Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

"Margir takk" -húfurnar komnar á áfangastað

18.01.2016
"Margir takk" -húfurnar komnar á áfangastað

Núna eru húfurnar sem nemendur Sjálandsskóla prjónuðu fyrir jólin komnar til flóttabarna í Vín í Austurríki. Þar var sendiherra Íslands í Vín, Auðunn Atlason, sem sá um að koma húfunum í réttar hendur í flóttamannabúðum í Vín.

Við fengum eftirfarandi bréf frá honum:

Afhendingin fór fram í flóttamannaheimilinu Gerieatriezentrum Wienerwald að viðstöddum forsvarsmönnum flóttamannaaðstoðar Vínar og hjálparsamtakanna Caritas. Búið var að skipuleggja að 5 börn yrðu viðstödd en þeim fjölgaði hins vegar ört þegar við komum og fljótlega fylltist allt af krökkum, sem var mjög skemmtilegt. Þetta fór fram í bakgarði heimilisins á köldu síðdegi. Fyrst tók ljósmyndari austurríska dagblaðsins Kronenzeitung myndir og svo sagði ég nokkur orð á ensku um verkefnið „Hlýjar hugsanir“ sem ungur maður túlkaði fyrir krakkana og þá fullorðnu sem voru viðstaddir. Samhliða biðu menn ekki boðanna, opnuðu kassann frá Íslandi og fóru að velja sér húfur. Úr varð ys og þys og starfsmaður átti fullt í fangi með að deila út, svo mikill var áhuginn og gleðin! Svo mynduðu krakkarnir röð og allir fengu húfu. Í lokin var tekin hópmynd, klappað og hlegið og svo drifu allir sig aftur inn.
Á flóttamannaheimilinu eru rúmlega þúsund manns, flestir frá Sýrlandi, Afganistan og Írak, langmest fjölskyldur. Húfurnar koma því að góðum notum hjá öllum krökkunum þarna. Þeir sem ég talaði við lýstu miklu þakklæti, fannst þetta frábært framtak og báðu fyrir góða kveðju til allra í Sjálandsskóla. Mér er ljúft og skylt að koma því áfram til þín og þinna.
Takk aftur fyrir samstarfið – það var heiður að fá að vera milliliður fyrir ykkar hönd á lokaspretti þessa góða verkefnis.
Auðunn Atlason, sendiherra í Vín.

Hér eru myndir sem hann sendi okkur frá afhendingunni

Facebook síða verkefnisins "Hlýjar hugsanir"

 

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband