Stóra upplestrarkeppnin
20.03.2015
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Félagsheimili Seltjarnarness miðvikudaginn 18. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni. Á lokahátíðinni fengu 12 nemendur úr Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla, Vífilsskóla og Valhúsaskóla (grunnskóli Seltjarnarness) að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta. Í ár var lesið upp úr skáldsögunni Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur og ljóð eftir Anton Helga Jónsson. Í síðustu og þriðju umferð fengu nemendur að lesa ljóð að eigin vali. Að loknum upplestri var boðið upp skemmtiatriði frá skólunum sem tóku þátt, tónlistarflutning og dansatriði. Í lok hátíðar afhenti Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness öllum lesurunum bók frá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem viðurkenningu fyrir þátttökuna. Allir þátttakendur stóðu sig vel og erfitt var að velja þrjá lesara úr hópnum. Formaður dómnefndar var að þessu sinni Svanhildur Eiríksdóttir frá samtökunum Röddum og hún tilkynnti um val dómnefndar í lokin og afhenti sigurvegurunum viðurkenningu Radda samtaka um vandaðan upplestur og framsögn og gjafabréf frá Íslandsbanka. Í fyrsta sæti var Guðrún Margrét Bjarnadóttir úr Hofsstaðaskóla, Gígja Hafsteinsdóttir úr Sjálandsskóla var í öðru sæti og í þriðja sæti var Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson úr Vífilsskóla. Sjá nánar á vef Garðabæjar