Samskiptasáttmáli Garðabæjar
Í síðustu viku tóku nokkrir nemendur úr 6.-10. bekk þátt í rýnihópavinnu um nýjan samskiptasáttmála Garðabæjar með Sesselju skólastjóra, Ósk aðstoðarskólastjóra og Rósu námsráðgjafa. Sáttmálinn byggir á lögum um grunnskóla nr. 91/2008, lögum um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011, lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur það markmið að auka vellíðan, velferð, lífsgæði og heilsu barna í Garðabæ.
Rýnihópavinnan með nemendum gekk út á það að kynna fyrir þeim nýjan samskiptasáttmála Garðabæjar sem nú er í vinnslu og fá álit þeirra á málum sem skipta þau máli. Í vinnu við nýjan samskiptasáttmála skiptir máli að raddir barna fái að heyrast og verða athugasemdir nemenda teknar saman og sendar til frekari úrvinnslu á fræðslusviði bæjarins áður en endanlega útgáfa sáttmálans verður gefin út og birt.
Nemendur stóðu sig ótrúlega vel og voru skólanum til sóma.
Á myndasíðunni má sjá nokkrar myndir frá rýnihópavinnunni