara allir nemendur í 1.-7. bekk og starfsmenn í dagsferð til fjalla. Nemendur í 6. bekk gista eina nótt í Bláfjöllum. Nemendur sem kjósa að fara á skíði eða snjóbretti hafa tækifæri á því og njóta þá leiðsagnar kennara skólans. Þeir sem ekki vilja skíða, geta rennt sér á snjósleða að farið í aðra leiki. Forráðamenn er hvattir til að mæta með okkur og eiga notalega stund í fjallinu. Nemendur unglingadeildar fara í 4. nátta skíðaferð á vegum félagsmiðstöðvarinnar Klakans. Undanfarin ár hefur verið farið á Dalvík.

Dagur umhverfisins – 25. apríl

Árgangar fara um skólalóð og næsta nágrenni skólans, tína upp rusl og taka til hendinni með fjölbreyttum hætti.

112 dagurinn

Árlega þann 11. febrúar er 112 dagurinn haldinn um allt land. Sjálandsskóli tekur þátt í deginum og nemendur fá fræðslu eftir aldursstigum. Allir fá fræðslu um fyrstu hjálp og um neyðarnúmerið 112. Auk þess fá nemendur dýpri fróðleik um ákveðin mál og þannig byggt ofan á þekkinguna með árunum. Þannig munu nemendur í 1.-2.b. fá umferðarfræðslu, nemendur í 3.b.-4b. fá fræðslu um brunavarnir, 5-7.bekkur verður kennt að binda um sár, 112 appið verður kynnt og fyrsta hjálp. Á unglingastigi verður farið dýpra í skyndihjálp og fyrsta hjálpa rifjuð upp á hverju ári.

Árshátíð unglingadeildar

Árshátíð unglingadeildar er haldin á vorönn, yfirleitt í apríl mánuði. Unglingar í félagsmálavali skipuleggja dagskrá árshátíðarinnar ásamt forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar. Kennurum og öðru starfsfólki skólans er boðið á árshátíðina og foreldrar unglinganna aðstoða við að framreiða matinn. Árshátíðin er haldin í hátíðarsal skólans og er dagskrá ávallt hin glæsilegasta.

Ferðir

Á hverju skólaári fara nemendur skólans ásamt kennurum sínum í ýmsar ferðir. Farnar eru vettvangsferðir í tengslum við útikennslu og farið á söfn og sýningar. Í skólaferðum er leitast við að blanda saman námi og skemmtun og því er litið á allar ferðir skólans sem órjúfanlegan hluta af fjölbreyttu skólastarfi. Að öllu jöfnu er um að ræða ferðir á skólatíma. Nemendur í 7. bekk fara þó í 5 daga ferð í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og nemendur á unglingastigi fara í vor, haust og skíðaferðir með félagsmiðstöðinni Klakanum.

Innilega og útilegur

Í lok skólaársins er útivistardagur og innilega í Sjálandsskóla. Dagurinn er skipulagður og haldinn í samráði við foreldrafélag skólans. Dagurinn hefst á sameiginlegri fjallgöngu nemenda í 5.-7. bekk en nemendur í 1.-4. bekk fara í léttari göngu. Lagt er af stað um kl. 9:30 og komið til baka um kl. 16:00. Þá sameinast nemendur í skólanum. Foreldrafélag skólans grillar fyrir nemendur og haldin er kvöldvaka.
Innilegu lýkur um kl. 10 daginn eftir. Foreldrar koma gjarnan með í þessa ferð.

Á meðan nemendur á yngra- og miðstigi eru í innilegu fara nemendur í 8. og 9. bekk í einnar náttar útilegu. Áfangastaðir eru mismunandi á milli ára. Hefð hefur skapast fyrir því að nemendur í 10. bekk fara í tveggjanáttaferð í Þórsmörk. Skipulag og utanumhald ferða í unglingadeildinni er í höndum félagsmiðstöðvarinnar Klakans.

Uppeldis- og kennslufræðileg stefna

Í Sjálandsskóla miðar umhverfi og starf að því að hver nemandi fái notið sín til fulls undir handleiðslu hóps samhentra starfsmanna. Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og hafa miklar væntingar til nemenda um námsárangur. Starfsmenn gera raunhæfar kröfur um leið og nemendur eru hvattir til þess að gera sitt besta, sýna sjálfstæði, áhuga og frumkvæði í námi, starfi og leik. Samhliða því læra nemendur að axla ábyrgð á eigin gjörðum, hjálpa öðrum og sýna sjálfum sér og umhverfi sínu virðingu. Í starfinu er lögð áhersla á að skapa tækifæri til margháttaðra námsaðstæðna, innan og utan skólans og fjölbreyttrar skiptingar í námshópa. Útikennsla, lýðræðisleg vinnubrögð, sköpun og tjáning eru samofin öllu skólastarfinu og nemendur fá fjölbreytt tækifæri til þess láta vonir sínar og væntingar rætast
í námi og leik.

Teymiskennsla

Í Sjálandsskóla starfa kennara saman í teymum sem saman hafa það markmið að bæta árangur nemenda. Hver kennari í teymi hefur ákveðinn hóp nemenda sem hann hefur umsjón með en þeir bera sameiginlega og faglega ábyrgð á nemendahópnum. Í 1.-7. bekk sjá umsjónarkennarar um alla bóklega kennslu og vinna saman að undirbúningi og skipulagi kennslunnar. Þeir kenna oftast á sama tíma í kennslurýmum nemendahópsins. Hugmyndafræði opna skólans byggir á því að kennarar vinna saman að því að ná fram markmiðum nemenda. Hver umsjónarkennari sinnir foreldrasamstarfi og sinnir hverjum nemanda einstaklingslega.

Einstaklingsmiðað skólastarf

Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á einstaklingsmiðað skólastarf svo að sérhver nemandi fái notið sín í námi, starfi og leik. Starfsfólk Sjálandsskóla kappkostar því að koma með sveigjanlegum hætti til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda. Nemendur geta verið að fást við ólík viðfangsefni eða nálgast sama viðfangsefnið á ólíkan hátt. Hver vinnur á eigin hraða, einstaklingslega, í paravinnu eða hópvinnu. Enn fremur er rík áherslu lögð á ábyrgð nemenda á eigin námi og á virka þátttöku þeirra. Í starfinu er lögð áhersla á að skapa tækifæri til margháttaðra námsaðstæðna og fjölbreyttrar skiptingar í námshópa þar sem til dæmis er tekið mið af mismunandi áhuga og námsstöðu nemenda.

Lýðræðisleg vinnubrögð

Lýðræðisleg vinnubrögð eru samofin öllu skólastarfinu og eru einn af hornsteinum starfsins í Sjálandsskóla. Nemendur fá fjölbreytt tækifæri til þess að venjast lýðræðislegum leikreglum. Þannig er lögð áhersla á að nemendur hafi val um viðfangsefni og læri að bera ábyrgð á vali sínu. Þá er lögð áhersla á að allir sem í skólanum starfa (nemendur og starfsfólk) komi fram að virðingu gangvart sjálfum sér og öðrum og þeir tileinki sér og læri tjáskiptaaðferðir þar sem þeir geta komið skoðunum sínum á framfæri í fjölmenni á uppbyggilegan hátt. Mikil áhersla er lögð á nemendalýðræði og nemendur eru virkir þátttakendur þegar kemur að ákvörðunartöku um hin ýmsu mál. Kennarar hvetja til umræðu sem eykur virkni og þátttöku nemenda. Slík vinnubrögð stuðla að því að skólinn er vinnustaður þar sem unnið er að sameiginlegum markmiðum. Umsjónarkennarar halda reglulega bekkjarfundi þar sem nemendur geta ýmist rætt það sem þeim liggur á hjarta eða ákveðin viðfangsefni er varða skólann eða námið. Reglulega eru haldin heimaþing en þá hitta nemendur stjórnendur skólans og gefst öllum tækifæri til að tjá skoðanir sínar á starfsemi skólans og koma á framfæri athugasemdum eða nýjum tillögum. Heimaþing eru undirbúin á bekkjarfundum þannig að hver bekkur hefur þá ákveðið hvað skal ræða við stjórnendur. Á hverjum skóladegi eru umsjónartímar og nemendur skólans taka þátt í störfum nemendaráðs.

Fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir

Notaðar eru fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir sem taka mið af mismunandi þroska, áhuga og getu nemendanna. Skólahúsnæði Sjálandsskóla er sveigjanlegt og skapar það mikla möguleika til þess að beita fjölbreyttum náms- og kennsluaðferðum. Áhersla er lögð á virkni nemenda í námi og að nemendum séu kennd vinnubrögð við að afla sér þekkingar og skipuleggja eigið nám. Þannig taka eldri nemendur m.a. þátt í að áætla eigin námsverkefni. Nemendur eru þjálfaðir við að vinna sem einstaklingar, sem hluti af stórum hóp og í pörum. Kennarar skólans vinna að því að kennsluaðferðir endurspegli alla flokka þekkingar og að verkefni byggist á öllum flokkum þekkingarsviðsins: minni,
skilningi, beitingu, greiningu, nýmyndun og mati. Á öllum aldursstigum er sérstök áhersla lögð á þemavinnu þar sem samþætt er vinna að námsmarkmiðum úr ólíkum námsgreinum til þess að skapa stærri námsheildir.

Vinaliðar

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna, það hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum í Noregi. Vinaliðaverkefnið gengur út á að hvetja nemendur til meiri þátttöku í leikjum og afþreyingu í frímínútum og skapa betri skólaanda. Allir nemendur í 3.-7. bekk fá tækifæri til að bjóða sig fram sem og fá það hlutverk að sjá um leiki sem eiga að höfða til nemenda eftir aldri í frímínútum. Þeir nemendur sem hafa áhuga á að vera leiðtogar fá til þess þjálfun og stuðning frá starfsfólki skólans. Fyrir störf sín fá þeir að launum uppskeruhátíð s.s. út að borða, bíó og óvissuferð. Verkefnisstjórar vinaliðaverkefnisins hjá Árskóla sjá um að halda árlega námskeið fyrir starfsfólk og nemendur sem eru leiðtogar vinaliða. Meginmarkmið verkefnisins er að efla vináttu, virðingu og ánægju nemenda. Þá er
markmiðið að bjóða uppá skipulagða leiki sem lúta ákveðnum leikreglum á ákveðnum dögum undir handleiðslu kennara í frímínútum. Það hentar öllum nemendum óháð atgervi þeirra og stöðu. Við horfum sérstakleg til nemenda með sérþarfir og þeirra sem eiga í félagslegum erfiðleikum. Þannig fá allir tækifæri til að ganga að vísum leikjum með félögum í frímínútum.

Verkefnið er stuðningur við eineltisáætlun Garðabæjar. Vinaliðaverkefnið leggur áherslu á jákvæðan skólabrag, jákvæðri hugsun og farsælum samskiptum þannig að hver einstaklingur fái notið sín. Verkefnið leggur áherslu á lýðræðisleg samskipti, menningarlegan og einstaklingslegan margbreytileika. Einn verkefnisstjóri úr röðum kennara leiðir verkefnið m.a. með því að sjá um kosningu vinaliða, þjálfun og stýringu leikja á skólalóðinni.

