Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Helstu áætlanir skólans eru:

 • Skólareglur, meðferð og ferli hegðunarfrávika
 • Forvarnarstefna
 • Jafnréttisstefna
 • Heilsustefna
 • Umhverfisstefna
 • Gegn einelti í Garðabæ – stefna um forvarnir og viðbrögð við einelti
 • Viðbrögð við áföllum
 • Rýmingaráætlun
 • Móttaka nýrra nemenda með annað móðurmál en íslensku
 • Almannavarnaáætlun – óveður
 • Öryggis- og slysavarnir

Skólareglur, meðferð og ferli hegðunarfrávika

Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum (Nr. 1040/201) er kveðið á um að skólareglur skuli vera skýrar og afdráttarlausar og í samræmi við aðalnámskrá og lög um grunnskóla. Í þeim á að kveða á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar og hollar lífsvenjur. Í reglunum á að koma skýrt fram hvernig skólinn ætlar að bregðast við brotum á þeim.

Að vilja og virða

Grundvöllur að góðu skólastarfi er að hver og einn sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu virðingu með framkomu sinni, orðum og gerðum. Þá þarf hver og einn að taka ábyrgð á sjálfum sér í samfélagi manna og sýna viljann til góðra verka. Í Sjálandsskóla teljum við að til þess að geta uppfyllt skyldu okkar að mennta sjálfstæða, ábyrga og virka einstaklinga þurfi að vanda til allra samskipta og byggja upp sjálfsaga og sjálfstraust hvers og eins nemanda.

Hvatt er til jákvæðra samskipta í stað þess að einblína á reglur, boð og bönn. Lögð er áhersla á ábyrgð frekar en blinda hlýðni og virðingu í stað ytri umbunar/refsingar. Með því að þjálfa með nemendum sjálfsstjórn er lögð áhersla að rækta með hverjum og einum nemanda hæfnina til þess að meta aðstæður, hugsa áður en hann framkvæmir og meta hugsanlegar afleiðingar orða og verka. Með auknum sjálfsaga lærir nemandinn að taka ábyrgð á orðum og athöfnum. Við gerum öll mistök í lífinu, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna, nemendur eða starfsfólk. Það skiptir öllu máli hver breytnin er í kjölfar mistaka. Spurt er bæði hvernig við viljum vera og hvað við þurfum að gera til að ná eigin markmiðum í sátt og samlyndi við samferðamenn. Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á að nemendur átti sig á mistökum sínum, læri af þeim; til dæmis með því að velta fyrir sér hvaða athafnir hefðu verið vænlegri til árangurs. Hvernig hefði barnið geta sýnt meiri sjálfsaga og
ábyrgð? Með því að fá tækifæri til að bæta fyrir misgjörðir nær barnið með eigin viðleitni að endurheimta sjálfsvirðingu sína. Þessi uppeldisnálgun er jafnt í þágu þess sem beitir rangindum og þess sem beittur er rangindum.

Skólareglur Sjálandsskóla

 1. Skólinn er vinnustaður okkar allra, hver nemandi og starfsmaður á rétt á því að fá frið til að vinna
  sína vinnu.
 2. Við erum stundvís og komum með viðeigandi námsgögn, áhöld og búnað.
 3. Við virðum hvert annað, hjálpumst að og komum vel fram við alla í orði og verki.
 4. Við fylgjum fyrirmælum starfsmanna.
 5. Við göngum vel um skólann, eigur okkar og annarra.
 6. Við göngum hljóðlega um og sýnum varúð í allri umgengni í skólanum og á skólalóðinni.
 7. Skólalóðin er leiksvæði okkar allra og við sýnum sanngirni í leik og starfi.
 8. Við notum ekki rafrettur, tóbak- eða önnur vímuefni í skóla eða á skólalóð

Reglur sem varða heilbrigði og sjálfbærni

 • Við komum með hollt og gott nesti í skólann.
 • Neysla sælgætis og sykurdrykkja er óþörf á skólatíma og því ekki heimil nema á sérstökum
  tyllidögum skólans.
 • Nemendur á unglingastigi mega nota tyggjó innan þess ramma sem skólareglur heimila.
 • Við komum úthvíld í skólann.
 • Við komum „fyrir eigin vélarafli“ skólann eins og kostur er og notum alltaf viðeigandi öryggisbúnað á farkostum okkar.
 • Við notum farkosti okkar eins og reiðhjól og vespur aðeins á leið til og frá skóla og í verkefnum undir stjórn kennara t.d hjólaferðir. Í verkefnum með kennara eiga nemendur alltaf að nota viðeigandi öryggisbúnað. Notkun vespa, reiðhjóla, hlaupahjóla og hjólabretta er óheimil á skólalóðinni m.a. í útivist og frímínútum.
 • Við flokkum sorp, notum efni og hráefni í lágmarki og endurnýtum eins og kostur er.

Reglur sem varða notkun síma og snjalltækja

Nemendur á unglingastigi mega nemendur hafa síma, spjaldtölvur og önnur snjalltæki meðferðis í skólann sem námstæki en notkun þeirra er háð leyfi kennara hverju sinni. Á yngsta- og miðstigi mega nemendur hafa með sér símtæki en slökkt skal vera á þeim á skólatíma og geymd í skólatösku. Nemandi ber alfarið ábyrgð á öllum tækjum sem hann tekur með sér í skólann.

Eftirfarandi reglur gilda um notkun snjalltækja í Sjálandsskóla:

Notkun snjalltækja á skólatíma í Sjálandsskóla

 • Snjalltæki sem nemendur koma með í skólann eru alfarið á ábyrgð nemenda
 • Ef nemendur koma með snjalltæki í skólann eiga þau að vera hljóðlaus og geymd í töskum á skólatíma
 • Nemendur mega aðeins nota snjalltæki á skólatíma með leyfi starfsfólks
 • Notkun snjalltækja/síma hjá nemendum í 1.-7.b. er ekki heimil í skólahúsnæðinu fyrir skólabyrjun eða í frímínútum
 • Nemendur í unglingadeild hafa leyfi til nota snjalltæki áður skóladagurinn hefst og í frímínútum en aðeins á svæði unglingadeildar
 • Mynd- og hljóðupptaka er með öllu óheimil á skólatíma nema með leyfi starfsmanna í námslegum tilgangi
 • Mælst er til þess að nemendur komi ekki með snjallúr í skólann

Velji nemandi að fylgja ekki ofanskráðum reglum skal brugðist við með eftirfarandi hætti

 • Nemandi er beðinn að setja tækið í tösku
 • Ef nemandi fylgir ekki þeim fyrirmælum er hann beðinn um að afhenda starfsmanni tæki og fær það afhent við lok skóladagsins
 • Neiti nemandi að fara að fyrirmælum starfsmanna hefur hann valið að vera ekki í tíma og fær fjarvist
 • Umsjónarkennari hefur samráð fyrir foreldra
 • Ef nemandi velur ítrekað að fylgja ekki eftir reglum skólans varðandi snjalltæki er málinu vísað til skólastjórnenda

Reglur um ferðir á vegum Sjálandsskóla og Klakans:

Nemendur fylgja almennum skólareglum í ferðum á vegum skólans eða félagsmiðstöðvarinnar Klakans. Fylgi nemendur ekki fyrirmælum og almennum reglum verða forráðamenn beðnir um að sækja nemandann eða hann sendur heim á þeirra kostnað. Um alvarleg brot gilda skólareglur Sjálandsskóla.

Frávik frá skólareglum

Mikilvægt er að starfsmenn, foreldrar og nemendur séu meðvitaðir um æskilega hegðun og viðbrögð við hegðunarfrávikum. Nemendur fá fræðslu og þjálfun varðandi greinarmun á æskilegri hegðun og óæskilegri. Í Sjálandsskóla er leitast við að hafa skýr og fyrirsjáanleg viðbrögð við hegðunarfrávikum. Í dagsins önn er ekki óeðlilegt að nemendur gleymi sér og þurfi leiðsögn um hegðun. Þá eru nemendur mis færir í að greina félagslegar aðstæður og hafa misgóða stjórn á eigin hegðun. Því tekur meðferð hegðunarfrávika ávallt mið af einstaklingnum sem á í hlut og aðstæðum hans.

Flestum málum lýkur yfirleitt með leiðsögn og ábendingu, það á við um öll mál sem flokkast undir fyrsta stigs hegðunarfrávik. Ef mál eru þannig sprottin eða nemandinn hefur ekki að svo stöddu forsendur til að taka leiðsögn setur starfsmaður þau í skýrt ferli. Lögð er áhersla á að minniháttar hegðunarfrávik fyrnist eins fljótt og nemandinn hafi sýnt umbætur en barn sem ekki sýnir öðrum og umhverfi sínu virðingu og vinsemd sé stutt með markvissum aðgerðum skóla og heimilis. Hegðunarfrávikum nemenda Sjálandsskóla er skipt upp í þrjú stig eftir alvarleika.

