Félagsmiðstöðin Klakinn
Dagskrá félagsstarfs Klakans hefst þriðjudaginn 8. september með opnunarhátíð.
Skipulag dagskrár verður í höndum nemenda í félagsmálavali og starfsmanna Klakans. Kvöldstarfið er ætlað nemendum í 8. til 10. bekk.
Stundum flyst dagskrá úr húsi vegna ferða eða Samfésviðburða eða í annarri samvinnu við félagsmiðstöðvar og skóla. Húsinu er þá lokað á meðan.
Fyrsta ball skólaársins verður haldið 1. október frá 19.30-22 á sal skólans.
Rétt er að geta þess að forráðamenn nemenda þurfa að samþykkja það ætli börn þeirra að bjóða vinum og jafnöldrum úr öðrum skólum á skemmtanir. Forráðamenn geta sent okkur upplýsingar á helgav@sjalandsskoli.is
Allir í unglingadeild eiga þess kost að bjóða sig fram til stjórnar nemendafélagsins. Kosningar fara fram í byrjun september. Frekari upplýsingar til nemenda koma fyrstu vikuna í september.
Haustferðir nemenda verða sem hér segir:
21.-22. september, fer 9. bekkur á Úlfljótsvatn.
22.-23. september fer 8. bekkur einnig á Úlfljótsvatn.
28.-29. september fer 10. bekkur til Vestmannaeyja.
Frekari upplýsingar um ferðirnar verða sendar heim síðar.
Opnunartími
Klakinn er opinn öllum unglingum í 8.-10. bekk, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl 19.30 – 22.00. Það er frjálst að koma og fara hvenær sem er á opnunartímanum.
Staðsetning Klakans
Klakinn er með aðstöðu inni á unglingasvæði skólans og skrifstofa forstöðumanns er inni á unglingadeildarsvæði.
Hlutverk félagsmiðstöðvarinnar er að styðja við unglinga í gegnum fjölbreytt tómstundastarf. Megin markmið starfsins er að veita þeim tækifæri til samveru og stunda heilbrigðar tómstundir undir leiðsögn reyndra tómstundaleiðbeinenda. Leiðarljós starfsins er að efla félagsfærni, sjálfsmynd og virkni unglinganna. Unnið er út frá hugmyndafræði barna- og unglingalýðræðis, hugmyndum og áhugasviði nemenda skólans. Leitað verður eftir röddum unglinganna hvað varðar starfsemi og þær uppákomur sem verða hverju sinni, innra starf og umgjörð.
Dæmi um viðburði á opnum kvöldum Klakans:
Spilakvöld · feluleikur um skólann · böll · gistigleði · lan · fífamót · varúlfur · ratleikur · átkeppni · lazertag · kökukeppni · íþróttamót · kósýkvöld · stelpu- og strákakvöld · bíókvöld · 8. bekkjarkvöld · þrautakvöld · slím og slef · vinakvöld · kaffihúsakvöld
Starfsfólk Klakans
Forstöðumaður Klakans er Helga Vala Gunnarsdóttir og hef starfað í Klakanum í þrjú ár. Áður starfaði hún 8 ár í Hafnarfirði sem forstöðumaður félagsmiðstöðva þar í bæ. Starf forstöðumanns felst m.a. í því að halda utan um félagsmálaval, stjórn nemendafélags skólans og aðstoða nemendur við undirbúning starfsins. Einnig tekur forstöðumaður að sér verkefni innan skólans eftir þörfum s.s. hópastarf og hópefli. Forstöðumaður mun taka þátt í haust- , vetrar og vorferðum 8., 9. og 10. bekkjar. Kvöldstarfsfólk Klakans starfaði allt í Klakanum síðastliðinn vetur og er því vel kunnugt unglingunum. En þau eru Lea Björk Auðunsdóttir, Tómas Þór Jacobsen og Atli Dan Ólafsson.
Félagsmiðstöðin er með “like” facebook síðu þar sem helstu upplýsingar um viðburði, myndir, markmið og áherslur starfsins er að finna. Klakinn hvetur ykkur til að fylgjast vel með starfinu og nálgast upplýsingar. Hægt er að finna okkur undir “Félagsmiðstöðin Klakinn”. Einnig munu koma upplýsingar inná heimasíðu Sjálandsskóla undir flipanum “Klakinn”.
Ef einhverjar spurningar vakna eða ef þið viljið koma með ábendingar ekki hika við að hafa samband við starfsmenn með heimsókn, símtali eða tölvupósti.
Félagsmiðstöðin Klakinn
Langalína 8, 210 Garðabæ
S. 5903109 / 6171542
helgav@sjalandsskoli.is
https://www.facebook.com/klakinn210