Hrafnhildur Sigurðardóttir hlaut íslensku menntaverðlaunin
Hrafnhildur Sigurðardóttir kennari og verkefnastjóri í Sjálandsskóla hlaut íslensku menntaverðlaunin í flokknum framúrskarandi kennari. Verðlaunin eru veitt kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr. Hrafnhildur hlaut verðlaunin fyrir fjölbreytta og hugmyndaríka útikennslu, þróun fjölbreyttra valgreina og leiðsögn við kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.
Í umsögn um kennslu hennar segir meðal annars:
Hrafnhildur gerir hverja kennslustund að ævintýri, hvort sem um er að ræða hefðbundin verkefni eða í fjörunni, á kajak, í fjallgöngu eða í útieldun. Ósjaldan má sjá nemendur Sjálandsskóla setja upp tjöld í nágrenninu, hjóla upp í Heiðmörk eða skoða lífríkið í flæðamálinu. Nemendur sem af einhverjum ástæðum hafa átt erfitt uppdráttar í skólanum hafa notið aðstoðar Hrafnhildar. Hún hefur einstakt lag á því að nálgast nemendur, styrkja þá félagslega og bæta líðan.
Við óskum Hrafnhildi innilega til hamingju með verðlaunin.