Merkjasamkeppni leikjaleiðtoga

Í tengslum við þróunarverkefnið Frímínútnafjör sem Urriðaholtsskóli, Sjálandsskóli, Álftanesskóli og Hofsstaðaskóli standa að var efnt til merkjasamkeppni meðal nemenda í 4. - 7. bekk. Nemendur voru hvattir til að hanna merki fyrir Leikjaleiðtogana en það eru nemendur sem stjórna leikjum í frímínútum. Nemendur fengu þau fyrirmæli að skila merkinu á A4 blaði eða á tölvutæku formi. Margar frábærar tillögur bárust frá hverjum skóla en að lokum voru tvær valdar frá hverjum þannig að átta merki kepptu til úrslita. Mjótt var á mununum en merki eftir Hildi Myrru Finnsdóttur Þormar í 5. bekk í Sjálandsskóla fékk flestar tilnefningar og varð því fyrir valinu. Við óskum Hildi Myrru til hamingju með flotta merkið sem hún hannaði og einnig er öllum nemendum sem tóku þátt í keppninni þakkað fyrir sitt framlag.