1. stigs hegðunarfrávik

 Hegðunarfrávik þar sem ætla má að tilfinningaviðbrögð, sinnu- og skeytingarleysi ráði för og því ástæða til að leiðbeina barni um hegðun. Dæmi:

 • Ögra, þrasa, lenda í rifrildi, trufla athafnir og vinnu annarra
 • Hrindingar og ögrandi snertingar
 • Ganga um eigur skólans og annarra af virðingarleysi
 • Særandi eða niðrandi orðbragð
 • Fara án leyfis út af skólalóðinni
 • Nota tölvur, síma eða önnur tæki með óleyfilegum hætti

Viðbrögð og eftirfylgni 1. stigs hegðunarfrávika

Nemandi er tekinn til hliðar og rætt við hann. Grennslast fyrir um málsatvik ef mál eru þannig vaxin. Nemanda er leiðbeint og lögð áhersla á að hann skilji í hverju frávikið fólst og viti hvernig hann á að bregðast við næst og honum gefið tækifæri á að leiðrétta mistök sín. Lögð er áhersla á að kennari/starfsmaður hrósi nemanda fyrir samvinnu. Ef nemandi tekur strax leiðsögn telst málinu lokið. Ef um ásetning er að ræða, nemandi tekur ekki leiðsögn eða ef nemandi endurtekur frávikið á næstu dögum telst atvikið 2. stigs hegðunarfrávik og því skráð hjá kennara.

2. stigs hegðunarfrávik

 Hegðunarfrávik þar sem ætla má að illgirni, mikil vanstilling og/eða vanvirðing ráði athöfnum og/eða orðum nemenda.
Dæmi:

 • Endurtekin stríðni, vanvirðing og/eða hrekkir
 • Stympingar og áflog
 • Óhlýðni, neitar að fylgja fyrirmælum
 • Skemmdir eða hnupl á eigum annarra eða skólans

Viðbrögð og eftirfylgni 2. stigs hegðunarfrávika

Nemandi er tekinn til hliðar og rætt við hann. Grennslast fyrir um málsatvik ef mál eru þannig vaxin. Nemanda er leiðbeint og lögð áhersla á að hann skilji í hverju frávikið fólst og viti hvernig hann á að bregðast við næst. Umsjónarkennari/kennari eða nemandi sjálfur (í viðurvist kennara) hefur samband við foreldra/forráðamenn. Kennari skráir atvikið. Daginn eftir gera foreldrar grein fyrir því hvaða niðurstöðu samtal þeirra og nemenda skilaði með símtali eða tölvupósti. Ef nemandi sýnir ekki breytingu á hegðun sinni (enda þá orðin alvarleg truflun á skólastarfi) þá kallar umsjónarkennari foreldra á fund ásamt barninu þar sem að þetta telst þá 3. stigs hegðunarfrávik.

3. stigs hegðunarfrávik

Hér er um að ræða alvarleg hegðunarfrávik sem stofna öryggi nemenda og/eða starfsfólks í hættu og leiðir til alvarlegrar truflunar á skólastarfi. Ólöglegt athæfi er öllu jöfnu tilkynnt lögreglu eða öðrum þar til bærum yfirvöldum.
Dæmi:

 • Ofbeldi/líkamsárás
 • Verulega ógnandi hegðun
 • Alvarleg skemmdarverk eða íkveikja
 • Meðferð vopna eða fíkniefna/vímuefna

Viðbrögð og eftirfylgni 3. stigs hegðunarfrávika

Nemandi tekinn úr aðstæðum undir eftirliti starfsmanns/kennara og haft samband við foreldra eins fljótt og auðið er. Mælst er til þess að umsjónarkennari hringi í foreldra á yngri stigum en viðkomandi starfsmaður/kennari í eldri bekkjum. Foreldrar/forráðamenn eru boðaðir til fundar með nemanda, skólastjórnanda og umsjónarkennara/kennara. Nemandi tekur ekki þátt í almennu skólastarfi fyrr en fundað hefur verið og málið til lykta leitt. Sé um alvarlegt atvik að ræða er hægt að vísa nemenda úr skóla í allt að viku tíma á meðan unnið er með úrlausn málins og skólagöngu nemandans. Oft eru dýpri ástæður að baki óæskilegrar hegðunar en foreldrar og/eða starfsfólk skóla grunar. Vönduð vinnubrögð
leiða til farsællar lausnar. Þriðja stigs hegðunarfrávik getur leitt til brottvísunar úr skóla, sbr. 15. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

Úrræði við hegðunarfrávikum

Úrræði sem skólinn hefur ef nemandi þiggur ekki að vinna að úrbótum eða gengur illa að samsama sig við skólareglurnar.

 • Leiðsögn frá kennara og tíð upplýsingagjöf til foreldra
 • Gerður samningur með skilyrðum
 • Reglulegir stöðufundir með foreldrum og kennara
 • Fundur foreldra og nemanda með þeim kennurum sem koma helst að viðkomandi nemanda og stjórnanda
 • Handleiðsla námsráðgjafa
 • Sérstakt eftirlit og handleiðsla stuðningsfulltrúa/þroskaþjálfa
 • Nemandinn hafður í sérstökum námsaðstæðum jafnvel utan heimasvæðis undir eftirliti starfsmanns.
 • Foreldrar fylgja nemanda í skóla
 • Fjallað um málefni nemandans á nemendaverndarráðssfundi þar sem leitað er mögulegra úrræða utan veggja skólans (sálfræðigreining, annað skólaúrræði, úrræði frá fjölskyldusviði Garðabæjar, heilsugæslu eða annarra heilbrigðisstofnana)
 • Nemanda vísað úr skóla

Forvarnastefna

Megin markmið forvarnarstefnu Sjálandsskóla er að skapa aðstæður sem eru líklegar til að hafa jákvæð áhrif og efla sjálfstraust og sjálfsmat barna og unglinga. Markmið stefnunnar er að:

 • Styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda svo þeir geti tekið afstöðu gegn vímuefnum og staðið á móti neikvæðum félagslegum þrýstingi
 • Vinna markvisst gegn einelti og annarri félagslegri útskúfun
 • Efla samstarf við forráðamenn nemenda
 • Fræða nemendur um skaðsemi vímuefna og mikilvægi hollra lífshátta
 • Grunnskólinn sé vímuefnalaus, nemendur neyti ekki tóbaks (þ.m.t. rafretta), áfengis eða annarra vímuefna
 • Eiga öflugt samstarf við foreldra, fræðsluskrifstofu, félagsmiðstöðvar, heilsugæslu, félagsþjónustu og lögreglu um samræmdar aðgerðir gegn neyslu vímuefna
 • Öflugt félagsstarf sé starfrækt innan skólans
 • Koma til móts við misjafnar þarfir nemenda skólans, hvað varðar hegðunar- og námsörðugleika
 • Eiga samstarf við íþróttafélög bæjarins
 • Efla kennslu í lífsleikni
 • Eiga samstarf við lögregluna í bæjarfélaginu

Jafnréttisstefna

Sjálandsskóli setur sér eftirfarandi jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008 og samkvæmt Jafnréttisstefnu Garðabæjar (15. desember 2011) en þar er markmiðið ,,að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins“. Sjálandsskóli leggur áherslu á góða líðan allra sem í skólanum
starfa (starfsmanna og nemenda) og góðan starfsanda. Allir starfsmenn og nemendur skólans eiga rétt á að því að komið sé fram við þá af virðingu.
Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að fyllsta jafnréttis kynjanna sé gætt í skólanum. Lögð er áhersla á að nemendur og starfsfólk fái notið sín á eigin forsendum án tillits til kynferðis og að hver einstaklingur sé metinn að verðleikum. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi innan skólans. Markvisst skal unnið að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans en hægt er að kynna sér betur hugtakið á www.jafnretti.is. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Kynbundið ofbeldi eða áreitni er ekki liðin. Með jafnréttisstefnu skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum. Jafnréttisstefnu Sjálandsskóla er fylgt fram með aðgerðaráætlun.

Starfsmenn

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum en leitast skal við að halda hlutfalli kynjanna eins jöfnu og frekast er unnt. Gæta skal jafnréttissjónarmiða til jafns á við önnur sjónarmið við ráðningar í skólanum.

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu viðmið við ákvörðun launa vera skýr og öllum ljós. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Vinna skal gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns í skólanum.

Konur og karlar skulu hafa jafna möguleika á starfsframa innan skólans. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við skiptingu verkefna og deilingu ábyrgðar meðal starfsmanna. Starfsmenn skulu eiga jafnan aðgang að launuðum aukastörfum og því sem gæti talist til hlunninda, óháð kyni.

Aðgengi til vinnu og öll vinnuaðstaða starfsmanna skal vera á jafnréttisgrunni. Bæði konum og körlum skal gert kleift og þess vænst að þeir samræmi sem best starfsskyldur sínar og tímabundna fjölskylduábyrgð s.s. vegna veikinda nákominna og vegna þungunar og barnsburðar.