Skapandi starf

Sjálandsskóli leggur ríka áherslu á skapandi skólastarf. Nemendur í 1.-7. bekk sækja fjölbreytta list- og verkgreinatíma. Listgreinakennslan fer fram í vinnulotum hjá nemendum. Þannig fara allir nemendur skólans í hönnun og smíði, myndmennt, textíl, tónmennt, nýsköpun og dans. Nemendur í unglingadeild geta valið á milli fjölbreyttra valnámskeiða sem tengjast listum. Vallotum nemenda er skipt í fjórar lotur
yfir skólaárið. Allir nemendur skólans sækja tónmenntatíma einu sinni í viku og rík hefð er fyrir öflugu tónlistarstarfi í skólanum. Nemendur í 1.-7. bekk hefja alla daga á morgunsöng sem fram fer í hátíðarsal skólans.

Núvitund og jóga

Sjálandsskóli byrjaði að innleiða núvitund og jóga í skólastarfið vorið 2015. Markmið verkefnisins er að kenna nemendum að njóta þess að vera hér og nú og njóta stundarinnar. Þjálfa einbeitingu, jákvæðar hugsanir, að hafa stjórn á huga sínum og losa sig við íþyngjandi hugsanir. Kenna nemendum að gefa sér tíma til að horfa inn á við, læra að þekkja sjálfan sig, standa með sjálfum sér og blómstra á sinn eigin hátt í stað þess að fylgja fjöldanum. Einnig að bæta andrúmsloftið í kennslustundum og samskiptin á milli nemenda. Markmið verkefnisins er að auka vellíðan nemenda í skólanum, þjálfa einbeitingu, vinna með kvíða til að stuðla að auknum gæðum náms. Kennarar fá fræðslu um jógakennslu fyrir nemendur og hvernig hægt er að nýta jóga í kennslustundum.

Heilsueflandi skóli

Samkvæmt Aðalnámsskrá grunnskóla (2011) er Heilbrigði og velferð nú einn af sex grunnþáttum menntunar. Unnið er markvisst að því að kenna og virkja nemendur í heilbrigðum lífsstíl og stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu. Það er m.a. gert með því að hafa útikennslu í stundatöflum nemenda í 1.-7.bekk, vera með Vinaliða á skólalóðinni í frímínútum og innleiða núvitund og jóga í skólastarfið. Áhersluþættir Heilsueflandi grunnskóla eru átta þ.e., matræði/tannheilsa, hreyfing/öryggi, geðrækt, heimili, lífsleikni (tóbaksvarnir og áfengis- og vímuvarnir, nemendur, nærsamfélag og starfsfólk.

Skóli á grænni grein

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Sjálandsskóli fékk Grænfánann endurnýjaðan öðru sinni haustið 2016.

Náin tengsl skóla, umhverfis og grenndarsamfélags

Sjálandsskóli er hluti af iðandi mannlífi og menningu Garðbæjar og því kraftmikla umhverfi sem nágrenni hans skapar. Má þar helst nefna Hraunsholtslæk, Arnarnesvog og Gálgahraun. Í starfi skólans er lögð áhersla á að rækta tengsl við grenndarsamfélagið: foreldra (sjá nánar um samstarf heimilis og skóla), leikskóla, aðra grunnskóla, tónlistarskóla, íbúa í nágrenninu (t.d. Jónshús), tómstundaheimili, æskulýðs- og íþróttafélög, aðrar stofnanir og fyrirtæki. Þannig verða nemendur virkir samfélagsþegnar – fara út í samfélagið og samfélagið nær inn fyrir veggi skólans.

Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á upplifun nemenda af náttúru og umhverfi. Samspil náttúru og manns býður upp á gríðarlega fjölbreytta möguleika til náms og aukins þroska. Eitt af því sem gerir náttúrulegt umhverfi mikilvægt í uppeldi barna er fjölbreytnin, það óskipulagða og ófyrirséða. Náttúran býður upp á mörg verkefni til þess að þjálfa líkamann skynjun, skilningarvitin og athygli. Farið er í ýmsar vettvangsferðir (sjá nánar um útikennslu) þar sem umhverfið er skoðað og safnað efnivið til notkunar í öðru starfi. Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á að vernda umhverfið. Allt er þetta liður í að auka vitund og virðingu nemenda fyrir náttúrunni og umhverfinu.

