Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Bloggað í textílmennt

03.09.2013
Bloggað í textílmennt

Silja textílkennari hefur stofnað blogg þar sem nemendur í textílmennt munu blogga um það sem þau gera í textílmennt í vetur. 

Slóðin er: textilmenntrokkar.blog.is

Með auknu aðgengi að ipöddum í skólanum er gaman að gera tilraunir í kennslunni. Aðgangur að netinu opnar endalausa möguleika, auk þess sem myndavélar auðvelda gagnasöfnun.

Nemendur geta lært að prjóna, sauma eða vefa á Youtube og safnað hugmyndum af áhugaverðum verkefnum á Pinterest. Sjálfstæði áhugasamra nemenda eykst og áhugasömum nemendum fjölgar með auknum möguleikum og fjölbreyttari verkefnum. Engu að síður er mikilvægt að kenna nemendum ákveðinn grunn, kenna þeim að nýta sér tæknina og túlka og útfæra á eiginn hátt.

Þetta blog er í raun tilraun. Tilraun til að safna upplýsingum um textílkennsluna og miðla þeim. Tilraun til að fá nemendur til að tjá sig um eigin verk og vinnslu þeirra. Tilraun til að bæta lestri, skrifum/tjáningu, myndatökum og myndvinnslu við hefðbundin textílverkefni.

Ætlunin er að taka myndir í öllum textíltímum og setja á bloggið, ásamt texta. Kennari sér um bloggið á yngsta stigi, en nemendur á miðstigi skiptast á að blogga - alveg eins og þeir skiptast á að sópa.

Á bloggið geta slæðst stafsetningar- og/eða innsláttarvillur hvort sem er frá kennara eða nemendum, og eru lesendur beðnir afsökunar á því og beðnir að taka vilja fyrir verkið. Það er betra að reyna og gera nokkrar villur en að þora ekki að prófa.

Endilega verið dugleg að skoða bloggið, deila því með ættingjum og vinum og ekki hika við að hafa samband. Munið bara að jákvæð og uppbyggileg skilaboð eru mun skemmtilegri en neikvæðni.

Sólarkveðjur,

Silja

Til baka
English
Hafðu samband