Starfsfólki skulu tryggðir möguleikar til endurmenntunar og starfsþróunar, óháð kyni. Skólinn haldi námskeið fyrir kennara þar sem fjallað er um jafnrétti kynjanna og sérstaklega um jafnréttismiðaða kennslu.

Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum skólans skal ávallt gæta þess að hlutföll kynja séu sem jöfnust.

Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynferðislegri
né kynbundnu áreiti. Telji starfsmaður að jafnrétti sé brotið í Sjálandsskóla skal hann leita til trúnaðarmanns eða skólastjóra
sem í sameiningu finna hverju máli farveg.

Nemendur

Jafnréttisstefna Garðabæjar (15. desember 2011) kveður á um að ,,skólayfirvöld og forstöðumenn annarra uppeldisstofnana í Garðabæ, skulu … veita börnum og unglingum hvatningu til að nýta hæfileika sína til fulls, bera virðingu hvert fyrir öðru og efla jákvæð samskipti kynjanna“. Þannig er lögð áhersla á í starfi Sjálandsskóla að stuðla að vellíðan allra nemenda og skapa jákvæðar og hvetjandi aðstæður til náms og starfa. Starfsmenn skólans eru fyrirmyndir sem eiga með framgöngu sinni að stuðla að jafnrétti í orði og verki. Foreldrar eru einnig fyrirmynd og því eru foreldrar af báðum kynjum hvattir til þess að taka þátt í skólastarfinu. Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á að:

 • Nemendur á öllum aldursstigum hljóti fræðslu um jafnréttismál
 • Búa bæði kynin undir ábyrgð og skyldur fjölskyldu- og atvinnulífs
 • Námsframboð og viðfangsefni sé miðað að áhugasviðum beggja kynja
 • Kennsluhættir og starfsaðferðir séu fjölbreyttir og sveigjanlegir
 • Allir nemendur geta verið virkir og skapandi í starfi óháð kyni
 • Nemendur fái þjálfun í að rýna umhverfi sitt og félagslega aðstæður svo að allir fái jöfn tækifæri til að sýna sjálfstæði, ábyrgð og virkni í námi, starfi og leik
 • Í náms- og starfsfræðslu sé lögð áhersla á að kynna báðum kynjum öll störf á jafnréttisgrundvelli
 • Í námi og starfi á vegum skólans (þar með talið íþróttaviðburðum) séu kynjahlutföll sem jöfnust
 • Skipuleggja félags- og tómstundastarf með þarfir og hagsmuni beggja kynja í huga og jafnréttis sé gætt í hvívetna
 • Að styrkja jákvæða kynímynd stúlkna og pilta og vinna gegn skaðlegum áhrifum klámvæðingar, kynbundinnar- og kynferðislegrar áreitni

Telji nemandi að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal hann leita til skólastjóra og/eða námsráðgjafa sem finna málinu farveg.

Heilsustefna

Sjálandsskóli er heilsueflandi skóli. Markmið heilsustefnu Sjálandsskóla er að efla forvarnir, heilsu og efla hreyfingu. Ávinningur getur verið meiri vellíðan, aukin námsárangur, starfsánægja, minni starfsmannavelta og bætt heilsa. Heilstæð stefna um heilsueflingu stendur fyrir sameiginlega heildarsýn allra nemenda og starfsmanna. Markvisst hefur verið unnið í að þróa úrræði á sviði forvarna og heilsueflingar í skólanum. Reynt er að greina þá þætti í skólaumhverfinu sem haft geta áhrif á líðan, öryggi og heilsu fólksins. Heilsuefling skólans miðar að því að gera skólasamfélaginu kleift að auka hreysti og efla vitund og vilja til að viðhalda heilbrigði. Sjálandsskóli vill kappkosta að vera ávallt til fyrirmyndar í heilsu og forvarnarmálum.

Næring og hollusta

Í Sjálandsskóla er unnið samkvæmt stefnu Lýðheilsustöðvar varðandi næringu og hollustu. Nemendum og starfsmönnum gefst tækifæri til að kaupa heitan hádegismat frá fyrirtækinu Skólamatur. Matseðlar eiga að uppfylla kröfur um næringarríka og holla fæðu.

Hreyfing

Nemendur og starfsmenn sem hafa tök á eru hvattir til að koma gangandi eða hjólandi til skóla. Enn fremur eru nemendur og starfsfólk hvatt til að taka þátt í sameiginlegum heilsueflandi atburðum s.s. Lífshlaupinu, Hjólað í vinnuna og Göngum í skólann. Allir nemendur fá íþrótta- og sundkennslu samkvæmt viðmiðum námskrár. Þá fá allir nemendur í 1.-7.bekk útikennsludag einu sinni í viku. Nemendur og starfsmenn skólans fara saman í hjólaferðir, gönguferðir, fjallagöngur og skíðaferðir ýmist öll saman eða skipta upp eftir árgöngum. Elstu árgangar skólans læra á kajak og fara reglulega út að sigla. Starfsmannahópur skólans er duglegur að huga að heilsunni og hreyfa sig. Hópar hafa tekið sig
saman og ýmist stundað jóga, sippað, hlaupið saman, farið í gönguferðir og fjallgöngur.

Vinnuumhverfi

Sjálandsskóli leggur áherslu á að vinnuaðstaða nemenda og starfsmanna sé ávallt góð. Sjálandsskóli leggur áherslu á að nemendur tileinki sér jákvætt viðhorf til heilbrigðs lífernis og öðlist sterka sjálfsmynd og sjálfsvirðingu. Lögð er áhersla á að styrkja félagslífs sem eflir félagsþroska nemenda. Forvarnir taka til nemenda, foreldra og allra sem að málefnum þeirra og uppeldi koma. Forvarnirnar miða að því að hlúð sé að sérhverjum einstaklingi skólans allan námsferilinn. Skólinn kýs að líta á og fjalla um forvarnir í víðu samhengi, leið til að byggja upp og sinna sérhverjum einstaklingi, á hverjum degi í starfi og leik á vegum skólans.

Heilsufarskannanir

Hjúkrunarfræðingur starfar við skólann og hefur viðveru fjórum sinnum í viku frá kl. 9-12. Hann vinnur samkvæmt leiðbeiningum um skólaheilsugæslu. Sjálandsskóli stendur reglulega fyrir heilsufarskönnunum sem starfsmönnum gefst kostur á að nýta sér. Þar er boðið upp á mælingar á blóðþrýstingi, blóðfitu, BMI, fituhlutfalli af líkamsþyngd, ummáli og blóðsykri. Garðabær lætur sérfræðinga hjá Vinnuvernd ehf. heilsufyrirtæki sjá um þessar mælingar. Niðurstöður mælinganna og ráðleggingar vegna þeirra fá starfsmenn strax að lokinni rannsókn.

Innflúensubólusetning

Sjálandsskóli býður starfsmönnum sínum upp á bólusetningu gegn innflúensu einu sinni á ári. Bólusetningin er starfsmönnum að kostnaðarlausu og fer fram á vinnustaðnum á vinnutíma.

Skyndihjálp

Í Sjálandsskóla er öllum starfsmönnum skylt að sækja skyndihjálparnámskeið á 2-3 ára fresti. Námskeiðin eru haldin í skólanum og eru starfsmönnum að kostnaðarlausu. Nemendur fá kynningu á skyndihjálp reglulega yfir skólagönguna. Nemendur í 8.bekk fá markvissa kennslu í skyndihjálp.

Trúnaðarlæknir

Hjá Garðabæ starfar trúnaðarlæknir starfsmanna. Hlutverk hans er m.a. að veita forráðamönnum fyrirtækja og stofnana ráðgjöf varðandi læknisfræðileg málefni og vegna fjarvista starfsmanna í veikinda-og slysatilfellum, meðal annars varðandi vottorð. Trúnaðarlæknir vinnur að greiningu og úrbótum á þáttum sem geta spillt heilsu starfsmanna í starfi í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur. Ennfremur að veita starfsmönnum, sem þess óska, ráðgjöf varðandi eigin heilsufarsvandamál og aðstoða við frekari greiningu og meðferð innan heilbrigðiskerfisins.

Andleg heilsuefling

Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á andleg heilsueflingu sem felur í sér allt það sem eflir og hlúir að geðheilsu. Andleg heilsuefling eykur líka samkennd og bætir líðan. Stefnt er að því að minnka áhættuþætti streitu með fræðslu og ráðgjöf.