Útikennsla

Útikennsla er kennsluaðferð sem markvisst er notuð í Sjálandsskóla. Allir nemendahópar skólans í 1.- 7. bekk eru með fastan útikennsludag í stundatöflu, einu sinni í viku. Útkennsla er einnig á unglingastigi en hún er frekar tengd viðfangsefnum hverju sinni. Útikennsla felst m.a.í því að flytja kennslu í sem flestum greinum að einhverju leyti út fyrir veggi skólans, til að tengja hana, með markvissum aðferðum og verkefnum, því samfélagi og þeirri náttúru sem þar er. Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á nærumhverfi skólans, og þær náttúru- og menningarminjar sem eru í Garðabæ.Í öllum árgöngum og námsgreinum er leitast við að tengja kennsluna og viðfangsefnin við raunverulegar aðstæður.

Þróunarverkefni

Sjálandsskóli hefur tekið þátt í fjölmörgum þróunarverkefnum á síðustu árum. Má þar nefna verkefni sem tengjast námsmati, nýrri lestrarstefnu skólans, kennslu- og félagarýni og sjálfsmati svo eitthvað sé nefnt. Starfsfólk sækir og er boðið upp á fjölbreytta endurmenntun á hverju skólaári. Þannig sækja allir kennarar annað hvert ár skyndihjálparnámskeið, allir kennarar skólans sækja sér réttindi til að kenna lestraraðferðina PALS. Nú er unnið að innleiðingu nýrrar Aðalnámskrár og verður megináhersla lögð á innleiðingu á nýju námsmati í skólanum.

Öflugt samstarf heimilis og skóla

Í Sjálandsskóla eru foreldrar virkir samverkamenn og mikið er lagt upp úr góðu samstarfi við foreldra. Afar mikilvægt er að foreldrar finni sig velkomna í skólann og að aðstoð þeirra sé vel þegin og hafi gildi. Þess er vænst að foreldrar fylgist náið með námsframvindu barna sinna, gefi námi þess tíma, hvetji barnið áfram, sýni áhuga, tali jákvætt um skóla og skólastarf við barnið og spyrji viðeigandi spurninga (hver spurning á sinn stað og stund). Hvatt er til þess að foreldrar komi með virkum hætti að skólastarfinu, með þátttöku í starfi umsjónarbekkja, foreldrafélags og foreldraráðs.

Stjórnun skólans

Skipurit skólans

Skólaráð

Samkvæmt 8. grein grunnskólalaga skal starfa skólaráð við grunnskóla. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald.

Verkefni skólaráðs er samkvæmt reglugerð eftirfarandi:

 • Fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið
 • Fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skólans og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar
 • Tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndarsamfélagið
 • Fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda
 • Fjallar um skólareglur og umgengnishætti í skólanum
 • Fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, almennum starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum, menntamálaráðuneyti og öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað
 • Tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitarstjórnar

Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla. Skólastjóri situr í skólaráði og stýrir starfi þess. Auk skólastjóra sitja í skólaráði tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndarsamfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra valinn af öðrum fulltrúum skólaráðs. Staðgengill skólastjóra stýrir skólaráði í forföllum skólastjóra. Aðstoðarskólastjóri Sjálandsskóla situr fundi og ritar fundargerð.

Nemendaráð

Við skólabyrjun að hausti eru lýðræðislega kosnir nemendur úr hverjum árgangi unglingadeildar til að sitja í stjórn nemendafélag skólans. Stjórnin fundar með forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar Klakans u.þ.b. hálfsmánaðar til mánaðarlega yfir veturinn. Skólastjórnendur funda a.m.k. einu sinni á önn með stjórninni. Á fundunum eru tekin fyrir hagsmunafélags- og velferðamál nemenda skólans. Stjórnin velur síðan fulltrúa úr sínum röðum til að sitja fundi skólaráðs. Þeir einir hafa kost á að sitja í skólaráði sem eru í unglingadeild skólans.

English
Hafðu samband