Sjálandsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin

Forseti Íslands afhenti í gærkvöldi, miðvikudaginn 9. nóvember 2011, Íslensku menntaverðlaunin fyrir árið 2011. Verðlaunin voru afhent við fjölmenna athöfn í Sjálandsskóla og hlaut skólinn verðlaun fyrir metnaðarfullt starf frá stofnum skólans. Við erum afar ánægð með þessa viðurkenningu og verður hún okkur hvatning til frekari uppbyggingar og nýsköpunar í framtíðinni.
Til hamingju starfsfólk og nemendur Sjálandsskóla!
Myndir frá verðlaunaafhendingunni
Í tilkynningu frá Menntamálaráðuneytinu segir:
Íslensku menntaverðlaunin, sem einkum eru bundin við grunnskólastarfið, eru veitt í fjórum flokkum:
Í flokknum Skóli sem sinnt hefur nýsköpun hlaut verðlaunin Sjálandsskóli í Garðabæ.
Sjálandsskóli tók til starfa haustið 2005. Frá upphafi voru starfinu sett afar metnaðarfull markmið. Áhersla var lögð á einstaklingsmiðað nám, fjölbreytta, sveigjanlega og lýðræðislega kennsluhætti, sköpun og tjáningu. Skólabyggingin sjálf er einstakt umhverfi utan um þetta metnaðarfulla starf. Kennslurýmin eru opin og áhersla lögð á að nemendur taki þátt í að skipuleggja námið. Þeir gera sér námsáætlanir í samstarfi við kennara sína og bera meiri ábyrgð á starfi sínu en víða gerist. Fáir skólar bjóða jafn fjölbreytt og áhugavert val á unglingastigi. Þar geta nemendur valið milli 50 ólíkra viðfangsefna; útieldun, ítölsk matargerð, skartgripagerð, kajakróður, franska, sagnfræði og fatahönnun eru dæmi um þetta fjölbreytta val sem stenst fyllilega samjöfnuð við það sem gerist í fjölmennustu skólunum.
Í flokknum Kennari sem skilað hefur merku ævistarfi hlaut verðlaunin Gunnlaugur Sigurðsson fyrrverandi skólastjóri í Garðaskóla í Garðabæ.
Gunnlaugur gegndi starfi skólastjóra í Garðaskóla í Garðabæ frá stofnun skólans árið 1966 og til ársins 2003. Á starfsferli sínum markaði hann djúp spor í skólasögu Garðabæjar, sem og landsins alls. Hann er hugsjónamaður og hreif samstarfsfólk, foreldra og nemendur með sér í framfara- og tilraunastörfum. Gunnlaugur er leiðtogi sem í krafti sannfæringar sinnar kom í verk fjölmörgum framsæknum nýjungum og breytingum sem í dag þykja eðlilegar í almennu skólastarfi.
Í flokknum Ungt fólk sem við upphaf kennsluferils síns hefur sýnt hæfileika hlaut verðlaunin Karólína Einarsdóttir kennari í Akurskóla í Reykjanesbæ.
Karólína lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2007 og hóf kennslu þá um haustið við Akurskóla í Reykjanesbæ. Hún er hugmyndaríkur frumkvöðull í kennslu og hefur verið í forsvari fyrir þróunarverkefni á sviði útikennslu. Hún er verðugur fulltrúi ungra kennara sem leggja mikla alúð, fagmennsku og metnað í störf sín, nemendum, samstarfsmönnun og nærsamfélagi sínu til heilla.
Í flokknum Höfundar námsefnis hlutu Guðbjörg Pálsdóttir, Guðný Helga Gunnarsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Guðrún Angantýsdóttir fyrir námsefnið Geisla.
Geisli er heiti á námsefnisflokki í stærðfræði fyrir miðstig grunnskóla. Í honum er reynt að beita fjölbreytilegri og nútímalegri nálgun á stærðfræðinám og beitingu stærðfræði í daglegu lífi. Þannig byggir framsetning efnis og verkefna fyrst og fremst á því að nemendur öðlist skilning á því sem þeir eru að fást við hverju sinni. Rík áhersla er lögð á að þeir skrái skipulega hjá sér þær leiðir sem þeir fara að úrlausnum sínum og geti rökstutt svör sín, með stuðningi hvort heldur sem er orða, mynda eða tákna.