Umhverfisstefna

Sjálandsskóli er skóli á grænni grein og tók skólinn við Grænfánanum og viðurkenningu Landverndar 2012 og síðast var hann endurnýjaður í febrúar 2017. Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er ekki gert ráð fyrir umhverfismennt sem stökum námsþætti heldur eiga skólar að útfæra umhverfismennt í skólanámskrá. Sjálandsskóli leggur áherslu á að gera nemendur sína meðvitaða um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir umhverfinu. Einnig er lögð áhersla á að upplýsa nemendur og starfsfólk um að þeir geti lagt sitt af mörkum við að vernda umhverfið og náttúruna. Nemendur og starfsfólk vinna saman að því að halda skólalóð snyrtilegri. Í Sjálandsskóla einsetjum við okkur að:

 • Bera virðingu fyrir öllu umhverfinu
 • Nemendur geri sér grein fyrir mikilvægi þess að endurnýta og endurvinna ýmislegt sem annars færi í ruslið
 • Nýta vel pappír og önnur efni
 • Draga úr notkun á einnota vörum og vörum í einnota umbúðum
 • Flokka sorp t.d. pappír, fernur, rafhlöður, dósir, brotajárn og gler
 • Ganga vel um bæði úti og inni
 • Nota rafræn boðskipti, sé þess kostur, frekar en pappír
 • Spara rafmagn, vatn og sápuefni
 • Varast mengun og nota umhverfisvænar vörur t.d. hreinlætisvörur

Gegn einelti í Garðabæ

Viðbrögð gegn einelti

Sjálandsskóli tekur þátt í verkefninu ,,Gegn einelti í Garðabæ” sem er samstarfsverkefni grunnskóla bæjarins. Markmiðið er að koma á samræmdum vinnubrögðum til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, bæta líðan og öryggi nemenda og skólabraginn í heild. Unnar hafa verið áætlanir og skilgreiningar um hvernig starfsmenn eiga að bregðast við einelti og vinna með það. Allir starfsmenn skólans taka þátt í verkefninu.

Skilgreining

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einum, sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis. Einstök átök, ágreiningur og stríðni milli jafningja telst ekki til eineltis. Einelti birtist í mörgum myndum, það getur verið:

 • Líkamlegt: t.d. barsmíðar, spörk eða hrindingar
 • Munnlegt: t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni
 • Skriflegt: t.d. tölvuskeyti, sms-skilaboð, krot og bréfasendingar
 • Óbeint: t.d. baktal, útskúfun, eða útilokun úr félagahópi
 • Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar
 • Andlegt: þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu

Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Sá sem er lagður í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis.

Verði foreldrar eða starfsmenn varir við einelti eða önnur atriði sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið. Allir sem hafa vitneskju um hvers konar líkamlegt eða andlegt ofbeldi meðal nemenda ber að tilkynna það til umsjónarkennara. Einelti má aldrei láta afskiptalaust. Mikilvægt er að nemendur, forráðamenn eða hver sá sem hefur grun um að einhver sé lagður í einelti segi strax frá.
Foreldrar, kennarar og aðrir starfsmenn þurfa að hvetja nemendur til segja frá ef einhver er lagður í einelti. Að segja frá er ekki að „klaga“ eða „kjafta frá“.

Fyrirbyggjandi starf gegn einelti

Til þess að fyrirbyggja einelti þarf samstillt átak og ábyrgð nemenda, forráðamanna, og starfsmanna skólans. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla, áróður og umræður um eineltismál og afleiðingar þess eru nauðsynlegar. Allir þurfa að deila ábyrgð og láta sig líðan og hamingju annarra varða. Helstu forvarnir í Sjálandsskóla gegn einelti eru:

 • Skólinn setur sér ákveðin viðmið í samskiptum sem miða að því að allir starfsmenn skólans, nemendur og forráðamenn geti unnið eftir sömu gildum sem stuðla að jákvæðum samskiptum og góðum skólabrag
 • Nemendur þjálfist í að vinna í hópum og sýni tillitssemi, virðingu, ábyrgð, sveigjanleika og umburðarlyndi. Efli sjálfstraust og samkennd sem stuðlar markvisst að frekari þátttöku í lýðræðislegu samstarfi
 • Umsjónarkennari vinnur með nemendum þar sem bekkurinn setur bekkjarreglur. Haldnir eru reglulegir bekkjarfundir þar sem líðan, samskipti og hegðun er rædd
 • Umsjónarkennari fer reglulega yfir eineltisáætlun skólans sem og skólareglur/samskiptareglur með sínum bekk
 • Fagkennarar og aðrir starfmenn noti þau tækifæri sem gefast til að ræða og þjálfa mikilvægi góðra samskipta
 • Stuðla markvisst að samvinnu heimilis og skóla
 • Á hverju ári er eineltisáætlun skólans kynnt fyrir nemendum og forráðamönnum þeirra á haustfundum. Umsjónarkennari og bekkjarfulltrúar hvetja til þess að forráðamenn hafi í huga viðmið varðandi afmælisboð og aðrar samkomur
 • Fræðsla um einelti fyrir forráðamenn s.s. í formi fyrirlestra og upplýsinga þar sem eineltisáætlun skólans er vel kynnt og sýnileg foreldrum t.d. á heimasíðu skólans
 • Eineltisáætlun skólans er kynnt í upphafi hvers skólaárs á starfsmannafundi þar sem hún er endurskoðuð og þau viðmið sem skólinn setur sér í samskiptum eru samræmd. Sú samræming er liður í forvörnum gegn einelti og öðru ofbeldi. Mikilvægt er að bjóða starfmönnum reglulega
  upp á fræðslu um málaflokkinn
 • Virk gæsla í frímínútum, skólahúsi og vettvangsferðum á vegum skólans
 • Niðurstöður úr Skólapúlsinum nýttar í vinnu gegn einelti.
 • Skólinn nýtti hinn árlega Dag gegn einelti til þess að vekja athygli á mikilvægi góðra samskipta með það að markmiði að vinna gegn einelti
 • Eineltisteymi skólans hittist að hausti og gerir áætlun um forvarnir fyrir skólaárið og fundar reglulega
 • Eineltisteymi skólans er virkur þátttakandi í teymisvinnu ,,Gegn einelti í Garðabæ“ sem skipað er fulltrúum Álftanesskóla, Flataskóla, Garðaskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla

Hugsanlegar vísbendingar um einelti:

Tilfinningalegar

 • Breytingar á skapi
 • Tíður grátur, viðkvæmni
 • Breyttar matarvenjur, lystarleysi - ofát
 • Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði
 • Depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir

Líkamlegar

 • Líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur
 • Kvíðaeinkenni t.d. nagar neglur, stamar, kækir ýmis konar
 • Líkamlegir áverkar s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýrt
 • Rifin föt og/eða skemmdar eigur

Félagslegar

 • Virðist einangrað og einmana
 • Fer ekki í og fær ekki heimsóknir
 • Fáir eða engir vinir og barnið vill ekki taka þátt í félagsstarfi

Hegðun

 • Óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst
 • Neitar að segja frá hvað amar að
 • Árásargirni og erfið hegðun

Í skóla

 • Hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið
 • Leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega
 • Mætir iðulega of seint eða byrjar að skrópa
 • Forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
 • Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar
 • Einangrar sig frá skólafélögum
 • Forðast að fara í frímínútur

Á heimili

 • Barnið neitar að fara í skólann
 • Dregur sig í hlé
 • Biður um auka vasapening
 • Týnir peningum og/eða öðrum eigum
 • Neitar að leika sér úti eftir skóla
 • Byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti
 • Reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélagana eða aðra foreldra
 • Verður niðurdregið eða órólegt eftir frí

Meðferð eineltismála í Sjálandsskóla

Ef grunur leikur á eða staðfesting liggur fyrir að einelti eigi sér stað er það skýr stefna grunnskólanna í Garðabæ að tekið sé á málinu strax.
Grun um einelti ber að tilkynna með formlegum hætti á eyðublaði sem finna má á heimasíðum grunnskóla Garðabæjar. Nauðsynlegt er að vitneskja um einelti berist til umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnenda skólans.

Umsjónarkennari og/eða sá starfsmaður sem fær vitneskju um einelti skal taka á málinu strax. Umsjónarkennari byrjar á að hafa samband við aðila úr eineltisteymi. Þeir hafa samráð um viðbrögð og aðgerðir.

Eineltismál eru mismunandi og fer vinna hvers máls eftir eðli þess. Meta þarf hvort um aðstæður sé að ræða þar sem hætta er á ferðum. Alltaf skal rannsaka málið.

Grunur um einelti

Viðbrögð:

 • Sá sem tekur við skriflegri tilkynningu kemur henni til eineltisteymis sem ákveður verkaskiptingu
 • Skráning hefst
 • Ábyrgðaraðili hefur samband við forráðamenn barns sem grunur leikur á að verði fyrir einelti, aflar frekari upplýsinga og greinir frá næstu skrefum. Áætlun er unnin í samráði við forráðamenn þolanda
 • Upplýsa starfsfólk skólans sem kemur að nemandanum
 • Afla upplýsinga og auka eftirlit í kennslustundum og frímínútum
 • Kanna líðan og bekkjaranda
 • Ræða við valda nemendur
 • Ef vinnsla málsins leiðir í ljós að ekki er um einelti að ræða er málinu lokið formlega með undirskrift foreldra og gerðar viðeigandi ráðstafanir eftir eðli málsins t.d. ef um samskiptavanda er að ræða

Einelti á sér sannanlega stað

Ef ljóst er að einelti hefur átt sér stað þarf að skipuleggja einstaklingsbundin viðtöl við þolanda, geranda og forráðamenn (5. gr. Reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum) Í öllum tilvikum er geranda gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið og að skólinn muni með öllum ráðum leitast við að eineltinu ljúki.

