Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sérkennsla er eitt af námstilboðum skólans til að mæta þörfum nemenda. Hún felur í sér breytingu á námsaðstæðum, námsefni, námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum.
Sérkennslan er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum viðkomandi nemanda og fer ýmist fram innan eða utan almennra bekkjardeilda. Við skipulag sérkennslu í Sjálandsskóla er unnið eftir reglugerð um sérkennslu.

Í reglugerð um sérkennslu segir:
Sérkennsla felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans.
Í sérkennslu felst m.a.:
Gerð rökstuddrar námsáætlunar fyrir nemendahóp eða hvern einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemanda og á athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska. Tilgreind skulu langtíma- og skammtímamarkmið með kennslunni.

Kennsla samkvæmt námsáætlun.

Skipuleg skráning og regluleg endurskoðun á námsáætlun og kennslu.

Í reglugerðinni er ennfremur getið um réttindi nemenda og forráðamanna þar segir:

Ef forráðamenn, kennarar og sérfræðingar sérfræðiþjónustu skóla eru sammála um að nemandi þurfi á sérstöku námstilboði að halda skal hann eiga rétt á sérkennslu. Um sérkennsluúrræði og gerð námsáætlunar fyrir einstaka nemendur skal skólastjóri hafa samráð við forráðamenn og leita samþykkis þeirra.

Allar athuganir og rannsóknir sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki forráðamanna.

Foreldrum og/eða forráðamönnum er heimilt að lesa þau gögn sem eru í vörslu skóla og fræðsluyfirvalda sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar varðandi skólagöngu barna þeirra að viðstöddum sérfræðingi viðkomandi starfsstéttar. Með allar slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

Umsjónarkennari skal fylgjast með námi og þroska nemenda sinna, leiðbeina þeim og hafa reglulegt samband við forsjármenn þeirra. Umsjónarkennari skal einnig fylgjast með námi nemenda sinna hjá öðrum kennurum, þ.m.t. í sérkennslu.

Í Sjálandsskóla hefur sérkennari umsjón með gerð einstaklingsnámsskrár. Til grundvallar skulu lagðar athuganir og prófanir sem gerðar hafa verið í skólanum og/eða af sérfræðingum skólaþjónustu. Einstaklingsnámskrá skal innihalda niðurstöður greininga, úrræði, kennsluáætlun, markmið, áætlun um mat og hvernig samskiptum við foreldra verður háttað.

Sérkennsla er veitt einstaklingum eða hópum. Hún getur verið bundin við afmarkaða þætti náms eða almenn námsaðstoð og byggist skipulag og inntak hennar á greiningu og mati á stöðu nemenda og þörfum þeirra.

Þegar alvarlega fatlað barn hefur skólagöngu er æskilegt að undirbúningur hefjist með góðum fyrirvara, allt að einu ári. Sá tími er notaður til að koma á tengslum við foreldra barnsins, afla upplýsinga um þarfir þess og skipuleggja kennslu og þann stuðning sem barnið kann að þarfnast.

Í Sjálandsskóla skiptist sérkennsla í kennslu nemenda með einstaklingsnámskrá, stuðningskennslu og nýbúakennslu.

Sérkennslutímum er skipt milli nemenda í samræmi við þarfir þeirra og endurskoðun fer fram nokkrum sinnum á ári. Í sérkennslu fer reglulega fram mat á stöðu nemenda.  

Framhald sérkennslunnar er skipulagt í samræmi við niðurstöðu matsins. Talsverður sveigjanleiki er á fjölda nemenda í sérkennslu og fer það eftir þörf og áherslum hverju sinni.

Þegar um er að ræða nemendur með miklar sérþarfir eru haldnir reglulegir fundir með þeim aðilum sem skipuleggja og vinna sameiginlega að námi nemanda. Einnig eru haldnir reglulega fundir með foreldrum/forráðamönnum.

Kennsla nemenda með einstaklingsnámsk
Í þessum hópi eru nemendur með sértæka námserfiðleika, með einbeitingar-, félags og/eða tilfinningalega erfiðleika og fatlaðir nemendur.

Einstaklingsnámskráin er sett fram í samræmi við þarfir hvers og eins. Kennsla þessara nemenda tekur mið af sérstökum forsendum og færni nemandans. Stöðugt endurmat og aðlögun að kennsluáætlun fer fram.


Stuðningskennsla
Í stuðningskennslu eru börn sem fylgja kennslu og námsefni bekkjar en vinna hægt og þarfnast aðstoðar.

Nýbúakennsla
Nýbúakennsla er fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa dvalið langtímum erlendis og felur í sér íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt þjóðfélag. Skólanum er úthlutað vissum tímafjölda að hausti til þessarar kennslu. Markmið kennslu í íslensku fyrir nýbúa er að nemendur öðlist kunnáttu og færni í íslensku sem geri þeim kleift að stunda nám í íslenskum skólum og skilja íslenska menningu. Áhersla er lögð á færni í íslensku, að tala íslensku og skilja talað mál og ritað. Reynt er að tryggja félagslega stöðu nemandans í skólanum. Aðlögun, sjálfsmynd og sjálfstæði nemandans er styrkt og reynt að auka hæfni hans í félagslegum samskiptum. Mikilvægt er að huga vel að líðan nýbúa og félagstengslum og reyna eftir föngum að styrkja þá í nemendahópnum og efla vináttubönd.
English
Hafðu samband