Vinaliðar á námskeið
Á mánudaginn fóru fyrstu vinaliðarnir úr Sjálandsskóla á leikjanámskeið í tengslum við vinaliðaverkefnið ásamt vinaliðum úr Kársnesskóla í Kópavogi, þar sem þeir lærðu leiki og fengu fræðslu um hlutverk sitt.
Vinaliðaverkefnið hóf göngu sína í Sjálandsskóla í síðustu viku, en verkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda.
28 vinaliðar voru valdir í 3.-7. bekk eftir tilnefningum frá nemendum, en vinaliðarnir skiptast á að velja og leiða leiki í hádegisfrímínútunum. Markmiðið er að allir geti fundið sér leik í frímínútum og öllum sé boðið að vera með.
Verkefnið er norskt að uppruna en hefur verið í gangi í nokkur ár á Íslandi, þar sem Árskóli á Sauðárkróki heldur utan um verkefnið. Verkefninu er meðal annars ætlað að vinna gegn einelti, auka hreyfingu og efla leiðtogahæfni nemenda.
Nánari upplýsingar um verkefni er að finna á https://tackk.com/vinalidar.