Vinnulag í eineltismálum

 • Samstarf við forráðamenn (5. og 7. gr.)
 • Almennt eru umsjónarkennari eða staðgengill hans (7. gr.) og aðili úr eineltisteymi skólans saman í viðtölum við bæði þolanda og geranda
 • Skólinn veitir viðeigandi stuðning við þolanda og geranda þar til máli lýkur
 • Gerð er áætlun um eftirfylgd
 • Þar sem það á við skal halda reglulega bekkjarfundi til að styrkja samskipti innan hópsins
 • Upplýsa skólasamfélagið
 • Ef um alvarlegt ofbeldi er að ræða er það tilkynnt til nemendaverndarráðs, Fjölskyldusviðs Garðabæjar, heilsugæslu eða lögreglu. Skóli gæti þurft að vísa geranda tímabundið úr skóla (12. og 15. gr.)
 • Eineltismálum er lokið í samráði við forráðamenn með skriflegum hætti

Einelti heldur áfram

Ef aðgerðir bera ekki árangur þarf að fylgja málinu frekar eftir:

 • Frekari samvinnu og samráð við forráðamenn þolanda og geranda
 • Meira eftirlit, viðurlög
 • Vísa máli til nemendaverndarráðs sem kemur því í viðeigandi farveg
 • Brjóta upp gerendahóp einstaklingsmiðaða atferlismótun
 • Ráðgjöf hjá sálfræðingi/öðrum sérfræðingum
 • Tilkynning til Fjölskyldusviðs Garðabæjar
 • Tilkynning til lögreglu
 • Náist ekki sátt innan sveitarfélagsins má vísa málinu til fagráðs sem starfar á ábyrgð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins (7. gr.)

Öll eineltismál, hvort sem um grun eða staðfestingu er að ræða, eru skráð á sérstakt eyðublað. Skráningin er liður í að hafa yfirsýn yfir eðli og umfang eineltismála í skólanum. Mikilvægt er að ljúka vinnu allra mála í samráði við forráðamenn með skriflegum hætti.

Viðbrögð við áföllum

Áfallaráð

Í áfallaráði sitja eftirtaldir aðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, umsjónarkennari, skólaritari og námsráðgjafi. Auk þeirra geta skólasálfræðingur, skólahjúkrunarfræðingur og prestur (eða annar fulltrúi sem tengist lífssýn fjölskyldunnar) vera innan handar. Skólastjóri eða staðgengill hans kallar saman áfallaráð og stýrir vinnu þess.

Áfallaráð gerir skriflega vinnuáætlun svo bregðast megi við áföllum sem orðið hafa s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir þeir atburðir sem líklegt er að kalli fram sorgarviðbrögð og/eða áfallastreitu. Vinnuáætlunin verður að vera skýr og afdráttarlaus vinnuáætlun um hvert hlutverk þeirra er sem í ráðinu eru, hvernig og í hvaða röð eigi að bregðast við hverju einstöku tilviki.

Áfallaáætlun

Mikilvægt er að huga að óskum fjölskyldna þeirra sem í hlut eiga hverju sinni. Við skipulag áfallahjálpar og viðbragða, þarf að hafa í huga alla þá einstaklinga sem koma að starfi skólans s.s. nemendur, aðstandendur, stjórnendur og annað starfsfólk skólans. Áfallaráð skal sjá um að allt starfsfólk skólans fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum. Einnig þarf áfallaráð að sjá til þess að kennarar og annað starfsfólk sem að áfallahjálp vinnur fái stuðning og aðstoð. Með áföllum er meðal annars átt við:

 • Alvarleg slys (nemanda, aðstandenda eða starfsfólks skólans)
 • Alvarleg veikindi (nemanda, aðstandenda eða starfsfólks skóla)
 • Langvinnir sjúkdómar (nemanda, aðstandenda eða starfsfólks)
 • Andlát (nemanda, aðstandenda, starfsfólks eða maka starfsfólks)

Áfallaráð skal funda strax og skólastarf hefst að hausti og kanna hvort breytingar hafi orðið á aðstæðum nemenda og/eða starfsfólks vegna dauðsfalla, alvarlegra veikinda og/eða slysa eða annarra áfalla. Áfallaráð skal taka ákvörðun um viðbrögð og/eða aðgerðir. Ritari heldur utan um slíkar aðgerðir.

Nemendur

Langvinnir sjúkdómar/alvarleg veikindi nemenda:

 • Viðkomandi starfsfólki og skólafélögum skal gerð grein fyrir aðstæðum
 • Ákvörðun áfallaráðs hvernig taka skuli á hverju tilfelli eftir aldri nemenda og aðstæðum hverju sinni
 • Aðilar úr áfallaráði ásamt umsjónakennara ræða við og vinna með nemendum sem málinu tengjast

Alvarleg slys á nemanda í skólanum:

 • Ef nemandi verður fyrir alvarlegu slysi í skólanum skal strax hafa samband við lögreglu og forráðamenn nemandans
 • Áfallaráð fundar og ákveður hvernig bregðast skuli við
 • Aðilar úr áfallaráði ræða við nemendur sem tengjast málinu
 • Nemendum og starfsfólki er gerð grein fyrir aðstæðum
 • Skólastjóri bera ábyrgð á að enginn fari heim úr skólanum með rangar eða misvísandi upplýsingar um atburðinn
 • Skólastjóri er tengiliður við fjölmiðla ef þeir sýna atburðinum áhuga. Allir starfsmenn skulu vísa á þá ef til þeirra er leitað eftir upplýsingum
 • Mikilvægt er að upplýsingastreymi til skólans sé gott og rétt. Umsjónarkennari kemur upplýsingum til skólafélaga

Slys sem verða utan skólatíma:

 • Umsjónarkennari fær staðfestingu á atburði
 • Áfallaráð fundar svo fljótt sem auðið er og tekur ákvörðun um hvernig bregðast skuli við
 • Öðru starfsfólki sem að nemandanum og námshópnum koma verði tilkynnt um atburðinn eins fljótt og auðið er
 • Mikilvægt er að upplýsingastreymi til skólans sé gott og rétt. Umsjónarkennari kemur upplýsingum til skólafélaga

Þegar nemandi kemur aftur í skólann:

 • Umsjónarkennari og/eða aðili úr áfallaráði ræða við nemanda og aðstandendur áður enn hann kemur í skólann og hlusta eftir því hvernig hann vill hafa aðstæður
 • Undirbúa þarf skólafélaga undir komu nemandans aftur í skólann
 • Umsjónakennari fylgist sérlega vel með nemandanum næstu daga og vikur og lætur hann vita að hann hafi alltaf aðgang að aðstoð

Andlát nemanda:

 • Skólastjóri sér um að afla staðfestra upplýsinga um atburðinn og hafa samband við heimilið
 • Áfallaráð kallað saman á stuttan fund þar sem ráðið skiptir með sér verkum og ákveður fyrstu viðbrögð skólans
 • Mjög áríðandi er að allar aðgerðir skólans undir viðkomandi forráðamenn til samþykkis og hafa þá með í ráðum frá upphafi
 • Gæta skal þess að náin skyldmenni hins látna sem eru við nám eða störf við skólann fái fréttirnar sérstaklega, en ekki yfir hóp
 • Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um andlátið
 • Skólaritari eða aðrir í áfallaráði skólans sér um að tilkynna þeim sem fjarri eru
 • Skólastjóri eða annar úr áfallaráði ásamt sóknarpresti og umsjónarkennara tilkynna andlátið strax í viðkomandi umsjónarhópi
 • Hafa ber í huga að hlúa þarf að nemendum í bekknum eins og hægt er með aðstoð hjúkrunarfræðings, námsráðgjafa og/eða sáfræðings
 • Prestur (eða annar fulltrúi sem tengist lífssýn fjölskyldunnar) talar við börnin
 • Starfsmenn í áfallaráði hringja í forráðamenn áður en talað er við nemendur í umsjónarhóp.
 • Umsjónarkennarar ásamt stjórnendum tilkynna andlátið í sínum umjónarhópi. Mikilvægt er að allir fái fréttirnar samtímis
 • Umsjónarmaður dregur fána í hálfa stöng á jarðarfarardegi. Mikilvægt er að senda skriflega tilkynningu til forráðamanna áður en nemendur fara heim til að þeir geti brugðist við viðbrögðum nemenda þegar heim er komið

Aðstandendur nemenda

Alvarleg veikindi aðstandenda nemenda:

 • Umsjónarkennari/skólastjórnandi fær staðfestingu á veikindunum hjá forráðamanni nemandans
 • Upplýsingum er komið til allra sem málið varðar
 • Áfallaráð fundar um málið og ákveður í samráði við forráðamenn hvernig unnið skuli að málinu
 • Aðilar úr áfallaráði aðstoða umsjónakennara við að undirbúa umsjónarhópinn hvernig hann tekur á móti nemandanum þegar hann kemur aftur í skólann. Undirbúningur skal vera í samráði við forráðamenn

Alvarleg slys aðstandenda nemanda:

 • Umsjónarkennari fær staðfestingu á slysinu hjá forráðamanni nemandans
 • Upplýsingum er komið til annarra starfsmanna sem málið varðar
 • Áfallaráð fundar um málið og ákveður í samráði við forráðamenn hvernig unnið skuli að málinu
 • Aðilar úr áfallaráði aðstoða umsjónakennara við að undirbúa bekkinn hvernig tekið er á móti nemandanum þegar hann kemur aftur í skólann. Undirbúningur skal vera í samráði við forráðamenn

Andlát aðstandanda nemanda:

 • Skólastjóri eða umsjónakennari fær staðfestingu á andlátinu hjá forráðamanni nemandans
 • Upplýsingum er komið til þeirra starfsmanna sem málið varðar
 • Mjög áríðandi er að bera allar aðgerðir skólans undir viðkomandi forráðamenn til samþykkis og hafa þá með í ráðum frá upphafi
 • Áfallaráð kallað saman (ásamt sóknarpresti eða öðrum fulltrúa sem tengist lífssýn fjölskyldunnar) á stuttan fund þar sem ráðið skiptir með sér verkum og ákveður fyrstu viðbrögð skólans
 • Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um andlátið
 • Skólaritari eða aðrir í áfallaráði skólans sér um að tilkynna þeim sem fjarri eru
 • Umsjónarkennari sér um áframhaldandi vinnu með bekknum en getur þó alltaf leitað til aðila úr áfallaráði um aðstoð
 • Bekkurinn undirbýr samúðarkveðju
 • Skólinn sendir samúðarkveðju til nemandans og fjölskyldu
 • Áfallaráð tekur ákvörðun um hvaða fulltrúi skólans verði við útförina
 • Aðili úr áfallaráði ásamt umsjónakennara heimsækir nemandann og færir honum gjöf ( t.d. kerti, blóm og kort frá bekknum)
 • Áfallaráð aðstoðar umsjónakennara við undirbúning þess að nemandinn mæti í skólann aftur til að auðvelda endurkomu hans. Undirbúningur skal ávallt vera í samráði við forráðamenn

Starfsmenn skólans

Alvarleg veikindi starfsmanns skólans:

 • Skólastjóri/áfallaráð ákveður í samráði við viðkomandi starfsmann hvernig tilkynna skuli samstarfsfólki og nemendum veikindin

Alvarleg slys starfsmanns skólans:

 • Áfallaráð ákveður í samráði við viðkomandi starfsmann eða aðstandendur hans hvernig tilkynna skuli samstarfsfólki og nemendum slysið

Andlát starfsmanns:

 • Skólastjóri leitar staðfestra upplýsinga um andlátið
 • Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um andlátið
 • Skólaritari eða aðrir starfsmenn í áfallaráði skólans sér um að tilkynna þeim sem fjarri eru
 • Gæta þarf að náin skyldmenni hins látna, sem eru við nám eða störf við skólann fái fregnina sérstaklega – ekki yfir hópinn
 • Áfallaráð fundar um hvernig tilkynna eigi nemendum andlátið
 • Ef umsjónarkennari fellur frá tilkynnir skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði og sóknarpresti umsjónarbekk andlátið og hlúir að bekknum
 • Áfallaráð tekur ákvörðun um hvernig upplýsingum um andlátið skuli komið til forráðamanna nemenda. Alltaf skal hringja í alla forráðamenn áður en andlátið er tilkynnt nemendum.
 • Skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði fer heim til nánustu aðstandenda starfsmanns.
 • Skólinn sendir samúðarkveðju til nánustu aðstandenda
 • Umsjónarmaður dregur fána í hálfa stöng á jarðarfarardegi

Andlát náinna aðstandenda starfsmanns:

 • Skólastjóri leitar staðfestra upplýsinga um andlátið
 • Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um andlátið
 • Skólaritari og aðstoðarskólatjóri skólans sjá um að tilkynna þeim sem fjarri eru
 • Gæta þarf að náin skyldmenni hins látna, sem eru við nám eða störf við skólann fái fregnina sérstaklega – ekki yfir hópinn
 • Ef maki/barn umsjónarkennara fellur frá tilkynna skólastjóri eða aðili úr áfallaráði umsjónarhópnum andlátið
 • Aðilar úr áfallaráði veita þeim kennara sem við bekknum tekur aðstoð næstu daga. Áfallaráð tekur ákvörðun um hvernig upplýsingum um andlátið skuli komið til forráðamanna nemenda
 • Skólastjóri ásamt einum fulltrúa skólans fara heim til nánustu aðstandenda starfsmanns
 • Skólinn sendir samúðarkveðju til nánustu aðstandenda

Skilnaður foreldra nemanda:

Skilnaður foreldra getur haft í för með sér svipuð sorgareinkenni og ef um dauðsfall væri að ræða. Því er mikilvægt að foreldrar geri skólanum viðvart ef um skilnað er að ræða.

Umsjónarkennari upplýsir aðra kennara nemandans um skilnað til dæmis með tölvupósti. Aðeins það starfsfólk sem kemur að nemandanum þarf að vita um skilnaðinn. Öll framkvæmd skal gerð í samráði við, viðkomandi foreldra.

Umsjónarkennari getur leitað til áfallaráðs, námsráðgjafa eða skólastjórnenda eftir ráðgjöf og aðstoð fyrir nemandann ef hann telur þörf á.

Slys og alvarlegir sjúkdómar

Ef nemandi er með alvarlegan sjúkdóm er nauðsynlegt að láta skólann og skólaheilsugæsluna vita af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, bráðaofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

Óhöpp og slys nemenda eru tilkynnt foreldrum eins fljótt og auðið er. Fyrstu viðbrögð skólans eru að koma í veg fyrir frekari slys eða meiðsli með almennri skyndihjálp. Starfsmenn skólans fara reglulega á skyndihjálparnámskeið. Slasist barn í skólanum veita hjúkrunarfræðingur, kennarar eða starfsfólk skólans skyndihjálp. Þegar meiðsli hafa verið könnuð er ákvörðun tekin um hvort og hvernig nemandi er færður á heilsugæslu eða slysadeild Landspítala háskólasjúkrahús. Þegar ákvörðun hefur verið tekin er haft samband við foreldra/forráðamenn, metið í samráði við þá og þeim tilkynnt hvað hafi gerst og hvert nemandi hefur verið færður þ.e. á heilsugæslu skólans, á heilsugæslu eða slysadeild. Jafnan er beðið um að foreldrar/forráðamenn fari sjálfir með barnið, ef aðstæður þeirra leyfa, það er barninu fyrir bestu. Þegar foreldrar/forráðamenn eru komnir á staðinn getur starfsmaður skólans yfirgefið vettvang.

Skólinn greiðir sjúkravitjun fyrir nemendur við komu. Flutningur með sjúkrabíl er greiddur af skólanum.

Öll slys sem eru með þeim hætti að barn eða fullorðinn slasast í skólanum og viðkomandi er sendur á heilsugæslustöð, á bráðamóttöku eða í sjúkrabíl skal skrá inn á atvikaskráningarvef á innri vef Garðabæjar. Ritari sér um að skrá atvikið. 

Ef meiðsli verða utan skólahúss skal fylgja eftir sömu reglum. Kennari hefur samband við skólann og biður um aðstoð við að flytja eða færa nemanda undir læknishendur. Ef slys er alvarlegt og nemandi verður frá skóla um lengri tíma ræða skólastjórnendur við bekkjarfélaga og fjalla um slysið (sjá nánar áfallaáætlun). Skólinn lætur í té alla þá aðstoð við nám nemandans sem hann getur veitt. Tilkynna þarf þeim kennurum/starfsfólki sem kenna/sinna bekknum um hvað gerst hefur og hvernig skólinn hyggst taka á málinu.

Slys utan skólatíma

Hlutverk skólans við slíkar aðstæður verður að vera í samvinnu við foreldra/forráðamenn. Skólinn hefur samband við heimili og leitar eftir upplýsingum og getur ef óskað er flutt öðrum nemendum skólans skilaboð og upplýsingar. Mikilvægt er að allar heimildir um atvik og líðan séu öruggar. Skólinn lætur í té alla þá aðstoð við nám nemandans sem hann hugsanlega getur veitt.

Kynferðislegt ofbeldi eða önnur vanræksla gagnvart börnum

Fram kemur í 13. grein laga um vernd barna og ungmenna:

 • "Tilkynningaskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum og ungmennum. Hverjum sem stöðu sinnar vegna hefur afskipta af málefnum barna og ungmenna og verður í starfi sínu var við óviðunandi misfellur á uppeldi og aðbúnaði barna og ungmenna er skylt að gera
  barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólakennurum, dagmæðrum, kennurum, prestum, læknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum og öðrum þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með
  hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna og ungmenna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að málefnum barns sé þannig komið að barnaverndarnefnd ætti að hafa afskipti af þeim. Tilkynningarskylda gengur að þessu leyti framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta."

Skólastjóri tilkynnir f.h. starfsmanna til barnaverndaryfirvalda (Fjölskyldusviðs) ef grunur vaknar um að barn hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun eða um aðra vanrækslu. Þegar um eftirfarandi grun er tilkynnt strax til Fjölskyldusviðs.

 • Grunur um kynferðislegt ofbeldi
 • Grunur um fjölþætta vanrækslu
 • Grunur um neyslu barns á áfengi eða vímuefnum
 • Grunur um áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra
 • Grunur um að barn hafi beitt annað barn ofbeldi
 • Grunur um líkamlegt ofbeldi
 • Grunur um afbrot, skemmdarverk (o.þ.h.) barns
 • Grunur um vanrækslu
 • Almenn vanlíðunareinkenni hjá barni

Rýmingaráætlun

Í Sjálandsskóla er öflugt brunaviðvörunarkerfi og vatnsúðakerfi. Rýmingaráætlun er til staðar og eru teikningar af henni á öllum svæðum skólans. Árlega er æfð rýming henni skal lokið fyrir 1. nóvember ár hvert.

Rýmingaráætlun

Við hættuástand getur reynst nauðsynlegt að rýma skólann. Grundvallaratriði er að starfsfólk og nemendur hafi æft viðbrögðin þannig að þau komi eins og af sjálfu sér þegar á þarf að halda. Við þann hraða sem ræður ferðinni við brátt hættuástand er ekki svigrúm til miðstýrðra fyrirmæla. Hver starfsmaður verður því að vita hvað hann á að gera, og nota eigin dómgreind til að meta aðstæður, t.d. hvar nemendur eru hverju sinni, hvort hann eigi að fara út með nemendahópinn út um venjulega útgönguleið eða út um neyðarútganga.

Rýmingaræfing

Hlutverk kennara:

Útskýra þarf tilgang æfinganna fyrir nemendum, sem er:

 • Aukið öryggi og þekkja viðvörunarbjöllurnar
 • Kunna að bregðast rétt við og æfa fumlaus viðbrögð
 • Koma í veg fyrir slys við rýmingu á húsnæði og þekkja bestu leiðirnar úr skólahúsinu

Sjálfsagt er að ræða við nemendur að æfing er alvarleg eðlis, - en ekki leikur. Áríðandi er að útskýra vel fyrir nemendum að ef viðvörunarbjallan þagnar fljótlega eftir að hún fer af stað og fer ekki í gang aftur er um bilun eða gabb að ræða þ.e.a.s. við forviðvörun vita nemendur og kennarar að hætta getur verið á ferðum, en ekki er þó farið út fyrr en við fulla hringingu. Ef á hinn bóginn bjallan fer af stað aftur
og stöðvast ekki er hætta á ferðum og rýma þarf húsið.

 • Kennari stýrir útgöngu sinna nemenda
 • Hver kennari fer yfir hvar nemendur safnast saman til manntals og nánari fyrirmæla (samkomustaður)
 • Á heimasvæðum ganga þeir fyrst út sem næstir eru rýmingarleið
 • Ef aðstæður leyfa fara nemendur í úlpur og skó (ekki reima, setja reimarnar niður í skóna), því ekki er hægt að senda börnin klæðlítil út í válynd veður nema í ítrustu neyð
 • Hver nemendahópur safnast saman á samkomustað á gervigrasvellinum en staðirnir eru valdir þannig að þeir trufli ekki nauðsynlegt athafnasvæði neyðarstarfsmanna við bygginguna

Ef nemendur eru hjá sérgreinakennurum fylgir sá kennari þeim út. Starfsmenn sem sjá um nesti og gæslu koma nemendum á söfnunarsvæði. Rýmingaræfingu skal lokið fyrir 1. nóvember ár hvert.

Rýming (skólaæfing / hættuástand)

Stjórnstöð viðvörunarkerfis gefur stjórnendum og umsjónarmanni hússins skilaboð um hvar neyðarboði fer af stað. Upptök eru könnuð eins hratt og mögulegt er. Bjallan er stöðvuð á meðan, - ef um hættu er að ræða er bjallan gangsett á ný. Þá fyrst ber að rýma húsið. Húsið er rýmt samkvæmt áætlun (sjá rýmingaræfing kennara) Þegar allir eru komnir út er nauðsynlegt að starfsmenn sjái um að ekki sé farið inn í skólann aftur fyrr en æfingu eða hættuástandi er lokið. Kennari tryggir að allir nemendur hans hafi skilað sér á samkomustað. Það flýtir fyrir að láta nemendur raða sér í stafrófsröð og þjálfa þá í því regluglega. Ef svo er ekki kemur hann boðum til skólastjóra sem verður á lóðinni. Ritari skal taka með út á skólalóð spjöld (rautt/grænt) á skafti og ef rautt snýr fram vantar nemanda. Spjöldin eru geymd í geymslu við gestainngang. Hann tryggir að neyðarstarfsmenn fái þessar upplýsingar, svo leit hefjist snarlega í byggingunni. Allir starfsmenn verða að leggjast á eitt þannig að rýming hússins verði fumlaus og róleg án troðnings (ekki hlaupa). Hópar halda sig á sínu svæði þar til merki hefur verið gefið um að
æfingu sé lokið eða hættuástand afstaðið.

Hlutverk starfsfólks:

 • Kennari ber ábyrgð á sínum nemendahópi
 • Stjórnandi hefur yfirsýn og veitir upplýsingar til neyðarstarfsmanna þegar þeir koma að skólanum
 • Skólastjóri er tengiliður við slökkvilið
 • Ritari tryggir að hringt sé í slökkvilið og hefur með sér tengslamöppu nemenda og foreldra og tekur rauð/græn spjöld með út á skólalóð
 • Skólaliðar og umsjónarmaður aðstoða við rýmingu, halda hurðum opnum, aðgæta W.C. o.fl.þ.h
 • Umsjónarmaður fer yfir tónmenntastofur
 • Skólaliði fer yfir kjallara
 • Starfsfólk íþróttahúss fylgir sínum hópum út á söfnunarsvæði nema einn sem er fyrir utan inngang og tryggir að enginn óviðkomandi fari inn

Allir noti eigin dómgreind sem grundvöll ákvarðanatöku.

Almannavarnaáætlun – Óveður

Sjálandsskóli fylgir reglum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), um röskun á skólastarfi vegna óveðurs. Jafnframt fylgist skólinn með veðri og veðurspám og sendir út tilkynningar í samræmi við þessar reglur. Mikilvægt er að foreldrar sjálfir fylgist með veðri og veðurspám og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni, enda getur veður þróast með ófyrirséðum hætti og aðstæður verið mjög mismunandi eftir svæðum. Foreldrar leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Viðbúnaðarstig 1: Röskun á skólastarfi – foreldrar fylgi börnum í skóla

Röskun getur orðið á skólastarfi vegna veðurs ef starfsfólk á erfitt með að komast í skóla. Við þessar aðstæður eru skólar engu að síður opnaðir og taka á móti nemendum og þeir geta dvalið þar á meðan skipulagt skólahald á að fara fram. Mjög mikilvægt er að foreldrar fylgi börnum til skóla og yfirgefi þau alls ekki fyrr en þau eru í öruggum höndum starfsfólks. Í upphafi skóladags getur verið að mönnun skóla sé takmörkuð. Foreldrar geta þá búist við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra. Foreldrar eru hvattir til að taka slíkum beiðnum vel. Geysi óveður við lok skóladags er metið hvort óhætt sé að senda börnin heim eða hvort ástæða er til að foreldrar sæki börn sín. Þá eru gefnar út tilkynningar um það, auk þess sem skólarnir leggja sig fram um að hafa samband við foreldra.

Viðbúnaðarstig 2: Skólahald fellur niður

Séu aðstæður þannig að óhjákvæmilegt sé að fella skólahald niður um tíma vegna veðurs fá fjölmiðlar tilkynningu um það. Þá ber foreldrum að halda börnum sínum heima þangað til tilkynningar berast um annað.

Móttaka nýrra nemenda með annað móðurmál en íslensku

Áætlunin Sjálandsskóla um móttöku nemenda með annað móðurmál en íslensku byggir á lögum um grunnskóla, 16. gr. 91/2008 og Handbók um móttöku innflytjenda sem gefin var út fyrir grunnskóla Reykjavíkur og höfð hefur verið til hliðsjónar, sem aðgengilegt er á Netinu.

Innritun nemanda

Ábyrgð: Forráðamenn, stjórnendur, ritari.

 1. Forráðamenn innrita nemanda í skóla í gegnum vef Garðabæjar eða gera skólanum viðvart um komu nemandans í skóla. Mikilvægt er að skóli hafi svigrúm til að undirbúa komu nemandans vel til að tryggja upplýsingaflæði og aðkomu þeirra kennara sem koma til með að sinna nemandanum. Einnig til að skólabyrjunin geti orðið nemandanum farsæl.
 2. Tími er ákveðinn fyrir móttökuviðtal þar sem forráðamenn mæta með nemandanum.
 3. Skólinn pantar túlk fyrir móttökuviðtal ef þurfa þykir.
 4. Komið er á sambandi foreldra við fjölskyldusvið Garðabæjar ef nemandi er nýlega fluttur til landsins.

Undirbúningur viðtals í skóla

Ábyrgð: Stjórnendur, umsjónarkennari.

 1. Stjórnendur í samráði við kennara velja bekk fyrir nemandann
 2. Umsjónarkennari fær upplýsingar um nemanda og móttökuviðtal
 3. Umsjónarkennari undirbýr bekkinn fyrir komu nýs nemanda og tilkynnir jafnframt öðrum kennurum sem kenna bekknum um komu hans.
 4. Fyrir móttökuviðtalið þarf að undirbúa stundatöflu, innkaupalista, upplýsingar um áskrift að hádegismat og nesti. Einnig er gott að fara yfir skólareglur, skóladagatal og upplýsingar veittar um heimasíðu skóla og þær upplýsingar sem hægt er að nálgast þar. Aðgangur undirbúinn að
  Námfús ásamt útskýringum á fyrirkomulagi hans.

Móttökuviðtal

Ábyrgð: Stjórnendur, umsjónarkennari, sérkennari

 1. Viðtalið sitja nemandi, foreldrar, túlkur (ef þarf), skólastjórnandi, sérkennari, umsjónarkennari og aðrir sem nauðsynlegt er talið að sitji fundinn.
 2. Mikilvægt getur verið að túlkur sé á staðnum þrátt fyrir að annað foreldri sé íslenskt til að reyna að tryggja að allir skilji það sem um er rætt með sama hætti.
 3. Nemendur sem ekki eru komnir með kennitölu á Íslandi eru innritaðir á þar til gerðu eyðublaði skóla í viðtalinu.
 4. Bakgrunnsupplýsingum er safnað um nemendann.
 5. Ákveðinn er annar fundartími til eftirfylgni ekki seinna en mánuði eftir að skólaganga hefst.
 6. Eftir fundinn sér umsjónarkennari til þess að öllum nauðsynlegum upplýsingum um nemandann sé komið til annarra kennara í skólanum og þeirra sem koma að kennslu bekkjarins og sátu ekki viðtalið.

Í móttökuviðtali er mikilvægt að ræða eftirfarandi þætti:

 • Stundaskrá.
 • Skipulag í íþróttum og sundi. Reglur, fatnaður, sturtur og mætingar.
 • Útskýra innkaupalista, hvað þarf að kaupa og af hverju ásamt því að farið er yfir það sem skóli útvegar.
 • Skóladagatal. Uppbrotsdagar, skipulagsdagar og foreldraviðtalsdagar útskýrðir fyrir foreldrum.
 • Kynna símanúmer skóla og hvernig fyrirkomulagið er á tilkynningum um forföll nemenda. Heimasíða og netföng bæði stjórnenda og kennara kynnt.
 • Skólareglur og áhersla á mætingaskyldu skv. íslenskum grunnskólalögum.
 • Nemendur sem geta sótt Sælukot fá kynningu á því og skipulagi frístundar.
 • Foreldrar ásamt kennara og stjórnendum ákveða í móttökuviðtali hvenær skólasókn nemanda á að hefjast og farið er yfir það með hvaða hætti upphaf skólagöngunnar verður.
 • Nemandinn fær upplýsingar um það hvert hann á að leita ef honum líður illa í skólanum. Honum býðst stuðningsaðili, sem hann getur alltaf leitað til. Sá aðili getur ýmist verið nemandi í sama bekk, eldri nemandi eða starfsmaður skóla
 • Námfús kynntur og foreldrar fá lykilorð.
 • Farið er með nemandann og foreldra hans um húsnæði skólans og skipulag hans kynnt fyrir þeim. Æskilegt er að nemandinn hitti bekkinn sinn í þeirri ferð ef þess er einhver kostur.
 • Námsráðgjafi boðar nemandann í viðtal til sín fljótlega eftir að hann hefur nám við skólann.

Fyrstu skóladagarnir og framhaldið

Ábyrgð: Umsjónarkennari, sérkennari, stjórnendur

 1. Tveir til þrír nemendur í bekknum eru beðnir um að hjálpa nýja nemandanum að rata á milli í skólahúsnæðinu og Vinaliðar bjóða öllum með í leiki í frímínútum.
 2. Námsráðgjafi hittir nemandann fljótlega eftir að skólasókn hefst og eins oft og þurfa þykir.
 3. Kennari með áherslu á íslensku sem annað tungumál hittir nemandann og setur niður tíma í íslensku þar sem nemandinn fær kennslu við hæfi.
 4. Á fyrsta misseri nemandans í skóla hittir sá aðili sem heldur utan um íslenskunámið hann daglega og leggur til verkefni. Í byrjun er lögð áhersla á orð, lestur, spil og leiki þar sem unnið er með tungumálið og ýmis önnur verkefni.
 5. Umsjónarkennari boðar fund með foreldrum tveimur mánuðum eftir að skólaganga hefst. Markmið þess fundar er að fara yfir fyrstu skrefin í skólagöngu nemandans á Íslandi.
 6. Á öðru misseri hittir sérkennari nemandann tvisvar sinnum í viku þar sem áfram er unnið með tungumálið og markmiðið er að auka skilning og orðaforða nemandans í íslensku jafnt og þétt.
 7. Á þriðja misseri er eftirfylgni sérkennara en áætlað er að nemandi nái að fylgja samnemendum sínum að mestu leiti með stuðningi þó.

Öryggis- og slysavarnir

Á leið í og úr skóla

Engin ábyrgð er tekin t.d. á reiðhjólum, hlaupahjólum, hjólabrettum eða línuskautum sem nemendur koma á í skólann. Af öryggisástæðum er ekki leyft að leika á slíkum tækjum á skólalóðinni á skólatíma. Nemendur eru beðnir að læsa hjólum sínum við hjólagrindur og geyma þau þar á skólatíma. Það á jafnt við um hjól og hlaupahjól en ekki er í boði að geyma þau inni í skólahúsnæðinu. Forráðamenn bera ábyrgð á því að nemendur noti öryggishjálma og annan öryggisbúnað á reiðhjólum, hlaupahjólum, hjólabrettum og línuskautum. Nemendur fá ekki að fara í hjólaferðir með skólanum nema að þeir hafi öryggishjálm.

Forráðamenn eru hvattir til að gæta þess að börnin beri endurskinsmerki í yfirhöfnum og á skólatöskum.

Vettvangsferðir

Nemendur Sjálandsskóla fara oft í vettvangsferðir á öllum skólastigum. Útikennsla er ríkur þáttur í skólastarfinu allra nemenda í 1.-7.bekk. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og gæta þess að börnin komi klædd eftir veðri. Útikennsla er alltaf á sama tíma í stundatöflum nemenda og auðvelt að fylgjast með dagskránni í fréttabréfum frá kennurum. Útikennsla er alltaf á sama tíma í stundatöflum
nemenda og auðvelt að fylgjast með dagskránni í fréttabréfum frá kennurum.

Tryggingar

Öll skólabörn í Garðabæ eru tryggð hjá VÍS hvort sem það eru líf-, örorku- eða slysatryggingar, á meðan þau eru á ábyrgð skólans á skólatímum s.s. á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans. Gera þarf skýrslu um þau óhöpp sem upp kunna að koma og senda VÍS til varðveislu. Foreldrum/forráðamönnum er bent á að senda reikninga sem verða til vegna slysa til VÍS sem sér um að greiða sjúkrakostnað, enda
skýrslan í þeirra höndum.

Klæðnaður

Forráðamenn bera ábyrgð að börnin þeirra séu klædd eftir veðri. Nemendur fara daglega í útivist og því mikilvægt að haga klæðnaði í samræmi við veður. Veður á Íslandi eru stundum breytileg yfir einn skóladag. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að kenna börnum sínum að klæða sig eftir veðri og veðurspá.

Forráðamenn eru hvattir til þess að sjá um að börnin beri endurskinsmerki. Forráðamenn eru hvattir til að merkja allan fatnað vel. Í skólanum, Sælukoti og íþróttamiðstöð er mikið af óskilafatnaði. Ef fatnaður og aðrar eigur nemenda skila sér ekki heim að loknum skóladegi, eru foreldrar/forráðamenn vinsamlegast beðnir að snúa sér til skólaliða og húsvarðar eða skrifstofu skólans. Tvisvar á ári er óskilafatnaði stillt upp á borð í skólanum í þeirri von að koma honum í hendur réttra aðila. Um áramót og í júní er farið með allan fatnað í Rauða krossinn.

English
Hafðu samband